Skoðun

Axlaðu ábyrgð herra borgarstjóri!

Óttar Guðlaugsson skrifar
Ákvörðun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur um að setja innkaupabann á Ísrael, vinaþjóð Íslands til áratuga, hefur af skiljanlegum ástæðum valdi miklum usla víða um heim og dregið dilka á eftir sér.

Alþjóðleg samtök gyðinga hafa hótað málsókn, erlendir ferðamenn hafa afbókað ferðir sínar til landsins í massavís, íslenskar vörur hafa verið teknar úr hillum stórra bandarískra verslunarkeðja, erlendir birgjar hafa afpantað íslenskar vörur og fjárfestar á bakvið byggingu nýs lúxushótels við Hörpu hafa greint frá því að vafi ríkji um fjármögnun þess í kjölfar fyrrnefndrar ákvörðunar borgarmeirihlutans.

Það stefnir því í að fyrirtæki og einstaklingar út í bæ muni tapa milljónum, ef ekki milljörðum, vegna ákvörðunar sem lögfræðingar, og raunar sjálft utanríkisráðuneytið, hafa sagt brjóta gegn landslögum jafnt sem jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Ákvörðunar sem borgarstjóri sjálfur hefur sagt að hafi verið vanhugsuð kveðjugjöf til fyrrum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, þó svo að viðkomandi borgarfulltrúi hafi þvertekið fyrir það og í kjölfarið ásakað borgarstjórann um ósannindi enda hafi drögin að tillögunni legið fyrir í heilt ár.

Í dag ætlar borgarstjóri síðan að freista þess að lágmarka tjónið, sem hann sjálfur olli, með því að draga „kveðjugjöfina“ vanhugsuðu til baka. Þó svo að slíkt sé vissulega skref í rétta átt þá dugir það einfaldlega ekki til. Skaðinn er núþegar skeður og einhver verður að axla ábyrgð á þessu fordæmalausa klúðri. Borgarstjórinn verður að sýna kjósendum, og þá sérstaklega þeim sem hann hefur ollið fjárhagslegu tjóni, þá lágmarksvirðingu að axla ábyrgð á gjörðum sínum og segja af sér.



Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×