Ágreiningurinn lagður til hliðar Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa 19. desember 2015 08:00 Augljós pirringur er kominn í alþingismenn sem undanfarið hafa rætt fjárlög og umdeild mál. Þingmenn hafa verið duglegir að kvarta hver undan öðrum og saka hver annan um sögulegt málþóf, eða sögulegt efndaleysi – eftir því hvorum megin þeir standa í stjórnmálunum. Fréttablaðið náði þingmönnum í stund á milli stríða, menn lögðu ágreiningsefnin til hliðar og jólaandinn sveif yfir vötnum.Birgitta Jónsdóttir.Birgitta Jónsdóttir: Mikilvægt að láta gott af sér leiðaÍ skammdeginu eru jólin birtuhátíð sem sameinar fjölskyldur í uppskeruhátíð ljóss og friðar og gleðigjafa til annarra. Staðalmyndir allsnægta dynja á og flestir bíða þeirra með tilhlökkun í hjarta. En fyrir allt of marga er þetta þungbærasti tími ársins, tilraunir til sjálfsvígs eru margar, einmanaleiki magnast hjá einstæðingum og margir eiga ekki fyrir mat, hvað þá jólagjöfum til að gleðja aðra. Skammdegið hellist yfir með dimmu og kulda, vanmætti og þunglyndi. Gleymum ekki þeim sem eiga um sárt að binda. Gleymum ekki hversu margir þurfa að standa í kulda og trekki í löngum biðröðum eftir matarúthlutunum. Gleymum heldur ekki þeim sem velkjast úti á dimmu hafi í hriplekum bátum með þá einu von í brjósti að fá að upplifa frið frá stríði, ofbeldi og hungri. Andi jólanna eru gjafir, en þær gjafir eiga og mega aldrei bara snúast um veraldlegar gjafir heldur verk, orð og efndir sem endurspegla hinn sanna anda jólanna. Ég lærði eitt sinn að endurmeta gervalla tilveru mína á aðfangadag, en þann dag hvolfdist vonleysið yfir föður minn og hann hvarf í stormi og hríð í hrollkalt fljót og hefur aldrei fundist. Jólin eftir það voru oft dauf og eins og skopmynd en löngu síðar lærði ég að fagna gleðinni í augum barna minna og gerði allt sem ég gat til að tryggja að birtuhátíðin væri hátíð gleði og samveru þó við værum fá og oft fátæk í efnislegum gæðum. Ég lærði eitt sinn að ef manni líður illa þá er besta leiðin til að líða betur að hjálpa einhverjum sem líður verr. Mér finnst það ef til vill fanga best anda jólanna.Óttar Proppé.Óttar Proppé: Jólaandinn lykt af nýjum bókum Flest mín fullorðinsár hef ég unnið sem bóksali þó ég hafi gert hlé á því lífsstarfi til að þjóna pólitísku vafstri. Þegar maður vinnur í bókabúð felst aðdragandi jólanna í því að vera í vinnunni, alla daga, fram á kvöld og eiginlega þangað til maður nær að skjótast heim í snöggt bað, áður en klukkurnar hringja inn jólin. Fyrir mér er jólaandinn það sama og lyktin og spenningurinn yfir nýjum bókum. Eitt árið komu til mín tveir ungir bræður, sennilega hvor sínum megin við tíu ára aldurinn og báðu mig að hjálpa sér að finna spennandi bók handa pabba sínum. Ári seinna voru þeir mættir aftur fyrir jólin og á hverju ári eftir það. Aldrei hitti ég þessa bræður á öðrum árstíma. En alltaf fyrir jólin voru þeir mættir og við spjölluðum saman og fundum lesefni fyrir pabba. Síðast þegar ég hitti þá bræður voru þeir orðnir mikið stærri en ég og með sín eigin börn. Þegar ég finn lyktina af nýrri bók að kvöldi aðfangadags þá leitar hugurinn gjarnan til þeirra bræðra og ég velti því fyrir mér hvað þeir séu nú að lesa.Katrín Jakobsdóttir.Katrín Jakobsdóttir: Súkkulaði og ný bók best Elsti sonur minn fæddist í desember 2005 og þann aðfangadag ákváðu nánast allir að koma í heimsókn og óska okkur til hamingju. Þessar heimsóknir stóðu langt fram eftir degi og voru auðvitað frábærar en höfðu þær afleiðingar að klukkan fimm var hangikjötið ekki komið í pott, eldhúsið í rúst, jólapappírinn ennþá í rúllum og alls ekki utan á gjöfunum, og barnið náttúrulega grátandi. Við vorum með gesti þennan aðfangadag og allt fór þetta öðruvísi en ætlað var, meðal annars kom í ljós að ýmisleg nauðsynleg eldhúsáhöld til að gera hangikjöt og uppstúf voru ekki til í húsinu. Jólin komu auðvitað fyrir því og voru góð en samt hef ég alltaf spilað þá leikfléttu að vera eins undirbúin og mögulegt er fyrir matargerð á aðfangadag! Bestu stundir jólanna eru hins vegar þegar matarstússinu er lokið og ég get sest niður með bók við kertaljós og fæ að drekka í mig nýjan skáldskap íslenskra höfunda. Við megum vera þakklát fyrir alla þá frábæru rithöfunda sem skrifa handa okkur sögur og ljóð og veita okkur nýja sýn á lífið og listina. Og svo er það auðvitað ekki slæmt ef kona kemst í smá súkkulaði á meðan á lestri stendur.Vigdís Hauksdóttir.Vigdís Hauksdóttir: Stórfjölskyldan kemur saman Við erum sex systkinin og afkomendur foreldra okkar 43 – með mökum erum við yfir 60. Frá því ég man eftir mér hefur stórfjölskyldan komið saman á jóladag og borðað hangikjöt með alles. Á góðum stundum köllum við okkur mafíuna. Lengst af var jólaboðið haldið á æskuheimili mínu, Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi. Húsið er tvílyft og setið í hverjum krók og kima. Á ákveðnum tímapunkti vorum við neydd til að flytja veisluna í sal. Við systkinin skiptum okkur upp í þrjú holl – sem hafa umsjón með boðinu – kaupum inn, undirbúum, tökum á móti, rukkum inn og göngum frá. Allt víkur fyrir jóladagsboðinu. Þegar nýir kærastar/kærustur eru kynntar fyrir fjölskyldunni þá er það gjarnan gert á jóladag og eftir það er ekki aftur snúið – allt annað víkur á jóladag hjá nýjum „tengdameðlimi“. Allir mæta uppábúnir – þrátt fyrir kuldagalla og skóflur í skottinu. Það er nefnilega svo að rúmlega helmingur fjölskyldunnar býr í Reykjavík og boðið er haldið fyrir austan fjall. Hefðbundin dagskrá er á þá leið að fyrst er sest að snæðingi – síðan tekur hið stórkostlega bingó við – undir stjórn bingóstjóranna Brynju og Auðuns. Flestir koma með pakka og leggja í bingópúkkið. Síðan er spurningakeppni milli afkomenda okkar systkinanna – þrír og þrír í liði – Reykjavík á móti Suðurlandi. Þessi samvera er ómissandi hluti af jólunum og hef ég aldrei misst úr dag í 50 ár.Björt Ólafsdóttir.Björt Ólafsdóttir: Hart barist um möndlunaÉg á margar fallegar minningar frá jólahaldi og -hefðum fjölskyldu minnar. Ein hefð sker sig þó úr, og er ef til vill harla óvenjuleg. Sú snýst ekki um frið í hjarta og hátíðleika. Nei – hún er slagur. Fjölskylduslagur um möndluna í grautnum. Í hádeginu á aðfangadegi höfðum við safnast saman, sumir enn á náttfötunum, aðrir með svuntu, að hefja matargerð. Enn aðrir með hey í hárinu búnir að gefa búfénaði ríflega því það voru jú jól. Þannig var sest við eldhúsborðið. Í loftinu ríkti spenna og keppnisandinn skein úr augum. Engin miskunn. Mamma faldi sig inni í búri á meðan hún henti möndlunni ofan í pottinn og þegar hún steig fram í eldhúsið mætti henni ekki prúð fjölskylda með fallega borðsiði. Þarna var mættur hálfgerður skríll sem æpti og gargaði: Gefðu mér fyrst! Ég vil meira! Miskunnarlaust óðum við ofan í disk næsta manns, hrærðum og reyndum að finna og ræna möndlunni. Allir átu á sig gat. Ekki vegna þess að þeim fannst grauturinn svo góður (sorrí, mamma) heldur vegna þess að mandlan var ófundin. Maður skyldi vinna! Ef mandlan svo lenti á réttum stað, sagði maður engum frá því strax, heldur naut í kvikindisskap á meðan maður horfði á hina belgja sig út. Verðlaunin voru oftast eitthvert jólanammi. En þau skiptu engu máli. Takmarkið var að sigra fjölskyldumeðlimina í þessari brjáluðu keppnisgrein.Katrín Júlíusdóttir.Katrín Júlíusdóttir: Keppnisjólin eftirminnanlegJólin eru tími afslöppunar og samveru hjá okkur fjölskyldunni þar sem mottóið er að ef eitthvað gleymist þá bara gleymist það. Við fáum hluta af stórfjölskyldunni á aðfangadag og allir fá sitt, hnetusteik eða hamborgarhrygg. Við byrjum að borða þegar við erum tilbúin og allir frekar stresslausir. Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona. Í uppvexti mínum fórum við alltaf utan um jól. Það kom þó að því að haldin voru jól hér heima á menntaskólaárunum. Ég, pabbi og bræður mínir undirbjuggum jólahátíðina. Ég tók þetta alla leið. Aðventan var eftir bókinni, kort skrifuð, aðventukransar, smákökubakstur og jólagjafakaup. Kvöldverðurinn sjálfur var undirbúinn afar vandlega og skipulagður með margra mánaða fyrirvara, slíkur var spenningurinn. Svo á aðfangadag sjálfan var sest til borðs á slaginu sex, kveikt á messu og borðað. Í kjölfar opnaðir pakkar og lesið á kort. Þegar öllu var lokið litum við á klukkuna og þá var hún hálf átta. Skipulagið var sumsé svo mikið að við trukkuðum jólin í gegnum excel á methraða! Síðan þá minnumst við þessara jóla sem keppnisjólanna miklu, hlæjum og munum eftir því að slaka á!Ólöf Nordal.Ólöf Nordal: Stórskrítin í aðdraganda jólaÆtli þau heima hjá mér segi mig ekki verða stórskrítna í aðdraganda jóla. Einatt heyri ég, þegar krakkarnir detta inn úr dyrunum í byrjun desember: Mamma! Ekki ertu enn og aftur að hlusta á drengjakórana!? Ójá, allan desember spila ég enska drengjakóra í bland við djassaða jólamúsík. Ég verð víst að gangast við því að vera jólabarn. Um jólin nýt ég þess að nostra heima við og hægja á öllu gangverkinu á heimilinu. Stundum á ég það þó til að gleyma mér í gleðinni og jólameðlætinu. Á ekki enn almennilega hrakfallasögu en fyrir þremur árum höfðum við rétt lokið við jólamáltíðina þegar sonur minn spyr, þungur á brún, hvers vegna ég sleppti Waldorfsalatinu þessi jólin en það er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Í öllu meðlætisfarganinu hafði það gleymst í ísskápnum. Annars eru jólin róleg og fjölskyldan nýtur þess að vera saman. Við höfum þann „sið“ á jóladag að leggjast upp í sófa, öll saman, og horfa á allar myndirnar um Hringadróttinssögu. Í lengri útgáfu, 12 tímar, bannað að gera hlé. Maðurinn minn sest þó ekki upp í sófa fyrr en um miðja þriðju mynd, en hann segist ekki skilja alveg þetta „gigg“. En þessar kvikmyndir ríma ágætlega við áhuga minn á ævintýrum og þjóðsögum af öllu tagi. Bækur á borðum, jólailmur um húsið, músík á fóninum og Hringadróttinssaga. Þá eru jólin komin.Bjarni Benediktsson.Bjarni Benediktsson: Borðuðu jólamatinn á miðnættiVið höfum yfirleitt verið með rjúpur á jólunum. En það hafði ekki gengið að fá rjúpu þessi jól fyrir um það bil 10 árum þannig að það var tekin ákvörðun um að vera með gæs. Hún var fyllt og ofninn hitaður. Þetta var gott stykki sem þurfti dágóðan tíma inni í ofninum, en eftir tæpan klukkutíma fer rafmagnið af öllu húsinu – og ekki bara hjá okkur heldur allri götunni. Við áttum ekki von á öðru en að þessu yrði kippt fljótt í liðinn og við gætum haldið áfram með eldamennskuna. En, nei, ekki alveg. Við erum yfirleitt með marga í mat á aðfangadagskvöld og þarna voru allir gestirnir mættir og orðnir mjög spenntir fyrir jólasteikinni. Og svo hófst biðin. Og enn var beðið. Rafmagnið kom ekki fyrr en eftir fjóra tíma og þetta endaði þannig að við borðuðum jólamatinn klukkan hálf tólf. Þetta varð því mjög langur en góður og eftirminnilegur aðfangadagur – og okkur tókst meira að segja að bíða með pakkana þangað til eftir mat.Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson: Andsósíalískur jólahúmorÉg átti ógleymanleg jól með gömlum breskum verkamanni þegar ég endur fyrir löngu stundaði rannsóknir við stóra hafrannsóknarstöð út við ströndina á austasta hluta Bretlands. Ég var að koma úr villta vinstrinu í íslenskri stúdentapólitík en skoðanir hans voru yst til hægri. Við smullum saman eins og járn og segull. Kannski af því hann var mesti sagnamaður sem ég hef hitt. Rétt fyrir jólin tilkynnti Francis mér hátíðlega að þau hjónin hefðu ákveðið að við yrðum með stórfjölskyldunni á jóladag – og ættum ekkert val. Við mættum um hádegi. Þau fóru með okkur í langa göngu um fagran skóg og við enduðum með gifturíkri heimsókn á enska skógarkrá. Um kvöldið var veisla með stórfjölskyldunni, spilað, sungið og dansað. Þetta er ein hlýjasta jólaminningin sem ég á, og á hverjum jólum minnist ég míns gamla, löngu gengna félaga með miklum söknuði. Um kvöldið faðmaði hann mig innilega, kannski hreifur, og sagði: „I’m crazy guy“ og sagðist elska Íslendinga af því þeir væru líka galnir. Svo rétti hann mér innpakkaða jólagjöf, og horfði sposkur þegar ég tók utan af henni. Francis var líka húmoristi. Gjöfin var bók sem bar með sér einlæga ósk um pólitíska endurfæðingu. Hún hét „The Evil of Socialism“.Svandís Svavarsdóttir.Svandís Svavarsdóttir: Jólin og mammaÁ þessu ári eru tíu ár síðan mamma dó og mikið óskaplega sakna ég hennar. Hún var vinkona mín, húmoristi, sniðug og heimspekileg og við áttum saman öll jól frá því ég fæddist og þar til hún dó. Allar mínar jólaminningar og margar jólahefðir eru tengdar henni og okkar samveru. Ótal minningar um rjúpnahamflettingar og Gammeldansk, ilmandi lyng í bolla, fóarn og hjarta. Waldorfsalatið og stóra kúnstin við að brúna kartöflur. Best að gera fjall af sykri og vera þolinmóð. Mjög þolinmóð. Hvítöl í könnunni og vanilluís á eftir. Rjúpurnar, bundnar upp, steiktar í smjöri. Bara nota viðarverkfæri. Aldrei málm. Svo er mikilvægt að tala við rjúpurnar. Kærleikur og húmor er mikilvægur við matargerð. Nostur og sérviska. Einföld hráefni. Fá og góð. Alls konar lærdómar frá ári til árs, frá konu til konu. Og svo komu börnin og brúna núna kartöflur eins og amma sín. Sjaldan en með sérviskunni. Það þykir mér vænt um. Svo vaska upp. Ekki taka upp pakka strax. Syngja marga sálma. Allt of marga í bernskuminningunni en seinna hæfilega marga. Nóttin var sú ágæt ein. Sálmabókin gamla og píanóið. Og svo Fígarótertan sem á rætur aftur á 19. öld, kynslóð fram af kynslóð. Sagan í kökunni. Sögukaka. Hlýjar og mjúkar sögur, upprifjanir og söknuður og kertaljós. Jólin eru núið og þáið í einni bendu. Fjölskyldan og samveran. Blessuð jólin.Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: Síðasta gjöfin keypt á aðfangadagÉg er mikill jólakall og hef alltaf haft gaman af jólunum og aðdraganda þeirra. Þar skipta ýmsar hefðir máli, allt frá því að horfa á Christmas Vacation með fjölskyldunni að því að hlusta saman á útvarpsmessuna og jólasálma á aðfangadag. Jólaundirbúningurinn hefur reyndar breyst dálítið frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum því að það er iðulega mikið um að vera í þinginu í desember. Svo verður auðvitað margt sem tengist jólunum enn skemmtilegra þegar maður eignast börn og fer að upplifa jólin með þeim. Ég vil vera á Íslandi um jólin því mér finnst ákaflega skemmtilegt hvernig þjóðin öll tekur þátt í hátíðarhöldunum. Það skapar mikla samkennd og sterkan jólaanda. Ég sé fram á að fylgja áfram ýmsum hefðum þessi jólin meðal annars þeirri hefð að kaupa gjafirnar á Þorláksmessu og svo þá síðustu að morgni aðfangadags. Alþingi Jólafréttir Mest lesið Ilmaðu eins og frambjóðendur: Snorri Másson með sama ilm og Svandís Svavars Lífið Ilmaðu eins og frambjóðendur Lífið Auðir og ógildir með kosningakaffi Lífið „Án okkar verður ekki til miðjustjórn“ Lífið „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Lífið Myndir: Svona var baksviðs á kappræðum leiðtoganna Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Jón og Hafdís ástfangin í 22 ár Lífið Minnist föður síns: „Til hamingju með daginn hvar sem þú ert“ Lífið Fleiri fréttir „Án okkar verður ekki til miðjustjórn“ Auðir og ógildir með kosningakaffi Ilmaðu eins og frambjóðendur: Snorri Másson með sama ilm og Svandís Svavars Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Minnist föður síns: „Til hamingju með daginn hvar sem þú ert“ Myndir: Svona var baksviðs á kappræðum leiðtoganna Jón og Hafdís ástfangin í 22 ár „Ekki gera mér þetta“ „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Gellur tóku yfir Gamla bíó Hélt að hann væri George Clooney Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Einstakur garður í Mosfellsbænum Leggja undir sig spinningshjólin og upphífingarstangirnar á tónleikunum Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Húðrútína Birtu Abiba Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Söngelskir nemendur í Menntaskólanum að Laugarvatni Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Arnaldur tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Hefndi sín með því að missa meydóminn Spurt var um fyrirbæri sem Tommi á Búllunni framkvæmdi fyrst hér á landi Kappleikar: „Ég er í alvörunni að reyna mitt besta“ Pantaði viskí og kókaín skömmu fyrir andlátið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Umbreyttist í Guðna Ágústsson og Ólaf Ragnar „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Sjá meira
Augljós pirringur er kominn í alþingismenn sem undanfarið hafa rætt fjárlög og umdeild mál. Þingmenn hafa verið duglegir að kvarta hver undan öðrum og saka hver annan um sögulegt málþóf, eða sögulegt efndaleysi – eftir því hvorum megin þeir standa í stjórnmálunum. Fréttablaðið náði þingmönnum í stund á milli stríða, menn lögðu ágreiningsefnin til hliðar og jólaandinn sveif yfir vötnum.Birgitta Jónsdóttir.Birgitta Jónsdóttir: Mikilvægt að láta gott af sér leiðaÍ skammdeginu eru jólin birtuhátíð sem sameinar fjölskyldur í uppskeruhátíð ljóss og friðar og gleðigjafa til annarra. Staðalmyndir allsnægta dynja á og flestir bíða þeirra með tilhlökkun í hjarta. En fyrir allt of marga er þetta þungbærasti tími ársins, tilraunir til sjálfsvígs eru margar, einmanaleiki magnast hjá einstæðingum og margir eiga ekki fyrir mat, hvað þá jólagjöfum til að gleðja aðra. Skammdegið hellist yfir með dimmu og kulda, vanmætti og þunglyndi. Gleymum ekki þeim sem eiga um sárt að binda. Gleymum ekki hversu margir þurfa að standa í kulda og trekki í löngum biðröðum eftir matarúthlutunum. Gleymum heldur ekki þeim sem velkjast úti á dimmu hafi í hriplekum bátum með þá einu von í brjósti að fá að upplifa frið frá stríði, ofbeldi og hungri. Andi jólanna eru gjafir, en þær gjafir eiga og mega aldrei bara snúast um veraldlegar gjafir heldur verk, orð og efndir sem endurspegla hinn sanna anda jólanna. Ég lærði eitt sinn að endurmeta gervalla tilveru mína á aðfangadag, en þann dag hvolfdist vonleysið yfir föður minn og hann hvarf í stormi og hríð í hrollkalt fljót og hefur aldrei fundist. Jólin eftir það voru oft dauf og eins og skopmynd en löngu síðar lærði ég að fagna gleðinni í augum barna minna og gerði allt sem ég gat til að tryggja að birtuhátíðin væri hátíð gleði og samveru þó við værum fá og oft fátæk í efnislegum gæðum. Ég lærði eitt sinn að ef manni líður illa þá er besta leiðin til að líða betur að hjálpa einhverjum sem líður verr. Mér finnst það ef til vill fanga best anda jólanna.Óttar Proppé.Óttar Proppé: Jólaandinn lykt af nýjum bókum Flest mín fullorðinsár hef ég unnið sem bóksali þó ég hafi gert hlé á því lífsstarfi til að þjóna pólitísku vafstri. Þegar maður vinnur í bókabúð felst aðdragandi jólanna í því að vera í vinnunni, alla daga, fram á kvöld og eiginlega þangað til maður nær að skjótast heim í snöggt bað, áður en klukkurnar hringja inn jólin. Fyrir mér er jólaandinn það sama og lyktin og spenningurinn yfir nýjum bókum. Eitt árið komu til mín tveir ungir bræður, sennilega hvor sínum megin við tíu ára aldurinn og báðu mig að hjálpa sér að finna spennandi bók handa pabba sínum. Ári seinna voru þeir mættir aftur fyrir jólin og á hverju ári eftir það. Aldrei hitti ég þessa bræður á öðrum árstíma. En alltaf fyrir jólin voru þeir mættir og við spjölluðum saman og fundum lesefni fyrir pabba. Síðast þegar ég hitti þá bræður voru þeir orðnir mikið stærri en ég og með sín eigin börn. Þegar ég finn lyktina af nýrri bók að kvöldi aðfangadags þá leitar hugurinn gjarnan til þeirra bræðra og ég velti því fyrir mér hvað þeir séu nú að lesa.Katrín Jakobsdóttir.Katrín Jakobsdóttir: Súkkulaði og ný bók best Elsti sonur minn fæddist í desember 2005 og þann aðfangadag ákváðu nánast allir að koma í heimsókn og óska okkur til hamingju. Þessar heimsóknir stóðu langt fram eftir degi og voru auðvitað frábærar en höfðu þær afleiðingar að klukkan fimm var hangikjötið ekki komið í pott, eldhúsið í rúst, jólapappírinn ennþá í rúllum og alls ekki utan á gjöfunum, og barnið náttúrulega grátandi. Við vorum með gesti þennan aðfangadag og allt fór þetta öðruvísi en ætlað var, meðal annars kom í ljós að ýmisleg nauðsynleg eldhúsáhöld til að gera hangikjöt og uppstúf voru ekki til í húsinu. Jólin komu auðvitað fyrir því og voru góð en samt hef ég alltaf spilað þá leikfléttu að vera eins undirbúin og mögulegt er fyrir matargerð á aðfangadag! Bestu stundir jólanna eru hins vegar þegar matarstússinu er lokið og ég get sest niður með bók við kertaljós og fæ að drekka í mig nýjan skáldskap íslenskra höfunda. Við megum vera þakklát fyrir alla þá frábæru rithöfunda sem skrifa handa okkur sögur og ljóð og veita okkur nýja sýn á lífið og listina. Og svo er það auðvitað ekki slæmt ef kona kemst í smá súkkulaði á meðan á lestri stendur.Vigdís Hauksdóttir.Vigdís Hauksdóttir: Stórfjölskyldan kemur saman Við erum sex systkinin og afkomendur foreldra okkar 43 – með mökum erum við yfir 60. Frá því ég man eftir mér hefur stórfjölskyldan komið saman á jóladag og borðað hangikjöt með alles. Á góðum stundum köllum við okkur mafíuna. Lengst af var jólaboðið haldið á æskuheimili mínu, Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi. Húsið er tvílyft og setið í hverjum krók og kima. Á ákveðnum tímapunkti vorum við neydd til að flytja veisluna í sal. Við systkinin skiptum okkur upp í þrjú holl – sem hafa umsjón með boðinu – kaupum inn, undirbúum, tökum á móti, rukkum inn og göngum frá. Allt víkur fyrir jóladagsboðinu. Þegar nýir kærastar/kærustur eru kynntar fyrir fjölskyldunni þá er það gjarnan gert á jóladag og eftir það er ekki aftur snúið – allt annað víkur á jóladag hjá nýjum „tengdameðlimi“. Allir mæta uppábúnir – þrátt fyrir kuldagalla og skóflur í skottinu. Það er nefnilega svo að rúmlega helmingur fjölskyldunnar býr í Reykjavík og boðið er haldið fyrir austan fjall. Hefðbundin dagskrá er á þá leið að fyrst er sest að snæðingi – síðan tekur hið stórkostlega bingó við – undir stjórn bingóstjóranna Brynju og Auðuns. Flestir koma með pakka og leggja í bingópúkkið. Síðan er spurningakeppni milli afkomenda okkar systkinanna – þrír og þrír í liði – Reykjavík á móti Suðurlandi. Þessi samvera er ómissandi hluti af jólunum og hef ég aldrei misst úr dag í 50 ár.Björt Ólafsdóttir.Björt Ólafsdóttir: Hart barist um möndlunaÉg á margar fallegar minningar frá jólahaldi og -hefðum fjölskyldu minnar. Ein hefð sker sig þó úr, og er ef til vill harla óvenjuleg. Sú snýst ekki um frið í hjarta og hátíðleika. Nei – hún er slagur. Fjölskylduslagur um möndluna í grautnum. Í hádeginu á aðfangadegi höfðum við safnast saman, sumir enn á náttfötunum, aðrir með svuntu, að hefja matargerð. Enn aðrir með hey í hárinu búnir að gefa búfénaði ríflega því það voru jú jól. Þannig var sest við eldhúsborðið. Í loftinu ríkti spenna og keppnisandinn skein úr augum. Engin miskunn. Mamma faldi sig inni í búri á meðan hún henti möndlunni ofan í pottinn og þegar hún steig fram í eldhúsið mætti henni ekki prúð fjölskylda með fallega borðsiði. Þarna var mættur hálfgerður skríll sem æpti og gargaði: Gefðu mér fyrst! Ég vil meira! Miskunnarlaust óðum við ofan í disk næsta manns, hrærðum og reyndum að finna og ræna möndlunni. Allir átu á sig gat. Ekki vegna þess að þeim fannst grauturinn svo góður (sorrí, mamma) heldur vegna þess að mandlan var ófundin. Maður skyldi vinna! Ef mandlan svo lenti á réttum stað, sagði maður engum frá því strax, heldur naut í kvikindisskap á meðan maður horfði á hina belgja sig út. Verðlaunin voru oftast eitthvert jólanammi. En þau skiptu engu máli. Takmarkið var að sigra fjölskyldumeðlimina í þessari brjáluðu keppnisgrein.Katrín Júlíusdóttir.Katrín Júlíusdóttir: Keppnisjólin eftirminnanlegJólin eru tími afslöppunar og samveru hjá okkur fjölskyldunni þar sem mottóið er að ef eitthvað gleymist þá bara gleymist það. Við fáum hluta af stórfjölskyldunni á aðfangadag og allir fá sitt, hnetusteik eða hamborgarhrygg. Við byrjum að borða þegar við erum tilbúin og allir frekar stresslausir. Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona. Í uppvexti mínum fórum við alltaf utan um jól. Það kom þó að því að haldin voru jól hér heima á menntaskólaárunum. Ég, pabbi og bræður mínir undirbjuggum jólahátíðina. Ég tók þetta alla leið. Aðventan var eftir bókinni, kort skrifuð, aðventukransar, smákökubakstur og jólagjafakaup. Kvöldverðurinn sjálfur var undirbúinn afar vandlega og skipulagður með margra mánaða fyrirvara, slíkur var spenningurinn. Svo á aðfangadag sjálfan var sest til borðs á slaginu sex, kveikt á messu og borðað. Í kjölfar opnaðir pakkar og lesið á kort. Þegar öllu var lokið litum við á klukkuna og þá var hún hálf átta. Skipulagið var sumsé svo mikið að við trukkuðum jólin í gegnum excel á methraða! Síðan þá minnumst við þessara jóla sem keppnisjólanna miklu, hlæjum og munum eftir því að slaka á!Ólöf Nordal.Ólöf Nordal: Stórskrítin í aðdraganda jólaÆtli þau heima hjá mér segi mig ekki verða stórskrítna í aðdraganda jóla. Einatt heyri ég, þegar krakkarnir detta inn úr dyrunum í byrjun desember: Mamma! Ekki ertu enn og aftur að hlusta á drengjakórana!? Ójá, allan desember spila ég enska drengjakóra í bland við djassaða jólamúsík. Ég verð víst að gangast við því að vera jólabarn. Um jólin nýt ég þess að nostra heima við og hægja á öllu gangverkinu á heimilinu. Stundum á ég það þó til að gleyma mér í gleðinni og jólameðlætinu. Á ekki enn almennilega hrakfallasögu en fyrir þremur árum höfðum við rétt lokið við jólamáltíðina þegar sonur minn spyr, þungur á brún, hvers vegna ég sleppti Waldorfsalatinu þessi jólin en það er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Í öllu meðlætisfarganinu hafði það gleymst í ísskápnum. Annars eru jólin róleg og fjölskyldan nýtur þess að vera saman. Við höfum þann „sið“ á jóladag að leggjast upp í sófa, öll saman, og horfa á allar myndirnar um Hringadróttinssögu. Í lengri útgáfu, 12 tímar, bannað að gera hlé. Maðurinn minn sest þó ekki upp í sófa fyrr en um miðja þriðju mynd, en hann segist ekki skilja alveg þetta „gigg“. En þessar kvikmyndir ríma ágætlega við áhuga minn á ævintýrum og þjóðsögum af öllu tagi. Bækur á borðum, jólailmur um húsið, músík á fóninum og Hringadróttinssaga. Þá eru jólin komin.Bjarni Benediktsson.Bjarni Benediktsson: Borðuðu jólamatinn á miðnættiVið höfum yfirleitt verið með rjúpur á jólunum. En það hafði ekki gengið að fá rjúpu þessi jól fyrir um það bil 10 árum þannig að það var tekin ákvörðun um að vera með gæs. Hún var fyllt og ofninn hitaður. Þetta var gott stykki sem þurfti dágóðan tíma inni í ofninum, en eftir tæpan klukkutíma fer rafmagnið af öllu húsinu – og ekki bara hjá okkur heldur allri götunni. Við áttum ekki von á öðru en að þessu yrði kippt fljótt í liðinn og við gætum haldið áfram með eldamennskuna. En, nei, ekki alveg. Við erum yfirleitt með marga í mat á aðfangadagskvöld og þarna voru allir gestirnir mættir og orðnir mjög spenntir fyrir jólasteikinni. Og svo hófst biðin. Og enn var beðið. Rafmagnið kom ekki fyrr en eftir fjóra tíma og þetta endaði þannig að við borðuðum jólamatinn klukkan hálf tólf. Þetta varð því mjög langur en góður og eftirminnilegur aðfangadagur – og okkur tókst meira að segja að bíða með pakkana þangað til eftir mat.Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson: Andsósíalískur jólahúmorÉg átti ógleymanleg jól með gömlum breskum verkamanni þegar ég endur fyrir löngu stundaði rannsóknir við stóra hafrannsóknarstöð út við ströndina á austasta hluta Bretlands. Ég var að koma úr villta vinstrinu í íslenskri stúdentapólitík en skoðanir hans voru yst til hægri. Við smullum saman eins og járn og segull. Kannski af því hann var mesti sagnamaður sem ég hef hitt. Rétt fyrir jólin tilkynnti Francis mér hátíðlega að þau hjónin hefðu ákveðið að við yrðum með stórfjölskyldunni á jóladag – og ættum ekkert val. Við mættum um hádegi. Þau fóru með okkur í langa göngu um fagran skóg og við enduðum með gifturíkri heimsókn á enska skógarkrá. Um kvöldið var veisla með stórfjölskyldunni, spilað, sungið og dansað. Þetta er ein hlýjasta jólaminningin sem ég á, og á hverjum jólum minnist ég míns gamla, löngu gengna félaga með miklum söknuði. Um kvöldið faðmaði hann mig innilega, kannski hreifur, og sagði: „I’m crazy guy“ og sagðist elska Íslendinga af því þeir væru líka galnir. Svo rétti hann mér innpakkaða jólagjöf, og horfði sposkur þegar ég tók utan af henni. Francis var líka húmoristi. Gjöfin var bók sem bar með sér einlæga ósk um pólitíska endurfæðingu. Hún hét „The Evil of Socialism“.Svandís Svavarsdóttir.Svandís Svavarsdóttir: Jólin og mammaÁ þessu ári eru tíu ár síðan mamma dó og mikið óskaplega sakna ég hennar. Hún var vinkona mín, húmoristi, sniðug og heimspekileg og við áttum saman öll jól frá því ég fæddist og þar til hún dó. Allar mínar jólaminningar og margar jólahefðir eru tengdar henni og okkar samveru. Ótal minningar um rjúpnahamflettingar og Gammeldansk, ilmandi lyng í bolla, fóarn og hjarta. Waldorfsalatið og stóra kúnstin við að brúna kartöflur. Best að gera fjall af sykri og vera þolinmóð. Mjög þolinmóð. Hvítöl í könnunni og vanilluís á eftir. Rjúpurnar, bundnar upp, steiktar í smjöri. Bara nota viðarverkfæri. Aldrei málm. Svo er mikilvægt að tala við rjúpurnar. Kærleikur og húmor er mikilvægur við matargerð. Nostur og sérviska. Einföld hráefni. Fá og góð. Alls konar lærdómar frá ári til árs, frá konu til konu. Og svo komu börnin og brúna núna kartöflur eins og amma sín. Sjaldan en með sérviskunni. Það þykir mér vænt um. Svo vaska upp. Ekki taka upp pakka strax. Syngja marga sálma. Allt of marga í bernskuminningunni en seinna hæfilega marga. Nóttin var sú ágæt ein. Sálmabókin gamla og píanóið. Og svo Fígarótertan sem á rætur aftur á 19. öld, kynslóð fram af kynslóð. Sagan í kökunni. Sögukaka. Hlýjar og mjúkar sögur, upprifjanir og söknuður og kertaljós. Jólin eru núið og þáið í einni bendu. Fjölskyldan og samveran. Blessuð jólin.Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: Síðasta gjöfin keypt á aðfangadagÉg er mikill jólakall og hef alltaf haft gaman af jólunum og aðdraganda þeirra. Þar skipta ýmsar hefðir máli, allt frá því að horfa á Christmas Vacation með fjölskyldunni að því að hlusta saman á útvarpsmessuna og jólasálma á aðfangadag. Jólaundirbúningurinn hefur reyndar breyst dálítið frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum því að það er iðulega mikið um að vera í þinginu í desember. Svo verður auðvitað margt sem tengist jólunum enn skemmtilegra þegar maður eignast börn og fer að upplifa jólin með þeim. Ég vil vera á Íslandi um jólin því mér finnst ákaflega skemmtilegt hvernig þjóðin öll tekur þátt í hátíðarhöldunum. Það skapar mikla samkennd og sterkan jólaanda. Ég sé fram á að fylgja áfram ýmsum hefðum þessi jólin meðal annars þeirri hefð að kaupa gjafirnar á Þorláksmessu og svo þá síðustu að morgni aðfangadags.
Alþingi Jólafréttir Mest lesið Ilmaðu eins og frambjóðendur: Snorri Másson með sama ilm og Svandís Svavars Lífið Ilmaðu eins og frambjóðendur Lífið Auðir og ógildir með kosningakaffi Lífið „Án okkar verður ekki til miðjustjórn“ Lífið „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Lífið Myndir: Svona var baksviðs á kappræðum leiðtoganna Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Jón og Hafdís ástfangin í 22 ár Lífið Minnist föður síns: „Til hamingju með daginn hvar sem þú ert“ Lífið Fleiri fréttir „Án okkar verður ekki til miðjustjórn“ Auðir og ógildir með kosningakaffi Ilmaðu eins og frambjóðendur: Snorri Másson með sama ilm og Svandís Svavars Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Minnist föður síns: „Til hamingju með daginn hvar sem þú ert“ Myndir: Svona var baksviðs á kappræðum leiðtoganna Jón og Hafdís ástfangin í 22 ár „Ekki gera mér þetta“ „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Gellur tóku yfir Gamla bíó Hélt að hann væri George Clooney Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Einstakur garður í Mosfellsbænum Leggja undir sig spinningshjólin og upphífingarstangirnar á tónleikunum Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Húðrútína Birtu Abiba Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Söngelskir nemendur í Menntaskólanum að Laugarvatni Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Arnaldur tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Hefndi sín með því að missa meydóminn Spurt var um fyrirbæri sem Tommi á Búllunni framkvæmdi fyrst hér á landi Kappleikar: „Ég er í alvörunni að reyna mitt besta“ Pantaði viskí og kókaín skömmu fyrir andlátið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Umbreyttist í Guðna Ágústsson og Ólaf Ragnar „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Sjá meira