Skoðun

Markverð skref í heilbrigðismálum

Kristján Þór Júlíusson skrifar
Það er markmið stjórnvalda að íslenskt heilbrigðiskerfi sé samkeppnisfært við nágrannalöndin um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Húsakostur Landspítalans hefur lengi verið óviðunandi. Nú loksins sér fyrir endann á því og það birtist með skýrum hætti í nýsamþykktum fjárlögum. Þetta ár markar upphafið að endurreisn Landspítalans. Um leið hefur tekist að skapa færi fyrir viðsnúning á ýmsum sviðum heilbrigðismála. Við skulum líta á nokkur dæmi.

Fjárveitingar til Landspítalans hafa verið stórauknar árin 2014 og 2015 og nema nú 49,4 milljörðum króna.

Fjárveitingar til tækjakaupa á Landspítalanum hafa verið auknar verulega og verða á þessu ári 1.445 milljónir í samræmi við tækjakaupaáætlun.

Nýr aðgerðarþjarki til skurðlækninga verður tekinn í notkun á Landspítalanum í febrúar.

945 milljónum króna verður varið á árinu í uppbyggingu nýs Landspítala.

Með markvissum aðgerðum og auknum fjárveitingum hefur tekist að endurreisa lyflækningasvið Landspítalans.

Framhaldsmenntun unglækna á lyflækningasviði hefur verið sett í forgang sem hefur eflt endurnýjun í faginu.

Ríkisstjórnin hefur tekið höndum saman með félögum lækna um markvissa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Stóraukinn kraftur hefur verið settur í gerð rafrænnar sjúkraskrár sem samtengd verður fyrir allt heilbrigðiskerfið á landsvísu.

Gengið hefur verið frá samningi um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu en eldri samningar runnu út í ársbyrjun 2012. Framtíðarstefna um þessa mikilvægu þjónustu hefur verið mótuð.

Frá 1. janúar eru tannlækningar þriggja ára barna og barna á aldrinum átta til sautján ára greiddar að fullu. Stefnt er að því að tannlækningar allra barna yngri en 18 ára verði greiddar að fullu af Sjúkratryggingum Íslands.

Lyfjakostnaður einstaklinga lækkaði um áramót með aukinni greiðsluþátttöku ríkisins og lækkun á virðisaukaskatti.

Hér er fátt eitt tínt til en auk þess má nefna að ríkisstjórnin hyggst vinna að því að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Þannig er ætlunin að draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×