Einbeittur brotavilji Þorvaldur Gylfason skrifar 12. mars 2015 07:00 Æ ljósara verður, eftir því sem tíminn líður, hvers vegna Alþingi hefur stungið undir stól nýju stjórnarskránni, sem 2/3 hlutar kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Augljósasta skýringin er ofurvald útvegsmanna yfir alþingismönnum. Engum þarf að koma það á óvart. Allir vita, hvernig fer fyrir þeim, sem leggja upp í útreiðartúr á tígrisdýri.Babb í bátinn Kannski hefur enginn lýst vandanum betur og úr næmara návígi en Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins. Í bók sinni Umsátrið (bls. 206) líkir hann því við sjálfsmorð, þegar alþingismenn reyna að rísa upp gegn útvegsmönnum. Vandinn er vel þekktur víðs vegar að, t.d. frá Rússlandi. Þar eystra eru stjórnarandstæðingar skotnir á færi, ef þeir ganga of langt. Margir vöruðu við hættunni strax í árdaga kvótakerfisins, þar á meðal við Styrmir Gunnarsson (hann varaði beinlínis við hættunni á borgarastyrjöld). En spilling og græðgi stjórnmálamanna og flokka varð ofan á, sama spilling og sama græðgi og keyrði bankana í kaf. Því fór sem fór. Sjónarvottar hafa vitnað um, að í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs á síðasta kjörtímabili voru uppi ráðagerðir um að svíkjast aftan að þjóðinni í fiskveiðistjórnarmálinu með því að afhenda útvegsmönnum sjávarauðlindina langt fram í tímann, án þess að fullt gjald kæmi fyrir. Hugmyndin var – og er! – að lýsa því yfir í orði, að þjóðin eigi auðlindina, en afhenda þjóðareignina samt sem áður í hendur útvegsmanna til langframa án fulls endurgjalds. Fyrirætlun fyrri ríkisstjórnar fór út um þúfur. Vitað er, að sömu svik voru ráðgerð eins og um sjálfsagðan hlut væri að ræða í tíð núverandi ríkisstjórnar. En nú virðist af einhverjum ástæðum vera komið babb í bátinn. Kannski þingmenn kvíði dómi þeirra 83% kjósenda, sem lýstu stuðningi við ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu og fullt gjald fyrir nýtingu auðlindanna í nýju stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012.Upplýsingaleynd og umhverfisspjöll Fleira hangir á spýtunni. Mörgum stjórnmálamönnum, sem hafa tekið sér margföld lífeyrisréttindi á við óbreytta launþega, er meinilla við stjórnarskrárvarinn rétt fólksins í landinu á aðgangi að upplýsingum um ýmislegt, sem stjórnmálastéttinni þætti þægilegra, að leynt fari sem fyrr. Dæmið er ekki valið af handahófi. Einni af nefndum stjórnlagaráðs var neitað um aðgang að upplýsingum um greiðslur úr opinberum lífeyrissjóðum, en nefndin óskaði eftir þessum upplýsingum við undirbúningsvinnu sína að nýjum upplýsingafrelsisákvæðum. Mörgum stjórnmálamönnum er með líku lagi meinilla við umhverfisákvæði nýju stjórnarskrárinnar, þar eð þau tryggja fólkinu í landinu ríkari rétt en nú til að laða fram eða knýja á um betri umgengni um náttúru landsins og meiri virðingu fyrir henni. Nýja stjórnarskráin segir umbúðalaust: „Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.“ Við þá tilhugsun rennur umhverfisböðlum trúlega kalt vatn milli skinns og hörunds. En það er í lagi, því að þeir eru miklu færri en við hin eins og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 leiddu í ljós. Þeir þurfa því fyrr en síðar að láta í minni pokann.Skipun dómara Og þá er ótalið eitt mál enn, sem skýrir, hvers vegna Alþingi vílar ekki fyrir sér valdaránið, sem hófst fyrir alvöru á lokadögum þingsins í marz 2013. Innanríkisráðuneytið hefur nú birt ný drög að dómstólalögum. Þetta hefur Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, um málið að segja skv. fréttum Ríkissjónvarpsins 4. marz sl.: „Ráðherra er í þessum drögum sem nú liggja fyrir veitt raunverulega algjörlega óheft pólitískt vald til að ákveða hvern hann skipar í dómaraembætti. Og með þessu tel ég vera horfið langt aftur til fortíðar, til tíma pólitískra embættisveitinga í dómskerfinu.“ Þessi drög að dómstólalögum brjóta gegn nýju stjórnarskránni. Í henni er skýrt kveðið á um skipun dómara og annarra embættismanna til að hamla landlægri spillingu í embættaveitingum. Brotavilji innanríkisráðherrans nýja er einbeittur og skýr. Kannski þeim takist að skipa nokkra dómara enn úr eigin röðum í embætti, áður en nýja stjórnarskráin tekur gildi. Kannski ekki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Alþingi Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Stúlka frá Gaza sem að missti allt Asil Jihad Al-Masri Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Kjósum með mannréttindum á laugardaginn Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kári Garðarsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Æ ljósara verður, eftir því sem tíminn líður, hvers vegna Alþingi hefur stungið undir stól nýju stjórnarskránni, sem 2/3 hlutar kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Augljósasta skýringin er ofurvald útvegsmanna yfir alþingismönnum. Engum þarf að koma það á óvart. Allir vita, hvernig fer fyrir þeim, sem leggja upp í útreiðartúr á tígrisdýri.Babb í bátinn Kannski hefur enginn lýst vandanum betur og úr næmara návígi en Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins. Í bók sinni Umsátrið (bls. 206) líkir hann því við sjálfsmorð, þegar alþingismenn reyna að rísa upp gegn útvegsmönnum. Vandinn er vel þekktur víðs vegar að, t.d. frá Rússlandi. Þar eystra eru stjórnarandstæðingar skotnir á færi, ef þeir ganga of langt. Margir vöruðu við hættunni strax í árdaga kvótakerfisins, þar á meðal við Styrmir Gunnarsson (hann varaði beinlínis við hættunni á borgarastyrjöld). En spilling og græðgi stjórnmálamanna og flokka varð ofan á, sama spilling og sama græðgi og keyrði bankana í kaf. Því fór sem fór. Sjónarvottar hafa vitnað um, að í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs á síðasta kjörtímabili voru uppi ráðagerðir um að svíkjast aftan að þjóðinni í fiskveiðistjórnarmálinu með því að afhenda útvegsmönnum sjávarauðlindina langt fram í tímann, án þess að fullt gjald kæmi fyrir. Hugmyndin var – og er! – að lýsa því yfir í orði, að þjóðin eigi auðlindina, en afhenda þjóðareignina samt sem áður í hendur útvegsmanna til langframa án fulls endurgjalds. Fyrirætlun fyrri ríkisstjórnar fór út um þúfur. Vitað er, að sömu svik voru ráðgerð eins og um sjálfsagðan hlut væri að ræða í tíð núverandi ríkisstjórnar. En nú virðist af einhverjum ástæðum vera komið babb í bátinn. Kannski þingmenn kvíði dómi þeirra 83% kjósenda, sem lýstu stuðningi við ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu og fullt gjald fyrir nýtingu auðlindanna í nýju stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012.Upplýsingaleynd og umhverfisspjöll Fleira hangir á spýtunni. Mörgum stjórnmálamönnum, sem hafa tekið sér margföld lífeyrisréttindi á við óbreytta launþega, er meinilla við stjórnarskrárvarinn rétt fólksins í landinu á aðgangi að upplýsingum um ýmislegt, sem stjórnmálastéttinni þætti þægilegra, að leynt fari sem fyrr. Dæmið er ekki valið af handahófi. Einni af nefndum stjórnlagaráðs var neitað um aðgang að upplýsingum um greiðslur úr opinberum lífeyrissjóðum, en nefndin óskaði eftir þessum upplýsingum við undirbúningsvinnu sína að nýjum upplýsingafrelsisákvæðum. Mörgum stjórnmálamönnum er með líku lagi meinilla við umhverfisákvæði nýju stjórnarskrárinnar, þar eð þau tryggja fólkinu í landinu ríkari rétt en nú til að laða fram eða knýja á um betri umgengni um náttúru landsins og meiri virðingu fyrir henni. Nýja stjórnarskráin segir umbúðalaust: „Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.“ Við þá tilhugsun rennur umhverfisböðlum trúlega kalt vatn milli skinns og hörunds. En það er í lagi, því að þeir eru miklu færri en við hin eins og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 leiddu í ljós. Þeir þurfa því fyrr en síðar að láta í minni pokann.Skipun dómara Og þá er ótalið eitt mál enn, sem skýrir, hvers vegna Alþingi vílar ekki fyrir sér valdaránið, sem hófst fyrir alvöru á lokadögum þingsins í marz 2013. Innanríkisráðuneytið hefur nú birt ný drög að dómstólalögum. Þetta hefur Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, um málið að segja skv. fréttum Ríkissjónvarpsins 4. marz sl.: „Ráðherra er í þessum drögum sem nú liggja fyrir veitt raunverulega algjörlega óheft pólitískt vald til að ákveða hvern hann skipar í dómaraembætti. Og með þessu tel ég vera horfið langt aftur til fortíðar, til tíma pólitískra embættisveitinga í dómskerfinu.“ Þessi drög að dómstólalögum brjóta gegn nýju stjórnarskránni. Í henni er skýrt kveðið á um skipun dómara og annarra embættismanna til að hamla landlægri spillingu í embættaveitingum. Brotavilji innanríkisráðherrans nýja er einbeittur og skýr. Kannski þeim takist að skipa nokkra dómara enn úr eigin röðum í embætti, áður en nýja stjórnarskráin tekur gildi. Kannski ekki.