Skoðun

Er ríkið að skerða samningsfrelsi stéttarfélaga?

María Rúnarsdóttir og Guðfinna Þorvaldsdóttir og Laufey Gissurardóttir skrifa

Í ljósi stöðu kjarasamningaviðræðna BHM við ríkið er full ástæða til að skoða aðstöðu stéttarfélaga innan BHM með tilliti til þess hvort ríkið sé að skerða svigrúm þeirra til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og fá viðræður um kaup þeirra og kjör. Þegar litið er til baka á vinnubrögð ríkisins eftir margra mánaða „samningaviðræður“ ef svo má kalla, er ljóst að engin alvara hefur verið á bak við þær. Það er deginum ljósara að fyrirmæli viðsemjenda okkar eru að draga samningaviðræður á langinn með öllum tiltækum ráðum, þrátt fyrir yfirstandandi verkfallsaðgerðir sem bitna með alvarlegum hætti á fyrirtækjum og almenningi.

Samningsréttur að engu hafður

En hver ætli ástæðan sé fyrir því að verið sé að draga samningaviðræður á langinn? Svo virðist sem það snúist um það eitt að fjármála- og efnahagsráðherra vill ekki að ríkið sé leiðandi á vinnumarkaði. Hann bíður þögull eftir að samið verði á almennum vinnumarkaði.

Nákvæmlega sama staða er því uppi nú og í samningaviðræðunum árið 2014 þegar ákveðið var að gera vopnahlé og skrifað var upp á 2,8% launahækkun. Eina sem er frábrugðið í dag er að BHM var þá á eftir almennum vinnumarkaði að samningaborðinu og komst hvorki lönd né strönd með þá launaprósentu sem samið hafði verið um á almennum vinnumarkaði. Þannig virðist engu skipta hvort félögin semja á undan eða eftir almennum vinnumarkaði, fyrir sína félagsmenn hjá ríki, ekki skal hvikað frá neinu sem samið er um þar af hálfu ríkisins.

Samkvæmt þessu er samningsréttur launamanna sem varinn er í 74. gr. stjórnarskrárinnar, 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem Ísland er bundið af, að engu hafður.

Hysji upp um sig buxurnar

Ríkið státar sig af því á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að vera stærsti þekkingarvinnustaður landsins sem bjóði upp á mjög fjölbreytt og krefjandi störf, enda sé starfsemi þess margvísleg að eðli og umfangi.

Kröfur BHM hafa m.a. gengið út á það að meta menntun til launa svo að ríkið geti ráðið til sín og haldið í hæft starfsfólk. Ríkið verður að hysja upp um sig buxurnar og viðurkenna rétt starfsmanna sinna til að gera samninga út frá sínum forsendum en ekki forsendum sem ráðast af samningum á almennum vinnumarkaði.

Ef ríkið gerir það ekki stefnir í óefni, ríkisstarfsmönnum er gjörsamlega misboðið. Í dag eru um 700 starfsmenn ríkisins í verkfalli. Áhrifin eru margvísleg og alvarleg. Heill spítali hefur lýst yfir neyðarástandi og hafa bændur haldið því fram að um gríðarlegt fjárhagslegt tap sé að ræða svo dæmi séu tekin. Hvernig myndi íslenskt þjóðfélag virka ef allar stéttir innan BHM ákvæðu að fara í aðgerðir, hvað þá ef einstakir starfsmenn myndu taka þá sjálfstæðu ákvörðun að segja störfum sínum lausum vegna framkomu ríkisins og launastefnu? Verður ríkið stærsti þekkingarvinnustaður á landinu með þessu áframhaldi?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×