Lífið er sameign Þorvaldur Gylfason skrifar 17. mars 2016 07:00 Sérhver þjóð á sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sérhver þjóð þarf að huga vel að landi sínu, lífi, sögu og menningu, og mætti hafa langt mál um það. Hér ætla ég að láta mér duga að huga að einum þætti málsins, sameiginlegum fjáreignum íslenzku þjóðarinnar. Þær eru margar og voru enn fleiri á fyrri tíð áður en alda einkavæðingar reið yfir landið, en þá hafði kommúnisminn hrunið með brauki og bramli í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra í Austur-Evrópu um og eftir 1990. Rökin fyrir einkavæðingu banka og ýmissa annarra ríkisfyrirtækja voru þá og eru enn býsna sterk, en framkvæmdin mistókst enda varðaði einkavæðing bankanna veginn að hruni þeirra fáeinum árum síðar. Alþingi ber höfuðábyrgð á málinu og hefur í reyndinni gengizt við sekt sinni með því að láta undir höfuð leggjast að framfylgja eigin ályktun frá 2013 um að láta rannsaka einkavæðingu bankanna ofan í kjölinn.Auðlindarentan Sameiginlegar fjáreignir íslenzku þjóðarinnar eru annars vegar landið og miðin með öllum þeim auði sem þar er að finna og hins vegar ýmis manngerð verðmæti, t.d. fyrirtæki og innviðir í eigu ríkis og byggða og ýmis mannvirki (heilbrigðiskerfið, vegakerfið o.s.frv.). Alþingi hefur yfirleitt ekki haldið vel á þessum eignum fyrir hönd eigandans, fólksins í landinu. Það er til marks um hirðuleysi yfirvalda um eigur almennings að hvergi í opinberum gögnum – t.d. ekki á vefsetri Hagstofu Íslands – er nokkrar upplýsingar að finna um áætlað verðmæti sameiginlegra fjáreigna þjóðarinnar. Eina opinbera stofnunin sem birt hefur slíkt mat er Þjóðhagsstofnun undir stjórn Þórðar Friðjónssonar; hún var lögð niður. Það hefur því komið í hlut hagfræðinga utan stjórnkerfisins að meta eigur þjóðarinnar til fjár á eigin ábyrgð. Indriði Þorláksson hagfræðingur og fv. ríkisskattstjóri metur sjávarauðlindina svo að hún gefi af sér rentu upp á 2% til 3% af landsframleiðslu á hverju ári og ég lýsti á þessum stað 12. nóvember í fyrra. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur í Háskóla Íslands metur orkulindirnar með líku lagi svo að þær geti gefið af sér rentu sem nemur 1,5% til 2% af landsframleiðslu á hverju ári. Við erum því að tala um auðlindarentu sem nemur samtals 3,5% til 5% af landsframleiðslu á hverju ári. Séu eðlilegir vextir taldir nema 3,5% til 5% á ári má í grófum dráttum af þessu ráða að auðlindir þjóðarinnar til sjós og lands séu jafnvirði landsframleiðslunnar á hverju ári eða því sem næst líkt og t.d. í Kanada. Þetta er meira en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð en minna en í Noregi.Að höndla með annarra fé Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir vel tengdum mönnum á undirverði, þ.e. undir sannvirði, eins og Ríkisendurskoðun lýsti í skýrslu sinni um einkavæðingu ríkisfyrirtækja 2001. Þar segir m.a.: „Sú söluaðferð að auglýsa ráðandi hlut til sölu á sama tíma í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. verður að teljast óheppileg. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þessa söluaðferð og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að koma á samkeppni milli áhugasamra kaupenda. Enn fremur vaknar spurning um hvort sá tími sem valinn var til sölunnar hafi verið heppilegur.“ Sala bankanna í hendur vildarvina á undirverði var þó ekki annað en rökrétt framhald ókeypis afhendingar aflakvóta til útvegsmanna sem hafa þakkað fyrir sig líkt og bankarnir gerðu með því að moka fé í stjórnmálamenn og flokka og fjölmiðla svo sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Umgengnin við orkuna hefur verið sömu ættar. Orkuverð til erlendra kaupenda hefur jafnan verið svo lágt að því þurfti að halda leyndu fyrir eiganda orkunnar, almenningi. Stjórnmálamenn tóku sinn toll með kosningaloforðum um framkvæmdir við byggingu orkufrekra iðjuvera og veiktu með því móti samningsstöðu Íslands gagnvart erlendum kaupendum eftir kosningar. Kaupendurnir vissu sem var að stjórnmálamenn voru búnir að lofa framkvæmdum. Orkubúskapurinn hefur því verið sama marki brenndur og sjávarútvegurinn og bankabransinn: allt á undirverði. Þannig getur farið þegar menn höndla með annarra fé. Borgunarmálið nú – verðmæt eign úr safni ríkisbanka seld völdum mönnum (og frændum!) án útboðs langt undir réttu verði – er angi á sama meiði.Fjölskyldusilfrið Í ljósi þessarar sögu þarf að skoða ástand og horfur annarra eigna almennings svo sem heilbrigðiskerfisins sem rambar nú á barmi hruns vegna langvinnrar vanrækslu, Ríkisútvarpsins o.fl. sameigna fólksins í landinu. Hví skyldu sömu menn og flokkar ekki reyna til þrautar að selja allt fjölskyldusilfrið á undirverði? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Stúlka frá Gaza sem að missti allt Asil Jihad Al-Masri Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Kjósum með mannréttindum á laugardaginn Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kári Garðarsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Sérhver þjóð á sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sérhver þjóð þarf að huga vel að landi sínu, lífi, sögu og menningu, og mætti hafa langt mál um það. Hér ætla ég að láta mér duga að huga að einum þætti málsins, sameiginlegum fjáreignum íslenzku þjóðarinnar. Þær eru margar og voru enn fleiri á fyrri tíð áður en alda einkavæðingar reið yfir landið, en þá hafði kommúnisminn hrunið með brauki og bramli í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra í Austur-Evrópu um og eftir 1990. Rökin fyrir einkavæðingu banka og ýmissa annarra ríkisfyrirtækja voru þá og eru enn býsna sterk, en framkvæmdin mistókst enda varðaði einkavæðing bankanna veginn að hruni þeirra fáeinum árum síðar. Alþingi ber höfuðábyrgð á málinu og hefur í reyndinni gengizt við sekt sinni með því að láta undir höfuð leggjast að framfylgja eigin ályktun frá 2013 um að láta rannsaka einkavæðingu bankanna ofan í kjölinn.Auðlindarentan Sameiginlegar fjáreignir íslenzku þjóðarinnar eru annars vegar landið og miðin með öllum þeim auði sem þar er að finna og hins vegar ýmis manngerð verðmæti, t.d. fyrirtæki og innviðir í eigu ríkis og byggða og ýmis mannvirki (heilbrigðiskerfið, vegakerfið o.s.frv.). Alþingi hefur yfirleitt ekki haldið vel á þessum eignum fyrir hönd eigandans, fólksins í landinu. Það er til marks um hirðuleysi yfirvalda um eigur almennings að hvergi í opinberum gögnum – t.d. ekki á vefsetri Hagstofu Íslands – er nokkrar upplýsingar að finna um áætlað verðmæti sameiginlegra fjáreigna þjóðarinnar. Eina opinbera stofnunin sem birt hefur slíkt mat er Þjóðhagsstofnun undir stjórn Þórðar Friðjónssonar; hún var lögð niður. Það hefur því komið í hlut hagfræðinga utan stjórnkerfisins að meta eigur þjóðarinnar til fjár á eigin ábyrgð. Indriði Þorláksson hagfræðingur og fv. ríkisskattstjóri metur sjávarauðlindina svo að hún gefi af sér rentu upp á 2% til 3% af landsframleiðslu á hverju ári og ég lýsti á þessum stað 12. nóvember í fyrra. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur í Háskóla Íslands metur orkulindirnar með líku lagi svo að þær geti gefið af sér rentu sem nemur 1,5% til 2% af landsframleiðslu á hverju ári. Við erum því að tala um auðlindarentu sem nemur samtals 3,5% til 5% af landsframleiðslu á hverju ári. Séu eðlilegir vextir taldir nema 3,5% til 5% á ári má í grófum dráttum af þessu ráða að auðlindir þjóðarinnar til sjós og lands séu jafnvirði landsframleiðslunnar á hverju ári eða því sem næst líkt og t.d. í Kanada. Þetta er meira en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð en minna en í Noregi.Að höndla með annarra fé Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir vel tengdum mönnum á undirverði, þ.e. undir sannvirði, eins og Ríkisendurskoðun lýsti í skýrslu sinni um einkavæðingu ríkisfyrirtækja 2001. Þar segir m.a.: „Sú söluaðferð að auglýsa ráðandi hlut til sölu á sama tíma í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. verður að teljast óheppileg. Í fyrsta lagi var ekki komin reynsla á þessa söluaðferð og í öðru lagi gaf hún minni möguleika á að koma á samkeppni milli áhugasamra kaupenda. Enn fremur vaknar spurning um hvort sá tími sem valinn var til sölunnar hafi verið heppilegur.“ Sala bankanna í hendur vildarvina á undirverði var þó ekki annað en rökrétt framhald ókeypis afhendingar aflakvóta til útvegsmanna sem hafa þakkað fyrir sig líkt og bankarnir gerðu með því að moka fé í stjórnmálamenn og flokka og fjölmiðla svo sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Umgengnin við orkuna hefur verið sömu ættar. Orkuverð til erlendra kaupenda hefur jafnan verið svo lágt að því þurfti að halda leyndu fyrir eiganda orkunnar, almenningi. Stjórnmálamenn tóku sinn toll með kosningaloforðum um framkvæmdir við byggingu orkufrekra iðjuvera og veiktu með því móti samningsstöðu Íslands gagnvart erlendum kaupendum eftir kosningar. Kaupendurnir vissu sem var að stjórnmálamenn voru búnir að lofa framkvæmdum. Orkubúskapurinn hefur því verið sama marki brenndur og sjávarútvegurinn og bankabransinn: allt á undirverði. Þannig getur farið þegar menn höndla með annarra fé. Borgunarmálið nú – verðmæt eign úr safni ríkisbanka seld völdum mönnum (og frændum!) án útboðs langt undir réttu verði – er angi á sama meiði.Fjölskyldusilfrið Í ljósi þessarar sögu þarf að skoða ástand og horfur annarra eigna almennings svo sem heilbrigðiskerfisins sem rambar nú á barmi hruns vegna langvinnrar vanrækslu, Ríkisútvarpsins o.fl. sameigna fólksins í landinu. Hví skyldu sömu menn og flokkar ekki reyna til þrautar að selja allt fjölskyldusilfrið á undirverði?