Skoðun

Lítið breytt ríkisstjórn

Andri Sigurðsson skrifar
Fléttan sem ríkisstjórnin bauð okkur uppá í vikunni er hönnuð til að hámarka möguleika hennar sjálfrar til að halda völdum eins lengi og mögulegt er.

Sigmundur Davíð sem var uppvís að fela sína peninga í skattaskjólum og reyna svo að ljúga sig frá því er enn á þingi, er enn formaður síns flokks og hefur því enn mikil völd.

Bjarni Benediktsson, sem nú er einskonar leiðtogi þessarar klíku, hefur líka notast við skattaskjól. Saman hanga þeir á völdunum, valdanna vegna. Til þess eins að tryggja sína hagsmuni, hagsmuni flokksins og sérhagsmuni vina og kunningja.

Bjarni Benediktsson hefur í „prinsippinu“ gerst sekur um sama glæp og Sigmundur Davíð, þar er aðeins stigs munur á ef einhver. Ef þeim væri ekki einfaldlega sama um almenning hefðu þeir gert það eina rétta og boðað strax til kosninga eða stigið til hliðar (raunverulega) og látið stjórn landsins í hendur einhverra annarra sem njóta áþreifanlegs trausts. Hvorugt gerðist.

Uppá hvað bauð ríkistjórnin okkur svo?

Annars vegar að forsætisráðherra „stígi til hliðar“ en sé enn í valdastöðu á þingi og sýni enga einustu iðrun. Hinsvegar óljóst og loðið orðalag um kosningar seinna á árinu án þess að tilgreina nákvæma dagsetningu.

Svo tala háttsettir menn um að töluverðar breytingar hafi verið gerðar á ríkistjórninni. Það stenst enga skoðun, enga. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa oft gerst sekir um orðaleiki og hafa því enga innistæðu hjá þjóðinni og geta ekki talað með þessum hætti.

Nei, það hefur ekkert réttlæti náð fram að ganga. Engin siðbót. Það sem stendur eftir er áframhaldandi leikrit hannað til að sefa reiði fólks. Þetta er ekki það siðferði sem almenningur kallar eftir heldur þveröfugt. Í stað þess að sýna iðrun halda leiðtogar okkar áfram að ljúga og blekkja. Ekkert hefur í raun breyst síðan á mánudag þegar allt að þrjátíu þúsund manns mættu á Austurvöll, ekki neitt!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×