Skoðun

Eitt samfélag fyrir alla

Logi Einarsson skrifar
Íslendingar hafa löngum þótt höfðingjadjarfir. Smiður hikar ekki við að ávarpa og jafnvel takast á við forsetann, hittist þeir í heita pottinum. Börn efnameiri foreldra sækja skóla og frístunda­starf með þeim efnaminni. Samfélag okkar hefur þróast síðustu áratugi frá stéttskiptingu, þar sem alþýðan mátti sín lítils, til opnara og réttlátara samfélags. Um þann árangur ættum við að standa vörð.

Á yfirstandandi kjörtímabili hafa ríkisstjórn og stjórnarþingmenn lagt fram frumvörp og tjáð sig með þeim hætti að augljóst er að taka verður til öflugra varna fyrir velferðarkerfið. Jafnt aðgengi allra að menntun er t.d. eitt af grundvallaratriðum réttláts samfélags.

Fjöldatakmarkanir nemenda, 25 ára og eldri, í bóknám framhaldsskóla hafa leitt til þess að sá hópur hefur nær horfið úr opinberu framhaldsskólunum. Ungt fólk sem hefur flosnað upp úr skóla vegna erfiðra aðstæðna, en hyggst taka upp þráðinn og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, kemur að lokuðum dyrum. Þetta bitnar ekki síst á landsbyggðinni. Vanfjármagnaðir framhaldsskólar hafa ekki önnur úrræði en að neita þessu fólki um skólavist.

Nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna hefur kannski yfir sér fjarskafrítt yfirbragð en varla meira en það. Samkvæmt því fá námsmenn 65.000,- króna styrk á mánuði, en vextir þess hlutar sem taka þarf að láni til framfærslu hækka úr 1% í 3% og tekjutenging afborgana afnumin. Þeir sem hafa aðstöðu til að búa frítt í heimahúsum geta einhverjir látið sér nægja 65.000,- krónur á mánuði en aðrir þurfa að taka lán, sem greidd verða til baka með þyngri greiðslubyrði en áður. Þetta kemur harðast niður á námsmönnum með börn, sem þurfa viðbótarlán.

Verði frumvarpið samþykkt þyngist róðurinn hjá stórum hópi að námi loknu. Það er nauðsynlegt að endurskoða námslánakerfið en þar á félagslegt réttlæti að vera leiðarstefið.

Því er gjarnan haldið fram að enginn munur sé á stefnum stjórnmálaflokkanna en í raun er grundvallarmunur á gildum þeirra. Sumir þeirra vilja stéttskipt samfélag en Samfylkingin vill eitt samfélag fyrir alla.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×