Skoðun

Fjármálastefna til 5 ára

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Í dag verður síðari umræða á Alþingi um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem er mikilvægasta þingskjal kjörtímabilsins. Í henni felst skuldbinding um hvernig haga eigi skatta- og útgjaldastefnu stjórnvalda allt kjörtímabilið. Stjórnvöld þurfa að fylgja henni eftir og ströng skilyrði eru fyrir endurskoðun hennar. Aðeins má endurskoða fjármálastefnuna ef grundvallarforsendur hennar bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum.

Ef ekkert svo stórkostlegt gerist þá eiga stjórnvöld að grípa til aðgerða sem leiða til þess að markmiðum fjármálastefnunnar verði náð hvort sem er á tekjuhlið, gjaldahlið eða með niðurgreiðslu skulda. Þess vegna er mikið áhyggjuefni að í stefnunni sé ekki skapað svigrúm fyrir aukin útgjöld ef forsendur hagspárinnar breytast á tímabilinu og að ekki sé horft til þess að auka tekjuöflun frá efnaðasta fólki landsins og þeim fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar í sjávarútvegi, orkuframleiðslu, stóriðju og ferðaþjónustu. Útgjaldareglan sem ríkisstjórnin setur verður til þess að ekki verður mögulegt að afla tekna til að rétta af stöðuna ef hagstæðar spár ganga ekki eftir, heldur verður að ráðast í niðurskurð á ríkisútgjöldum.

Fjármálaráð á samkvæmt lögum að leggja mat á fjármálastefnuna. Hvorki ríkisstjórnin né meirihluti fjárlaganefndar bregst við skýrum athugasemdum fjármálaráðs. Athugasemdirnar lúta m.a. að því að marka þurfi ferðaþjónustunni skýrari ramma og að afla þurfi frekari tekna frá hinum sívaxandi ferðamannafjölda. Fjármálaráðið gerir alvarlegar athugasemdir við að áætlunin tekur ekki mið af hagsveifluleiðréttingu. Væri það gert ætti áætlaður afgangur af opinberum fjármálum að vera meiri en stefnan segir til um. Af umsögn fjármálaráðs má ráða að afla þurfi aukinna tekna svo að velferðarkerfið verði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Fara á gamalkunna leið í ríkisfjármálum sem hægristjórnir hafa farið með íslenskt samfélag aftur og aftur. Niðurstaðan verður sú að ekki verður ráðist í aðkallandi úrbætur á samgöngukerfinu eða í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Það er óásættanlegt og ekki í samræmi við kosningaloforð.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×