Umskipti við Eystrasalt Þorvaldur Gylfason skrifar 6. júlí 2017 07:00 Meðal frægustu Letta úti um heim er skákmeistarinn Mikhail Tal sem hét réttu nafni Mihails Tals. Öll lettnesk karlmannsnöfn, bæði fornöfn og eftirnöfn, enda á s að mér skilst. Tal vakti heimsathygli þegar hann sigraði Mikhail Botvinnik í heimsmeistaraeinvíginu í skák 1960 og varð yngstur allra heimsmeistara fram að því, 23ja ára að aldri. Hann tapaði titlinum síðan aftur árið eftir í hendur Botvinniks, gamla brýnisins sem var heimsmeistari 1948-1963 ef tvö ár eru undan skilin, 1957 þegar Vasily Smyslov sigraði Botvinnik og 1960 þegar Tal hafði betur. Friðrik Ólafsson náði jafntefli við Tal í Júgóslavíu 1959 og lagði hann í Moskvu 1971 og á Las Palmas 1975. Sumir telja Tal snjallastan allra skákmanna fyrr og síðar í sókn og flóknum fléttum. Garðar Sverrisson, sem átti Bobby Fisher að nánum vini, segir að fv. eiginkona Tals hafi verið daglegur gestur á heimili hans og seinni konunnar og Boris Spasský hafi skýrt það svo að Tal liði bezt í flóknum stöðum.Flóknar stöður Lettar eru vanir flóknum stöðum. Landið var undir erlendu oki frá 12. öld og nær samfellt fram til 1990. Fyrst voru það Þjóðverjar sem stjórnuðu landinu frá 12. öld til 16. aldar, síðan Pólverjar og Svíar fram á 18. öld og þá Rússar fram að fyrra stríði 1914-1918. Lettar lýstu yfir sjálfstæði 1918 og þá tók fyrst við þingræði til 1934 og síðan innlent einræði fram að síðari heimsstyrjöldinni þegar Rússar réðust fyrst inn í landið 1940, síðan Þjóðverjar 1941 og þá aftur Rússar 1944 og höfðu sig ekki á braut fyrr en 1991. Íslandssagan er heldur viðburðasnauð í samanburði við sögu Lettlands. Ég kom fyrst til Lettlands 1992 til fyrirlestrahalds. Bókin mín um markaðsbúskap sem ég hafði skrifað ásamt tveim félögum mínum, Norðmanni og Svía, var þá komin út á lettnesku, fyrsta alvöruhagfræðibókin á því máli frá því fyrir stríð var okkur sagt. Höfuðborgin Riga var í niðurníðslu en undir yfirborðinu grillti í gamlan glæsibrag því borgin hafði verið mikilvæg miðstöð menningar og viðskipta á fyrri tíð. Sömu sögu var að segja um Eistland og Litháen. Þessi þrjú lönd höfðu hrærzt fyrir eigið tilstilli í meginstraumi evrópskrar menningar árin milli stríða, 1918-1939, en þau voru síðan innlimuð í Sovétríkin og svipt frelsi sínu. Til að innsigla ráðahaginn voru Rússar sendir til Eystrasaltsríkjanna þriggja í stórum stíl til að koma sér þar fyrir meðal heimamanna. Fjórðungur íbúa Eistlands og Lettlands er nú Rússar, en hlutfallið er miklu lægra í Litháen, um 5%.Viðsnúningur Lettar hafa notað tímann vel frá endurheimt sjálfstæðis síns 1991. Þeir urðu þá strax aðilar að SÞ, gengu í ESB og NATO 2004 og tóku upp evruna 2014. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB 2003 greiddu 67% kjósenda í Lettlandi og Eistlandi atkvæði með aðild og 91% kjósenda í Litháen. Munurinn stafar trúlega af því að margir rússneskir kjósendur greiddu atkvæði gegn aðild en heimamenn greiddu flestir atkvæði með aðild. Óttinn við yfirgangssaman granna í austri hafði trúlega talsverð áhrif á úrslitin í öllum löndunum þrem líkt og í Finnlandi 1994 þegar 57% finnskra kjósenda sögðu já við ESB-aðild. Rússar kvarta á móti undan því að rússneski minnihlutinn í Lettlandi sitji ekki við sama borð og Lettar; sama á við um Eistland. Eistar og Lettar segja á móti: Rússar skildu eftir sig sviðna jörð í Eystrasaltsríkjunum líkt og þeir hafa farið með eigið land, t.d. í Karelíu. Kaupmáttur þjóðartekna á mann í Lettlandi er nú svipaður og í Grikklandi og Póllandi, nokkru minni en í Eistlandi og Litháen en meiri en í Rússlandi skv. upplýsingum Alþjóðabankans. Lettar eru á þennan kvarða hálfdrættingar á við Íslendinga.Djarft teflt Evran reyndist engin fyrirstaða endurreisnar Lettlands eftir fjármálakreppuna sem lék landið grátt 2009-2010. Stjórnvöld hugleiddu að fella gengi latsins líkt og krónan féll hér heima og fresta upptöku evrunnar fram yfir 2014 en þau ákváðu að gera það ekki. Þau fóru heldur aðrar leiðir m.a. með því að telja launþega á að sætta sig við beina kauplækkun frekar en kaupmáttarrýrnun í krafti gengislækkunar með gamla laginu. Staðan var flókin. Djarft var teflt, en dæmið gekk upp. Þegar Lettar endurheimtu sjálfstæði sitt 1991 þurftu þeir að byggja ýmsar stofnanir upp frá grunni eða jafnvel sækja þær til útlanda. Nær allur bankarekstur í Lettlandi – um 90% – er í höndum útlendinga, einkum Svía og Norðmanna. Norrænum bönkum var boðið að starfa í landinu gagngert til að auka gegnsæi og girða fyrir spillingu. Fjárböðun fyrir Rússa og skyld glæpastarfsemi er að mestu bundin við lettneska, rússneska og úkraínska banka sem nota Lettland nú líkt og Kýpur áður sem stökkpall inn í Evrópu. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Stúlka frá Gaza sem að missti allt Asil Jihad Al-Masri Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Kjósum með mannréttindum á laugardaginn Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kári Garðarsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Meðal frægustu Letta úti um heim er skákmeistarinn Mikhail Tal sem hét réttu nafni Mihails Tals. Öll lettnesk karlmannsnöfn, bæði fornöfn og eftirnöfn, enda á s að mér skilst. Tal vakti heimsathygli þegar hann sigraði Mikhail Botvinnik í heimsmeistaraeinvíginu í skák 1960 og varð yngstur allra heimsmeistara fram að því, 23ja ára að aldri. Hann tapaði titlinum síðan aftur árið eftir í hendur Botvinniks, gamla brýnisins sem var heimsmeistari 1948-1963 ef tvö ár eru undan skilin, 1957 þegar Vasily Smyslov sigraði Botvinnik og 1960 þegar Tal hafði betur. Friðrik Ólafsson náði jafntefli við Tal í Júgóslavíu 1959 og lagði hann í Moskvu 1971 og á Las Palmas 1975. Sumir telja Tal snjallastan allra skákmanna fyrr og síðar í sókn og flóknum fléttum. Garðar Sverrisson, sem átti Bobby Fisher að nánum vini, segir að fv. eiginkona Tals hafi verið daglegur gestur á heimili hans og seinni konunnar og Boris Spasský hafi skýrt það svo að Tal liði bezt í flóknum stöðum.Flóknar stöður Lettar eru vanir flóknum stöðum. Landið var undir erlendu oki frá 12. öld og nær samfellt fram til 1990. Fyrst voru það Þjóðverjar sem stjórnuðu landinu frá 12. öld til 16. aldar, síðan Pólverjar og Svíar fram á 18. öld og þá Rússar fram að fyrra stríði 1914-1918. Lettar lýstu yfir sjálfstæði 1918 og þá tók fyrst við þingræði til 1934 og síðan innlent einræði fram að síðari heimsstyrjöldinni þegar Rússar réðust fyrst inn í landið 1940, síðan Þjóðverjar 1941 og þá aftur Rússar 1944 og höfðu sig ekki á braut fyrr en 1991. Íslandssagan er heldur viðburðasnauð í samanburði við sögu Lettlands. Ég kom fyrst til Lettlands 1992 til fyrirlestrahalds. Bókin mín um markaðsbúskap sem ég hafði skrifað ásamt tveim félögum mínum, Norðmanni og Svía, var þá komin út á lettnesku, fyrsta alvöruhagfræðibókin á því máli frá því fyrir stríð var okkur sagt. Höfuðborgin Riga var í niðurníðslu en undir yfirborðinu grillti í gamlan glæsibrag því borgin hafði verið mikilvæg miðstöð menningar og viðskipta á fyrri tíð. Sömu sögu var að segja um Eistland og Litháen. Þessi þrjú lönd höfðu hrærzt fyrir eigið tilstilli í meginstraumi evrópskrar menningar árin milli stríða, 1918-1939, en þau voru síðan innlimuð í Sovétríkin og svipt frelsi sínu. Til að innsigla ráðahaginn voru Rússar sendir til Eystrasaltsríkjanna þriggja í stórum stíl til að koma sér þar fyrir meðal heimamanna. Fjórðungur íbúa Eistlands og Lettlands er nú Rússar, en hlutfallið er miklu lægra í Litháen, um 5%.Viðsnúningur Lettar hafa notað tímann vel frá endurheimt sjálfstæðis síns 1991. Þeir urðu þá strax aðilar að SÞ, gengu í ESB og NATO 2004 og tóku upp evruna 2014. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB 2003 greiddu 67% kjósenda í Lettlandi og Eistlandi atkvæði með aðild og 91% kjósenda í Litháen. Munurinn stafar trúlega af því að margir rússneskir kjósendur greiddu atkvæði gegn aðild en heimamenn greiddu flestir atkvæði með aðild. Óttinn við yfirgangssaman granna í austri hafði trúlega talsverð áhrif á úrslitin í öllum löndunum þrem líkt og í Finnlandi 1994 þegar 57% finnskra kjósenda sögðu já við ESB-aðild. Rússar kvarta á móti undan því að rússneski minnihlutinn í Lettlandi sitji ekki við sama borð og Lettar; sama á við um Eistland. Eistar og Lettar segja á móti: Rússar skildu eftir sig sviðna jörð í Eystrasaltsríkjunum líkt og þeir hafa farið með eigið land, t.d. í Karelíu. Kaupmáttur þjóðartekna á mann í Lettlandi er nú svipaður og í Grikklandi og Póllandi, nokkru minni en í Eistlandi og Litháen en meiri en í Rússlandi skv. upplýsingum Alþjóðabankans. Lettar eru á þennan kvarða hálfdrættingar á við Íslendinga.Djarft teflt Evran reyndist engin fyrirstaða endurreisnar Lettlands eftir fjármálakreppuna sem lék landið grátt 2009-2010. Stjórnvöld hugleiddu að fella gengi latsins líkt og krónan féll hér heima og fresta upptöku evrunnar fram yfir 2014 en þau ákváðu að gera það ekki. Þau fóru heldur aðrar leiðir m.a. með því að telja launþega á að sætta sig við beina kauplækkun frekar en kaupmáttarrýrnun í krafti gengislækkunar með gamla laginu. Staðan var flókin. Djarft var teflt, en dæmið gekk upp. Þegar Lettar endurheimtu sjálfstæði sitt 1991 þurftu þeir að byggja ýmsar stofnanir upp frá grunni eða jafnvel sækja þær til útlanda. Nær allur bankarekstur í Lettlandi – um 90% – er í höndum útlendinga, einkum Svía og Norðmanna. Norrænum bönkum var boðið að starfa í landinu gagngert til að auka gegnsæi og girða fyrir spillingu. Fjárböðun fyrir Rússa og skyld glæpastarfsemi er að mestu bundin við lettneska, rússneska og úkraínska banka sem nota Lettland nú líkt og Kýpur áður sem stökkpall inn í Evrópu. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.