Skoðun

Sértæk úrræði í Brúarlandi

Þorbjörg Sólbjartsdóttir skrifar
Ég kenni í því sögufræga húsi Brúarlandi, sem er útibú frá Varmárskóla í Mosfellsbæ. Húsið er ekki einungis fallegt heldur ríkir þar frábær andi sem mér hefur fundist vera forréttindi að starfa í. Ástæðan er einfaldlega sú að einingin okkar er lítil og álagið því mun minna á okkur starfsfólkinu en í mörgum stærri einingum. Ég er t.d. með 13 frábæra nemendur í umsjónarkennslu, en það eru yfirleitt um og yfir 20 nemendur í hverjum bekk. Núna undir árslok mun einingin okkar flytja í nýjan og glæsilegan skóla í Helgafellslandinu. Skólinn mun stækka, það mun fjölga í hópnum, bæði nemendum og starfsfólki og álag mun aukast.

Eftir stendur þessi frábæra bygging með mikla möguleika til að þjónusta skólakerfið í Mosfellsbæ. Við í Framsókn viljum árið 2019 nýta húsnæðið Brúarland fyrir nemendur með alvarlegan hegðunar-, tilfinnninga-félags- og aðlögunarvanda svipað því sem kennarar Hlíðarskóla á Akureyri eru að gera. Við teljum að þetta úrræði geti skapað jákvæða brú á milli skóla og heimilis og létt álagið innan skólanna .Skólinn yrði hugsaður sem tímabundið úrræði, sem tæki við þegar allt hefði verið reynt til þrautar til að mæta þörfum nemendans í sínum heimaskóla. Þar myndi þverfaglegt teymi starfa með það að markmiði að hjálpa nemandanum að vinna úr sínum vanda. Þar myndu heimilið, heimaskóli og skólinn í Brúarlandi vinna saman að því að aðlaga barnið sem fyrst aftur inn í sinn bekk í samstarfi við umsjónarkennara barnsins. Úrræðið myndi nýtast öllum skólum Mosfellsbæjar.

Sérúrræði í Brúarlandi mun því koma til með að létta álagið á skólunum, starfsfólki og börnum. Þar sem nánast engin úrræði hafa verið í boði fyrir börn með mikinn vanda. Mikilvægt er að huga að öllu starfsumhverfi starfsmanna og barna í skólum og minnka álag og áreiti. Hugmyndafræðin „skóli án aðgreiningar“ er flott á blaði en hefur ekki verið fylgt inn í skólakerfið með því fjármagni og sérþekkingu sem þarf til og því þarf að finna ráð sem virka. Við í Framsóknarflokknum teljum að lausnin í Brúarlandi sé svarið við því.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×