Skoðun

Einfalt og öflugt kerfi

Kristján Þór Júlíusson skrifar
Vorið 2016 samþykkti Alþingi samhljóða frumvarp mitt sem þáverandi heilbrigðisráðherra um að koma á nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustuna. Frumvarpið byggði á tillögum nefndar sem leidd var af Pétri heitnum Blöndal. Um var að ræða grundvallarbreytingar – þær mestu sem gerðar höfðu verið á greiðsluþátttöku sjúklinga í áraraðir.

Helstu markmið frumvarpsins voru að skapa einfaldara, gegnsærra og skiljanlegra greiðsluþátttökukerfi. Verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum. Draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Frumvarpið varð að lögum 2. júní 2016 og tók nýja kerfið gildi 1. maí 2017.

Starfsfólk velferðarráðuneytisins ásamt Sjúkratryggingum Íslands undir stjórn Steingríms Ara Arasonar unnu vel að framkvæmd málsins og þá var samvinna við velferðarnefnd undir forystu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur til mikillar fyrirmyndar. Sjúkratryggingar Íslands hafa nú tekið saman skýrslu um reynsluna af þessu nýja kerfi. Niðurstaðan er sérstaklega ánægjuleg en staðreyndirnar tala sínu máli:

Markmið nýja kerfisins um að lækka verulega útgjöld þeirra sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hefur náðst.

l Þak á hámarksgreiðslur sjúklinga hefur varið þá sem veikastir eru fyrir miklum útgjöldum.

l Útgjöld barnafjölskyldna í hinu nýja kerfi hafa lækkað.

l Hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu hefur styrkst.

l Meðalútgjöld einstaklinga vegna allrar þjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökukerfið, bæði samningsbundinnar þjónustu SÍ, þjónustu á sjúkrahúsum og heilsugæslu, hafa lækkað um 19%.

l Heildarútgjöld einstaklinga vegna allrar þjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökukerfið lækkuðu um rúmar 800 milljónir miðað við árið 2016.

Það eru gleðitíðindi hversu vel hefur til tekist á fyrsta ári nýs kerfis. Við eigum að halda áfram á þessari braut og draga enn frekar úr greiðsluþátttöku sjúklinga líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×