Skoðun

Vandinn færður á 1.482 barnafjölskyldur

Valgerður Sigurðardóttir skrifar
Við vitum að það er að koma haust þegar við byrjum að heyra fréttir af sviknum loforðum meirihlutans í Reykjavík vegna innritunar í leikskóla og frístundaheimili. Á fundi skóla- og frístundaráðs voru kynntar sláandi tölur varðandi þann stóra vanda sem við er að etja í Reykjavíkurborg vegna manneklu.

Svikin loforð

Alls komast 128 börn ekki inn í leikskóla í haust. Það vantar 62 stöðugildi í leikskóla borgarinnar miðað við grunnstöðugildi í leikskólum og um 23 stöðugildi sem vantar í afleysingu. Það vantar um 34 stöðugildi í grunnskólana. Það vantar um 104 stöðugildi á frístundaheimilum. Þá fá 1.354 börn ekki pláss í frístund í upphafi skólaárs.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit meirihlutans um að koma til móts við foreldra og dagvistun barna þeirra í kosningabaráttunni sl. vor hefur fátt gerst. Vandinn er raunverulegur og tugir foreldra í Reykjavík standa nú frammi fyrir því að geta ekki sinnt vinnu sinni vegna aðgerðarleysis meirihlutans. Vandi borgarinnar er því færður á fjölskyldur ungra barna. Ástandið sem skapast hefur í leikskólum borgarinnar bitnar þó verst á börnunum.

Það vantar um 104 stöðugildi á frístundaheimilum eða 211 starfsmenn. Því fá ekki 1.354 börn pláss í frístund í upphafi skólaárs.

Einnig vantar um 34 stöðugildi í grunnskólum. Það lendir því meira álag á því fólki sem vinnur í þessum skólum. Því er ekki furða að kulnun í starfi sé stór vandi hjá þeim sem starfa í grunnskólum.



Snúum vörn í sókn

Stjórnmálamenn í borginni verða að átta sig á því að borgin þarf að fara að spila sókn svo að þeir fagmenntuðu starfsmenn sem eftir starfa hjá borginni í leik- og grunnskólum hverfi ekki til nágrannasveitarfélaganna. Þeir verða að standa við þau stóru loforð sem hafa verið gefin og hætta að velta vandanum á undan sér. Snúum vörn í sókn fyrir börnin okkar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×