Skoðun

Pólitískt millifærslukerfi

Kristján Þór Júlíusson skrifar
Markmið frumvarps um veiðigjald sem er til umræðu á Alþingi er að færa álagningu gjaldsins nær í tíma þannig að gjaldtakan sé meira í takt við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt að gera stjórnsýslu með álagningu gjaldsins einfaldari, skilvirkari og áreiðanlegri. Frumvarpið var unnið í samráði við veiðigjaldsnefnd, Fiskistofu og embætti ríkisskattstjóra og var lagt fram á Alþingi 25. september sl. Í kjölfarið hélt ég 11 opna fundi um allt land til að kynna frumvarpið og taka þátt í rökræðum. Atvinnuveganefnd Alþingis var með málið til meðferðar í um tvo mánuði og hélt um það 11 fundi og tók á móti um 100 gestum.

Það var merkilegt að taka þátt í 2. umræðu um frumvarpið fyrir helgi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekki samstíga í gagnrýni sinni – héldu því ýmist fram að verið væri að lækka veiðigjald um marga milljarða á meðan aðrir fullyrtu að frumvarpið myndi „tryggja ofurskattlagningu í sessi“. Viðbrögð þingmanna Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar eftir tveggja mánaða yfirlegu voru þau að leggja fram breytingartillögu sem gerir raunar ekki eina einustu breytingu á þeirri aðferð við innheimtu og álagningu veiðigjalds sem frumvarpið kveður á um. Hins vegar felst í tillögunni að innkalla allar aflaheimildir á 20 ára tímabili og endurúthluta þeim síðan aftur. Þannig leggja flokkarnir til í 250 orða breytingartillögu við frumvarp um veiðigjald að kollvarpa því fiskveiðistjórnunarkerfi sem Íslendingar hafa byggt upp og er talið í fremstu röð á heimsvísu.

Þingmennirnir láta reyndar vera að útfæra með hvaða hætti þeir ætla að endurúthluta aflaheimildum. Þeir reyna í engu að varpa ljósi á hver fjárhagsleg áhrif breytinganna verða á ríkissjóð eða íslenskan sjávarútveg. Hvernig standa á að því millifærslukerfi sem flokkarnir hafa allir talað fyrir og mun veita stjórnmálamönnum hvers tíma það vald að úthluta aflaheimildum, er í engu svarað nú sem fyrr. Þessum spurningum og fleiri til þarf stjórnarandstaðan að svara þegar umræða um málið heldur áfram á Alþingi í dag.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×