Skoðun

Kosið í dag!

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Fjárlög næsta árs eru fjárlög hinna glötuðu tækifæra þar sem öryrkjar, eldri borgarar, ungt fólk og millistéttin eru skilin eftir. Þrátt fyrir ummæli verkalýðshreyfingar um að húsnæðismálin séu eitt stærsta baráttumálið mun opinber húsnæðisstuðningur haldast nánast óbreyttur milli ára. Samfylkingin leggur hins vegar til að stofnframlög til almennra íbúða verði stóraukin og hækkunar vaxtabóta.

Á fundi fjárlaganefndar sögðu forsvarsmenn hjúkrunarheimila að ef ekki yrði bætt í, myndu sum hjúkrunarheimili neyðast til að skera niður í gæði matar til eldri borgara s.s. á sunnudögum og jólum. Samfylkingin leggur til hækkun hér upp á milljarð.

Þeir fjármunir sem eiga að renna til öryrkja umfram fjölgun þeirra, duga einungis fyrir um fjórðungi af því sem kostar að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Meirihlutinn lækkaði meira að segja framlög til öryrkja frá því frumvarpið var kynnt í haust. Samfylkingin leggur hins vegar til að fjórir milljarðar króna renni til viðbótar til öryrkja og aðrir fjórir milljarðar til aldraðra. Þá leggur Samfylkingin til aukna fjármuni til barnabóta, almennrar löggæslu, samgöngumála, ásamt auknum framlögum til skóla og leikins sjónvarpsefnis.

Samfylkingin leggur til aukna fjármuni til sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og SÁÁ en meirihluti fjárlaganefndar lagði einungis til helming af því sem SÁÁ þarf til að vinna á biðlistum. Þá leggur Samfylkingin til að 400 m.kr. renni til barna í Jemen og að gistináttagjald renni til sveitarfélaga.

Í fjárlagafrumvarpinu eru enn vannýtt tekjuúrræði gagnvart hinum tekjuhæstu, s.s. hækkun fjármagnstekjuskatts, álagning tekjutengds auðlegðarskatts og sykurskatts, auknar tekjur af erlendum ferðamönnum, hækkun kolefnisgjalds og aukin auðlindagjöld. Veiðileyfagjöld eiga að lækka um 3-4 milljarða milli ára og verða nú svipuð og tóbaksgjaldið. Með breyttri forgangsröðun í skattamálum væri hægt að fjármagna ofangreindar breytingartillögur og gera ráð fyrir hærri afgangi. Í dag verður kosið á þingi um þessar breytingartillögur og mun þá þjóðin sjá hið rétta andlit stjórnmálanna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×