Skoðun

Styrkurinn í breyttu hagkerfi

Bjarni Benediktsson skrifar
Við Íslendingar höfum náð framúrskarandi árangri á undanförnum árum. Myndin er skýr þegar við horfum á skuldastöðu heimilanna, sem er betri en hún var á uppgangsárunum fyrir fjármálahrunið, landsframleiðslu sem er sömuleiðis meiri en eins og hún gerðist best fyrir rúmum áratug, fjármálakerfið sem er heilbrigðara og sterkara, skuldir ríkisins sem hafa snarlækkað og stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum en við erum nú í fyrsta skipti á lýðveldistímanum með meiri eignir en skuldir í öðrum löndum.

Sennilega hefur fáum dottið í hug að þetta yrði staðan áratug eftir að neyðarlögunum var komið á. Að við hefðum endurheimt allan beinan kostnað af hruninu, losað okkur við höftin og komist í þá stöðu með afnámi tolla og vörugjalda að vera eitt opnasta og frjálsasta hagkerfi heims. Við höfum notið stöðugleika í verðlagi og lægri raunvaxta húsnæðislána en áður hafa sést.

Myndin af efnahagsmálum Íslands í dag sýnir einnig afgang af viðskiptajöfnuði. Í stuttu máli má segja að okkur hafi nær alla tíð gengið treglega að skapa gjaldeyristekjur fyrir því sem við höfum þurft að sækja til annarra landa. Til að tryggja jafnvægi í utanríkisviðskiptum voru því hér áður fyrr löng haftatímabil. Gerbreytt staða birtist okkur að þessu leyti í dag.

Síðastliðinn áratug eigum við jafn mörg ár með afgang af viðskiptum við útlönd og samtals frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Með þessu hefur orðið til myndarlegur óskuldsettur gjaldeyrisforði. Auk þess að byggja gjaldeyrissköpunina á öflugum sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði hefur ferðaþjónustan nú bæst við sem afar öflug stoð í hagkerfinu og góður vöxtur er í margvíslegu rannsóknar- og þróunarstarfi, hugbúnaðargerð, lyfjaiðnaði og erfðarannsóknum svo dæmi séu nefnd.

Myndin sem við sjáum er því af nýjum efnahagslegum veruleika. Við búum við breytt, sterkara og fjölbreyttara hagkerfi sem við verðum að gefa svigrúm til að halda áfram að vaxa og dafna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×