Skoðun

Kjarapakki

Eyþór Arnalds skrifar
Í dag leggjum við til í borgarstjórn tillögu um bætt kjör heimilanna í borginni. Við leggjum til að launaskattur borgarinnar; útsvar, verði lækkað. Við leggjum til lækkun á gjöldum heimilanna, en Orkuveitan er í eigu borgarinnar. Þessar aðgerðir geta skilað heimili með tveimur fyrirvinnum aukningu upp á 120 þúsund krónur eða sem nemur 200 þúsund krónum fyrir skatta á ári. Þá leggjum við til að Keldnalandið verði skipulagt undir hagstætt húsnæði, stofnanir og fyrir­tæki án tafar eða fyrirvara. Ríkið getur ekki skipulagt Keldnalandið. Það er í höndum borgarinnar.

Lækkun byggingargjalda getur lækkað húsnæðiskostnað ný­byggðra íbúða um 100 þúsund krónur á ári til viðbótar. Borgin tekur meira af launafólki en ríkið og hærri fjárhæð en nágrannasveitarfélögin. Fyrir því eru engin rök, enda ætti Reykjavík að vera hagstæðasta einingin sem langstærsta sveitarfélagið.

Þá var gjaldskrá Orkuveitunnar hækkuð mikið eftir bankahrunið. Í stað þess að greiða út milljarða í arð, leggjum við til gjaldskrárlækkun. Lækkun gjalda hjá Orkuveitunni hefur jákvæð áhrif á lánavísitölur til lækkunar. Það eru viðbótaráhrif sem skipta máli. Allt miðar þetta að því að bæta kjör fólksins sem býr í borginni. Bætt launakjör, lægri kostnaður heimilanna, hagstæðara húsnæði og áhrif til lækkunar verðtryggðra lána. Hér getur borgin lagt lóð á vogarskálarnar. Og það nokkur. Á sama tíma gerum við borgina samkeppnishæfari, en margir hafa farið til nágrannasveitarfélaganna, út á land eða til annarra landa. Við viljum að borgin sé fyrsti kostur. Hér geti ungt fólk eignast húsnæði og haft bættan kaupmátt.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vonast til að sem flestir í borgarstjórn sameinist um þennan kjarapakka. Borgin hefur farið of langt í að leggja álögur á fólkið í borginni. Nú er kominn tími til að breyta til hins betra.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×