Skoðun

Hérna.. af hverju vissi ég ekki af þessu?

Sigríður Karlsdóttir skrifar
Ég varð fyrir uppljómun í síðustu viku. Ég verð gjarnan fyrir uppljómun og verð þá eins og fjögurra ára barn að skoða froska í búri. Mér finnst ég þurfa að segja öllum frá.

Í þetta sinn varð ég fyrir veraldlegri uppljómun. Uppljómun buddunnar og fjárhagsins.

Ég vann ekki í genalottóinu hvað varðar tennur. Ég hef verið að kljást við meiriháttar tannvesen síðustu ár og hef ég þakkað máttarvöldum fyrir elskulega tannlækninn minn sem er vandvirkasti maður sem ég hef hitt.

Ég er með tennur á við 55 ára gamlan reykingamann. Heilsuráðgjafinn sjálfur. Það er greinilega ekki allt sem sýnist.

Ég uppgötvaði sem sé að ég get gert við tennurnar á mér út í útlöndum. Þið trúið ekki hvað ég ég er ánægð með þessa uppgötvun.

Ég fŕétti af ferð til Budapest í gegnum vin minn og nágranna, Reyni. Ég ákvað að slá til þar sem kvíðahnúturinn yfir því að borga komandi reikninga var orðinn þéttur.

Mig langar svo að segja ykkur frá reynslu minni. Því ég vona svo að aðrir í mínum sporum uppgötvi þessa gleði - er það hægt í tengslum við tannlækna??

Ég mætti með engar væntingar á eitt flottasta hótel sem ég hef verið á. AquaWorld hotel í Búdapest. Hreinlætið dásamlegt, herbergið svo fallegt og útsýnið bilað. Kannski er ég að misskilja eitthvað, en mér fannst þetta dásamlegt.

Ég vaknaði daginn eftir og fór í dásamlegan morgunverð þar sem augað, lyktarskyn og bragðskyn mitt fékk að dansa. Síðan var mér beint að tannlæknastofunni.

BUDAPEST KLINIKKEN. Hmm.. það er eitthvað svo skandinavískt og róandi.

Á móti mér tekur Hjalti. Maður á sextugsaldri og með mastersgráðu í nærveru.

Fyrir svona tannlækna-kvíðasjúkling eins og mig, var Hjalti himnasending. Róandi yfirbragðið, góðlátlegu augun og sefandi röddin um að þetta verði alltílagi, fyllti herbergið. Á móti mér taka líka fullt af ungverskum yndislegum klínikdömum sem taka allar í hendurnar á mér, ávarpa mig með nafni og segja mér með augunum að þetta er ekkert hættulegt.

Ég var send inn í herbergi með tæknilegasta tannlæknatæki sem ég hef séð. Það átti víst að taka myndir af allri fortíð minni í gegnum tennurnar. Öll súkkulaðistykkin sæjust á þessari mynd. Það var ekki hægt að ljúga.

Eftir það fékk ég að setjast til Dr. Sopiu sem sagði mér ýmislegt um tennurnar mínar. Sumt vissi ég, annað ekki. Hún setti upp allt sem þurfti að gera og prentaði það út á blað og í minningunni var broskarl á blaðinu. En það var örugglega fölsk minning, ég var bara svo glöð.

Ég mátti svo bara fara upp á dásamlega hótelherbergið mitt og hugsa málið. Hvað vildi ég láta gera? Myndatakan var frí. Ég mætti bara henda mér upp í rúm og afþakka allt og fara bara í frí. Ég mátti líka gera við eina tönn, tvær eða allt settið.

Ef ég varð eitthvað ringluð á hugtökum tannlæknanna, þá var þarna íslenskur ráðgjafi. Oddný. Algjör nagli og útskýrði fyrir mér á mannamáli hvað þetta þýðir og gætti þess að allt var eins og það átti að vera. Aldrei fékk ég á tilfinninguna að það hafi verið að reyna féfletta mig. Og er ég með mjög næman radar á féflettingar. Hjalti og Oddný voru með mér í liði.

Ég ákvað að gera við allt.

Tvær krónur (þið sem þekkið það hugtak) á Íslandi kosta 250.000 - 300.000 fer eftir tannlæknum og öðru. En það var það sem ég ætlaði að láta gera á Íslandi. Hef heyrt að það hafi farið yfir 300.000 sums staðar. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Ég þurfti að láta:

Króna 3 tennur

Rífa eina tönn 

Fá gervitönn þangað til implantið kemur

Bæta við brotna framtönn. 

Ég fór í tvöfalda tannhreinsun í leiðinni.

Ég borgaði 174.500 krónur íslenskar.

Ég er ekki að grínast! (Sagt á innsoginu með frekar uppglennt augu)

Og nú er besti parturinn eftir. Haldið ykkur!

Á hótelinu er GEGGJAÐ Spa. Þannig ef þú ert að bíða eftir að komast að hjá tannlækni getur þú hent þér í einn kokteil á inniskónum og sloppnum. Finnskar gufur þar sem þú berar þig með öðrum fyrir þá sem fíla það. Heitir pottar, nuddpottar á heimsklassa, Allt frítt. Vatnsrennibrautagarður á stærð við höfuðstöðvar Landsbankans í byggingu við hótelið.

Fyrir dekurdýrin þá kostar nudd innan við 5.000 krónur og plokkun og litun er á 700 krónur.

Þar liffar þú bara og njóddar á meðan tannsmiðurinn smíðar krónurnar eða þú bíður eftir að kallað verði á þig. Nei sko, þið verðið bara að gúgla myndir til að trúa mér. Ég trúði þessu ekki sjálf. Ef kokteill í Spa-i róar ekki taugarnar gerir ekkert það.

Stundum, þegar ég þurfti að bíða þá stökk ég 10 metra til hægri frá tannlæknastofunni og þá var ég komin inn í líkamsræktarstöð. Setti Metalica á og sippaði eins og brjálæðingur. Nema ef mér hafði verið gefið róandi þá kannski mögulega teygði ég bara á.

Hvar er apótek? Spyr konan sem hefur margar ára reynslu af tannveseni. Sýklalyfin þú veist.

Já, nei elskan - þú færð bara með þér ef þú þarft. Þau eru bara hér og sýndi mér pokann.

Ég borgaði undir 100.000 fyrir flug og hótel í 7 daga. Ég fékk meira segja kampavín í welcome drink. Og tryggingu á tönnunum til margar ára í rassvasanum.

Suma daga var enginn tannlæknatími. Þá rölti ég um í borginni og saug í mig ungverska menningu.

Hótelið er 20 mín frá miðbænum og kostar 2.400 krónur með leigubíl þangað.

Fyrir 270.000 sem jafngildir um það bil tveimur krónum á Íslandi fékk ég fullt af viðgerðum, vikufrí í æðislegri borg á frábæru hóteli. Ég vissi ekki að það væri hægt að hafa svona gaman í tannlæknaferðum. Og þvílík fagmennska hjá tannlæknunum! Ég hef svo háan standard eftir Sverri, tannlækninn minn - að ég kalla ekki allt ömmu mína á þessu sviði.

Þið skiljið kannski núna af hverju mig langaði til að deila þessari uppljómun með ykkur. Mér finnst þetta svo klikkað! Ef þið eruð í sömu sporum og ég, þá getið þið bara kíkt á facebook síðu Budapest Klinikken og tékkað á þessu. Ég brosi allavega enn þá breytt með fínu tönnunum mínum og veifa tásunum með ungverska naglalakkinu.

Hafið góðan dag!

Ykkar Sigga

Höfundur er lífsleiknikennari, heilsuráðgjafi og sérlegur áhugamaður um mannlegt eðli. Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu höfundar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×