Skoðun

Veröld sem (vonandi) verður

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Hver hefði trúað fyrir nokkrum árum að stærstu efnisveitur heimsins myndu ekki búa til neitt efni sjálfar? Eða að eitt stærsta gistifyrirtæki í heimi ætti ekki eitt einasta herbergi og eitt stærsta leigubílafyrirtæki heims myndi ekki eiga einn einasta leigubíl? Og hver hefði trúað því að sumir stærstu fjárfestingarsjóðir heimsins ættu ekki krónu sjálfir?

En þetta á allt við í tilviki Facebook, Snapchat, Instagram, YouTube, Airbnb, Uber og Kickstarter. Þessi dæmi sýna vel hversu hratt hlutirnir geta breyst og hvað framtíðin er óútreiknanleg. Þessu til viðbótar. Hver hefði trúað fyrir nokkrum misserum að Trump yrði forseti Bandaríkjanna og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands?

Það er virkilega auðvelt að fara aftur á bak í stað þess að fara áfram veginn. Holl lesning þessa dagana er bók Stefan Zweig, Veröld sem var. Sérstaklega á tímum Trumps, Borisar og Pútíns ásamt þeim Bolsonaro í Brasilíu, Erdogan í Tyrklandi, Orban í Ungverjalandi, Conte og Salvini á Ítalíu og Duterte á Filippseyjum.

Á þessum tímum þarf Ísland að standa vörð um umburðarlyndi og frjálslyndi. Hvort tveggja er frelsi til athafna en einnig frelsi frá fátækt og fáfræði. Ef Íslendingar eru þekktir úti í hinum stóra heimi þá er það fyrir einstaka náttúrufegurð og menningarafrek. Menningarafrekin voru fyrst á sviði bókmennta, fyrir um þúsund árum, en núna eru þau helst á sviði tónlistar og sjónvarpsefnis (reyndar þarf hið opinbera að styrkja menninguna mun betur, til dæmis með margföldun sjónvarpssjóðs og tónlistarsjóðs).

En fyrir utan öfluga menningu getur Ísland líka orðið boðberi frjálslyndis og umburðarlyndis úti í heimi. Hins vegar geta slík gildi brostið og æ fleiri ríkisstjórnir eru farnar að ala á ótta, þjóðrembu og þrengja að réttindum fólks. Það er nefnilega hægt að fara í hina áttina, í átt til nýsköpunar, fjölmenningar og umburðarlyndis sem eru lykilorð í veröld sem verður, vonandi. Það er sú framtíð sem við eigum að skapa.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×