Skoðun

Saman til sjálfbærni

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
Vart líður sá dagur að við fáum ekki nýjar fréttir af þeim miklu umhverfisbreytingum sem eiga sér stað á norðurslóðum vegna hlýnandi loftslags. Ljóst er að þær munu hafa víðtæk áhrif á samfélög á svæðinu og á möguleika þeirra til að vaxa og dafna. Samstarf ríkja á norðurslóðum beinir sjónum að mikilvægi þess að auka þekkingu á umhverfi og samfélögum svæðisins til þess að að auðvelda okkur að bregðast við þessum yfirstandandi og yfirvofandi breytingum.

Sjálfbærni er rauður þráður í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Við leggjum ríka áherslu á samspil samfélags, efnahags og umhverfis. Þekkingaruppbygging síðustu ára í þágu sjálfbærra samfélaga á harðbýlum svæðum varpar ljósi á mikilvægi samvinnu milli stjórnvalda, vísindasamfélags og fyrirtækja.

Við Íslendingar þekkjum kostina sem felast í slíku samstarfi. Mörg smærri samfélög byggja afkomu sína á uppbyggingu þekkingarfyrirtækja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og hafa þannig skapað sinn framtíðargrundvöll. Í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu nýtum við reynslu íslenskra fyrirtækja á þessum sviðum og höfum komið af stað samstarfsverkefnum aðildarríkja, viðskiptalífs og vísindasamfélags. Ný verkefni ráðsins á sviði bláa lífhagkerfisins og endurnýjanlegrar orku eru til dæmis undir forystu Íslands.

Betri aðgangur að auðlindum norðurslóða og aukið ríkjasamstarf leiðir til nýrra viðskiptatækifæra á svæðinu. Sterkir innviðir, ekki síst á sviði samgangna, hafa líka lykilþýðingu en öflugt samband opinberra aðila og einkageirans er forsenda uppbyggingar þeirra. Þess vegna leggur Ísland í formennskutíð sinni áherslu á aukið samstarf ríkja og einkafyrirtækja á norðurslóðum.

Til marks um þetta er fyrsti fundur Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða sem hefst í Reykjavík í dag. Þar koma saman fulltrúar aðildarríkjanna átta, frumbyggjasamtaka og fyrirtækja sem starfa á svæðinu. Markmiðið er skýrt: Að vinna sameiginlega að sjálfbærri efnahagsþróun á norðurslóðum, íbúum svæðisins til hagsbóta. Þannig stöndum við sterkari til að tryggja framtíð þessa mikilvæga heimshluta.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×