Skoðun

Full­veldi og mann­réttindi

Reimar Pétursson skrifar
Fullveldi herlausrar smáþjóðar er ekki sjálfgefið, ekki síst þegar stórþjóðir beita aflsmunum sínum. Þetta reyndu Íslendingar í hernáminu. Þá ríktu hér bresk herlög ofar hinum íslensku og brýnustu stjórnarskrárvarin lýð- og mannréttindi, eins og réttur manna til að kjósa til þings á fjögurra ára fresti, urðu að víkja. Tómt mál var að tala um fullveldi Íslands á þeim ófriðartímum.

Lýðræði og virðing fyrir mannréttindum

Reynslan sýnir að lýðræðisþjóðir sem bera virðingu fyrir mannréttindum eru ólíklegri en aðrar til að fara fram með ófriði. Gerð mannréttindasáttmála Evrópu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar var ætlað að stuðla að lýðræði og mannréttindum og þar með stuðla að friði. Í gerð sáttmálans fólst viðleitni til að vernda fullveldi smærri þjóða álfunnar gegn yfirgangi hinna stóru.

Í þessu skyni skilgreinir sáttmálinn þau réttindi sem eru talin nauðsynleg heilbrigðu stjórnarfari og kemur á fót sérstökum dómstóli, Mannréttindadómstól Evrópu, til að fjalla um kvartanir einstaklinga um að á þeim hafi verið brotið. Í upphafi var starfsemi dómstólsins veikburða en með árunum hefur hann áunnið sér traust og honum hefur vaxið ásmegin. Hann hefur þurft að kljást við margvísleg vandamál og starfið verður aldrei hafið yfir gagnrýni, enda er skilgreining mannréttinda í síbreytilegum heimi ávallt vandasöm. En þótt sú skilgreining sé vandasöm er ljóst að lokaorðið um hana verður að hvíla á einum stað svo fullt gagn sé að.



Munur á gagnrýni og niðurrifi

En það er munur á gagnrýni á úrlausnir dómstólsins annars vegar og beinum árásum á trúverðugleika dómstólsins í heild sinni hins vegar. Nú er þekkt að í fáeinum ríkjum sem eiga aðild að dómstólnum hafa brotist til valda menn sem vilja lítt una því að hendur þeirra séu bundnar af mannréttindum. Þeim líkar ekki að dómstóllinn takmarki völd þeirra til að ganga fram af hörku gagnvart þeim forsmáðu einstaklingum sem eru skotmarkið í hvert og eitt skipti. Til að þessir valdhafar geti farið sínu fram virðist þeim fátt heilagt þegar kemur að því að grafa undan trausti til dómstólsins.



Umræðu snúið á hvolf

Nú er orðræða um óheft völd til að beita takmarkalausu geðþóttavaldi ekki líkleg til vinsælda. Að minnsta kosti mætti ætla að fáir kjósendur myndu greiða atkvæði með stjórnmálaaf li sem myndi í kosningabaráttu mæla opinskátt með slíku. Þeir stjórnmálamenn sem eru frekir til valdsins virðast þó í ljósi þessa vanda hafa fundið leið til að snúa umræðunni á hvolf og þar með sér í hag. Í stað þess að viðurkenna, eins og rétt er, að dómstóllinn sé að vernda rétt einstaklinga, er sagt að dómstóllinn sé að skerða fullveldi ríkisins.

Fátt er fjær sanni. Mannréttindasáttmálinn byggir á þeim algildu sannindum, sem allar þjóðir Evrópu viðurkenna með aðild að sáttmálanum, að fullveldi geti aldrei náð til þess að brjóta mannréttindi á borgurunum. Þá er tilvist lýðræðis og mannréttinda í ríkjum Evrópu ein mikilvægasta trygging friðar og þar með okkar fullveldis. Störf dómstólsins eru þannig beinlínis liður í því að ýta undir fullveldi okkar ríkis til allra góðra athafna, en ekki öfugt.



Dapurleg þróun

Af þessum sökum er dapurlegt að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hér á landi um mannréttindi og fullveldi upp á síðkastið. Síst var við því að búast að heyra fjölmarga úr stétt íslenskra valdhafa kveinka sér undan því að þurfa að virða mannréttindi eins og þau eru skilgreind af Mannréttindadómstólunum og gerast talsmenn öfugsnúinna fullveldishugmynda; einmitt þeirra hugmynda sem eru mest ógn við frið og þar með fullveldi landsins. Nær væri að þeir sem vilja auka fullveldi Íslands krefðust skilyrðislausrar virðingar fyrir mannréttindum.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×