Skoðun

Fjármálalæsi Lóu

Eyþór Arnalds skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borgarstjórn hrósar sér og meirihlutanum fyrir ábyrga fjármálastjórn. Ég hef ítrekað bent á þá staðreynd að skuldasöfnun borgarinnar sé upp á meira en milljarð á mánuði. Reyndar jukust skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar um heila 24 milljarða frá síðustu áramótum. Þetta getur seint talist ábyrgt. Rekstrarkostnaður vex um 16% á 2 árum. Þetta kallar oddviti Viðreisnar aðhald í rekstri.

64 milljarða skuldahækkun

Loks tekur steininn úr þegar Þórdís Lóa sakar okkur um „loftútreikninga“ þegar við bendum einfaldlega á þá staðreynd að nú er gert ráð fyrir í nýsamþykktri fjárhagsáætlun að skuldir verði heilum 64 milljörðum hærri en lá fyrir í fjárhagsáætlun fyrir kosningarnar í fyrra. Það er því rétt að fara yfir útreikningana. Þeir ættu að vera auðveldir hverjum þeim sem setið hefur í 4. bekk grunnskóla.

Samkvæmt þeirri fjárhagsáætlun sem kynnt var fyrir kosningar áttu skuldir samstæðu borgarinnar að vera 304 milljarðar árið 2022. Í sambærilegri fimm ára áætlun sem samþykkt var í borgarstjórn á fimmtudaginn er skuldatalan komin upp í 368 milljarða (bls 97). Þórdísi Lóu til útskýringar eru 368-304=64. Með öðrum orðum; skuldir verða 64 milljörðum hærri í lok kjörtímabilsins en kynnt var fyrir kosningar. Ekki ætla ég Þórdísi Lóu að það sé viljandi farið með rangt mál, en fjármálalæsi hennar er áhyggjuefni.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×