Árið 2020 er senn á enda. Því verður seint lýst sem venjulegu ári enda hefur samkomubann verið í gildi meirihlutann af árinu og daglegt líf allt öðruvísi en fyrir kórónuveirufaraldurinn. Það birti þó aðeins til í sumar en það var skammgóður vermir og má líkja veirunni við óboðinn gest sem neitar að fara. Eftir sex vikna lokun komust landsmenn loks í klippingu þann 4. maí. Ekki seinna vænna að létta á lubbanum fyrir sumarið. Þá var líka opnað fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum og íþróttastarf barna og unglinga var leyft utandyra. Þvílík hamingja, ekki aðeins hjá börnunum heldur líka fyrir foreldrana sem síðustu vikur höfðu þurft að sinna vinnunni heima, jafnvel kennslu og svo að finna upp á einhverju að gera í heimsfaraldri þar sem nánast allt var lokað. Tveimur vikum seinna voru sundlaugar opnaðar á ný, þjóðinni til það mikillar gleði að boðið var upp á miðnæturopnun í sundlaugum, meðal annars í Reykjavík og á Selfossi, og komust færri að en vildu vegna fjöldatakmarkana. Viku síðar opnuðu líkamsræktarstöðvar á ný, samkomubannið fór úr fimmtíu í 200 manns og viti menn, djammið opnaði líka en það mátti bara vera opið til 23. Þá var einnig farið af neyðarstigi almannavarna vegna veirunnar og yfir á hættustig. Afar fáir höfðu greinst með veiruna undanfarnar vikur. Daglegt líf var ekki komið í þær eðlilegu skorður sem við þekktum fyrir 28. febrúar þegar fyrsta kórónuveirusmitið greindist á Íslandi en þetta var allavega eitthvað. Erfitt var að komast til útlanda vegna ferðatakmarkana og því lagðist landinn í ferðalög innanlands sem stjórnvöld hvöttu sérstaklega til með svokallaðri ferðagjöf. Án þess að Vísir hafi gert á því vísindalega könnun þá heyrir það örugglega til undantekninga að hafa ekki lagt land undir fót í sumar. Ferðagleðin endurspeglaðist á samfélagsmiðlum sem voru undirlagðir af myndum frá Stuðlagili, Fimmvörðuhálsi og Húsavík svo nokkrir af vinsælli áfangastöðum sumarsins séu nefndir. 80 prósent samdráttur í komum erlendra ferðamanna Á móti kom gríðarlegur samdráttur í komum erlendra ferðamanna vegna faraldursins. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fækkaði erlendum ferðamönnum yfir sumartímann um 80 prósent á milli ára með tilheyrandi erfiðleikum fyrir fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki um allt land og sögulega miklu atvinnuleysi. Einhverjir ferðamenn komu þó til landsins í sumar eftir að boðið var upp á skimun fyrir veirunni á landamærum í stað tveggja vikna sóttkvíar frá 15. júní. Á tímabili voru meira að segja ferðamenn frá tilteknum löndum undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví en eftir að bakslag kom í faraldurinn var tvöföld sýnataka tekin upp á landamærunum þann 19. ágúst. Eru þær reglur enn í gildi. Í umfjölluninni sem hér fer á eftir er stiklað á stóru í því sem á kalla annan kafla Covid-19-sögu Íslands. Er vert að taka fram að líkt og í fyrsta kafla sögunnar hefur svo margt gerst að umfjöllunin er ekki tæmandi. Þúsund manna fjöldatakmörkun í kortunum Þegar best lét í sumar máttu allt að 500 manns koma saman. Þá var skilgreiningu tveggja metra reglunnar breytt þannig að hún var í raun ekki lengur skylda heldur var horft til þess að vernda þá sem væru viðkvæmir og skapa þeim sem kusu aðstæður til að viðhalda tveggja metra reglu. Knattspyrnuunnendur gátu mætt á völlinn og það mátti halda tónleika og leiksýningar, þótt það hafi kannski ekki verið mikið um það. Útlitið var gott um miðjan júlí, svo gott að engin virk innanlandssmit voru í samfélaginu frá 17.-22. júlí. Þann 17. júlí lagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, til í minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að fjöldatakmörkun færi úr 500 manns í þúsund. Þá lagði hann einnig til að opnunartími skemmti- og vínveitingastaða yrði lengdur til klukkan 24. Áttu þessar breytingar að taka gildi þann 4. ágúst. Konur á gangi með grímur við Sæbraut í sumar. Þá var ekki grímuskylda en það styttist í að hún yrði tekin upp þar sem ekki var hægt að tryggja fjarlægðarmörk.Vísir/Vilhelm „Græna veiran“ komst á kortið En babb kom í bátinn. Tíu dögum eftir að fyrrnefnt minnisblað var sent barst ráðherra annað minnisblað frá Þórólfi. Þar lagði hann til að breytingum á samkomubanni og opnunartíma skemmti- og vínveitingastaða yrði frestað til 18. ágúst. Vísaði Þórólfur til þess að undanfarna daga hefðu „innflutt smit“ greinst í vaxandi mæli og að dreifing hefði orðið innanlands. Enginn hefði hins vegar veikst alvarlega og enginn lagst inn á sjúkrahús. Samkvæmt tölfræðiupplýsingum á covid.is greindust tíu með virk smit á landamærunum frá 18.-30. júlí. Þar af var einn sem greindist með virkt smit í seinni skimun. Frá 2. júlí hafði enginn greinst með veiruna innanlands en vikuna 23.-30. júlí greindust alls 38 innanlandssmit, eða á bilinu tveir til tíu á dag. Þar á meðal var sérstakt afbrigði veirunnar sem greindist fyrst í Kópavogi þann 25. júlí og var kallað „græna veiran“ þar sem afbrigðið fékk grænan lit hjá rakningarteymi almannavarna. Græna veiran átti eftir að valda nokkrum usla en féll þó í skuggann með haustinu af „bláu veirunni“. Það hefur ekki mátt spila knattspyrnu lungann úr árinu og á endanum fór það svo að Íslandsmótið í knattspyrnu var blásið af.Vísir/Vilhelm Engin knattspyrna með tveggja metra reglu Þann 29. júlí barst heilbrigðisráðherra minnisblað frá sóttvarnalækni þar sem lagðar voru til harðari sóttvarnaaðgerðir. Hópsýking hafði komið upp á Akranesi vegna „grænu veirunnar“ og verslunarmannahelgin var handan við hornið. Höfðu almannavarnir og sóttvarnayfirvöld áhyggjur af því að faraldurinn færi úr böndunum með tilheyrandi ferðalögum milli landshluta og hópamyndunum. Við það myndi skapast hætta á að smit dreifðist frekar í samfélaginu. 31. júlí, á föstudeginum um verslunarmannahelgi, tóku því hertar samkomutakmarkanir gildi. Tveggja metra reglan var aftur tekin upp, aðeins máttu hundrað manns koma saman í stað 500 og grímuskyldu var komið á þar sem ekki var hægt að tryggja tvo metra á milli fólks. Á frídegi verslunarmanna, þann 3. ágúst, var farið að tala um að önnur bylgja faraldursins væri hafin hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum er miðað við að hún hafi byrjað um miðjan júlí. Breytingar á samkomutakmörkunum höfðu til dæmis áhrif á Íslandsmótið í knattspyrnu þar sem ekki er hægt að leika fótbolta með tveggja metra reglu í gildi. Knattspyrnusamband Íslands sótti um undanþágu til heilbrigðisráðuneytisins til að geta haldið Íslandsmótinu áfram en beiðninni var hafnað. Íslandsmótinu var því frestað til og með 13. ágúst þegar von var á nýjum reglum. Þá höfðu breytingarnar einnig áhrif á ferðaplön margra um verslunarmannahelgina. Þannig þurfti að vísa mörgum frá tjaldsvæðinu á Akureyri vegna mannmergðar og takmarkana. Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæða Skátanna á Akureyri, gagnrýndi yfirvöld fyrir stuttan fyrirvara um hertar aðgerðir. Það var síðan auðvitað engin þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Einhverjir létu þó veiruna ekki stoppa sig í að skjótast yfir með Herjólfi en í vikunni eftir verslunarmannahelgina kom svo upp hópsýking hjá fólki sem verið hafði í Eyjum. Sóttvarnalæknir sagði þetta sýna hættuna af hópamyndun. Frá ríkisráðsfundi á Bessastöðum fyrr í haust. Í sumar þurftu allir ráðherrarnir nema þau Ásmundur Einar Daðason og Svandís Svavarsdóttir að fara í skimun og viðhafa smitgát eftir að hópsýking kom upp á Hótel Rangá.Vísir/Vilhelm Ríkisstjórnin í skimun eftir smit á Hótel Rangá Þann 14. ágúst voru svo gerðar breytingar á samkomutakmörkunum. Þær fólu það í sér að leyfilegt varð að hafa eins metra reglu á milli einstaklinga í framhalds- og háskólum án þess að bera grímu og þá voru snertingar milli íþróttafólks heimilar í æfingum og keppnum. Þetta þýddi að Íslandsmótið í fótbolta gat til að mynda hafist á ný. Þennan dag voru 90 manns með virk innanlandssmit. Þann 19. ágúst voru síðan gerðar breytingar á reglum á landamærunum sem enn eru í gildi og verða að óbreyttu í gildi fram í febrúar. Allir farþegar sem koma til Íslands skulu velja á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með fimm daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og vera í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Áður en þessar reglur tóku gildi hafði Íslendingum og öðrum sem búsettir eru hér á landi verið gert að fara í tvöfalda skimun, sem og þeim sem komu frá áhættusvæðum. Daginn eftir, þann 20. ágúst, var síðan greint frá því að smit hafði komið upp hjá starfsmanni Hótels Rangár. Hótelinu var í kjölfarið lokað en ríkisstjórnin hafði borðað hádegismat þar tveimur dögum áður en starfsmaðurinn greindist. Hann hafði þó ekki sinnt ráðherrunum. 21. ágúst var ákveðið að ríkisstjórnin færi í skimun vegna smitsins og viðhefði smitgát þar til niðurstöður lægju fyrir. Enginn ráðherranna reyndist smitaður en hins vegar varð ljóst eftir því sem dagarnir liðu að upp var komin hópsýking í tengslum við Hótel Rangá. Myndin er tekin í miðbæ Reykjavíkur í ágúst síðastliðnum þegar sólin skein og það máttu mun fleiri koma saman en tíu manns líkt og nú er.Vísir/Vilhelm Umdeildur vinkonuhittingur ráðherra Helgina áður en ríkisstjórnin fór til funda á Suðurlandi og snæddi hádegisverð á Hótel Rangá og daginn eftir að tilkynnt var um hertar aðgerðir á landamærunum fór Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í vinkonuhitting. Myndir birtust af hittingnum á samfélagsmiðlum þar sem þær sátu þétt saman og var mikið rætt um hann og ritað enda töldu einhverjir ráðherrann og vinkonur hennar hafa brotið reglur um fjarlægðarmörk. Í samtali við Vísi sagði Þórdís hópinn hafa verið mjög meðvitaðan um sóttvarnareglur og einstaklingsbundnar smitvarnir. Í yfirlýsingu vegna málsins sagði Þórdís síðan að það hefði verið einfaldara að hitta vinkonurnar ekki. Skjáskot af myndunum fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk gagnrýndi skort á tveggja metra fjarlægðarmörkum. Þórólfur sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi að hann teldi Þórdísi og vinkonuhópinn ekki hafa brotið reglur. Vísaði hann í að auglýsing yfirvalda um sóttvarnareglur segðu ekki til um að tveir einstaklingar sem ekki deildu sama heimili þyrftu að viðhalda tveggja metra fjarlægð heldur þyrftu rekstraraðilar að tryggja að fólk gæti fengið sína tvo metra. „Hún var taktlaus og mistök, svona eftir á að hyggja. Myndmálið var þannig og tímasetningin rétt eftir að tilkynnt var um afdrifaríkar ákvarðanir um komur til landsins,“ sagði Þórdís Kolbrún síðan í samtali við Morgunblaðið í byrjun október um myndirnar sem birtust úr hittingnum. Þurfti að fresta skólasetningu vegna grænu veirunnar Veiruafbrigðið sem greindist á Hótel Rangá reyndist vera það sama og hafði greinst í hópsýkingunni á Akranesi, græna veiran. Hafði hópsýkingin sem kom upp á hótelinu meðal annars áhrif á starfsemi Hins hússins og Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla. Starfsmaður Hins hússins greindist með veiruna svo loka þurfti húsinu og helmingur starfsmanna fór í sóttkví. Þá reyndist sameiginlegur starfsmaður Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla smitaður af veirunni. Þurfti að fresta skólasetningu skólanna þar sem allir starfsmenn voru sendir í sóttkví vegna smitsins. Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnalæknis sagði í viðtali við fréttastofu 25. ágúst að 24 einstaklingar hefðu greinst smitaðir í tengslum við Hótel Rangá. Þá hefði græna veiran skotið upp kollinum um allt land frá 25. júlí. „Hópur sem meðal annars tengist hóteli, hann telur núna um það bil 24, en þetta er hópur sem hefur margar staðsetningar. Það er í rauninni engin ein staðsetning,“ sagði Jóhann Björn. Alls greindust 63 einstaklingar með Covid-19 í tengslum við hópsýkinguna á Hótel Rangá. Græna veiran hefur ekki greinst hér á landi síðan 6. október en raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur greinst í 231 smiti. Verulegar tilslakanir á samkomutakmörkunum Þann 28. ágúst var farið í tilslakanir á samkomutakmörkunum. Tveggja metra reglunni var meðal annars breytt; nú var kveðið á um að tryggja bæri tveggja metra reglu á milli einstaklinga sem ekki væru í nánum tengslum. Þá voru íþróttir almennt leyfðar og snertingar heimilar á æfingum í sviðslistum og tónlist á sama hátt og í íþróttum. Þennan dag voru 75 manns með virk innanlandssmit og áttu reglurnar að gilda til 10. september. Smituðum fór hins vegar fækkandi og þann 7. september tóku því enn frekari tilslakanir gildi. 54 voru með virk innanlandssmit. Það mátti fara í ræktina í sumar og í haustbyrjun.Vísir/Vilhelm Segja má að þennan mánudag hafi verið slakað verulega á samkomutakmörkunum. Hámarksfjöldi þeirra sem máttu koma saman fór úr 100 manns í 200 manns, eins metra reglan gilti nú fyrir alla og hámarksfjöldi á sund- og baðstöðum og líkamsræktarstöðvum fór úr helmingi af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi upp í 75%. Íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi gat jafnframt farið fram þrátt fyrir eins metra reglu, það er snertingar voru leyfðar. Um áhorfendur fór eftir almennum reglum um einn metra og 200 manns í rými. Grímuskylda var í þeim aðstæðum þar sem ekki var hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Þórólfur sóttvarnalæknir var bjartsýnn á upplýsingafundi og sagði að yfirvöld væru að ná tökum á annarri bylgju faraldursins. Tekist hefði að sveigja kúrvuna niður og því mætti þakka aðgerðum sem gripið hefði verið til bæði innanlands og á landamærum. Ungstirni enska landsliðsins brutu sóttkví En þessar tilslakanir á samkomutakmörkunum voru ekki stærsta fréttin mánudaginn 7. september heldur sóttkvíarbrot ensku landsliðsmannanna í fótbolta Mason Greenwood og Phil Foden. Greenwood og Foden höfðu verið í landsliðshópi Englendinga sem mætti Íslendingum í Þjóðardeildinni laugardaginn 5. september. Af sóttvarnaástæðum giltu afar strangar reglur um veru enska landsliðsins hér á landi í tengslum við leikinn. Þannig áttu leikmenn og starfsmenn liðsins að virða sóttkví í hvívetna; ekki fara til dæmis út af hótelinu nema á æfingar og í sjálfan leikinn og ekki fá heimsóknir á hótelið. Þessar reglur brutu þeir Greenwood og Foden á sunnudagskvöldið þegar þeir buðu íslensku stelpunum Láru Clausen og Nadíu Sif til sín á Hótel Sögu. Lára og Nadía Sif þáðu boðið og sendu vinum sínum myndir og myndbönd frá heimsókninni á samfélagsmiðlum. Þaðan fór efnið í dreifingu og strax daginn eftir var málið komið í hámæli, ekki bara í íslenskum fjölmiðlum heldur einnig í pressunni úti. Sóttvarnalæknir sagði að landsliðsmennirnir hefðu klárlega brotið sóttkví með því að fá stelpurnar í heimsókn. Þær Lára og Nadía Sif sögðust ekki hafa áttað sig á því að Foden og Greenwood hefðu verið í sóttkví og heimsóknin því brot á reglum. Leikmennirnir voru reknir úr landsliðshópnum og sendir heim og íslenska lögreglan tók málið til rannsóknar. Málalyktir urðu þær að Greenwood og Foden voru sektaðir og greiddu 250 þúsund krónur hvor fyrir brot sín. Þess má svo geta að tveimur mánuðum síðar, eða um miðjan nóvember, sneri Foden aftur í enska landsliðið, gegn Íslandi á Wembley, og sagðist Lára í samtali við Vísi samgleðjast honum. Um miðjan september kom upp hópsýking sem tengdist skemmtistöðunum Brewdog og Irishman Pub.Vísir/Birgir Skellt í lás á djamminu Næstu vikuna greindust ekki margir með kórónuveiruna, eða á bilinu núll til sex dag hvern. Um miðjan september féllst heilbrigðisráðherra síðan á tillögu sóttvarnalæknis þess efnis að fólk gæti lokið sóttkví á sjö dögum ef sannað væri með sýnatöku í lok tímabilsins að engin merki væru um sýkingu af völdum Covid-19. Sú regla er enn við lýði. Það er oft sagt að vika sé langur tími í pólitík og þegar rýnt er í sögu Covid-19 má segja það sama um faraldurinn. Rúmri viku eftir að slakað var töluvert á samkomutakmörkunum kom nefnilega í ljós að stór hópsýking var komin upp á höfuðborgarsvæðinu. Smituðum fór hratt fjölgandi; þann 17. september greindust 21 með veiruna innanlands og daginn eftir greindust 75. Þriðjung þeirra smita mátti rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu. Hópsýking kom upp sem tengdist skemmtistöðunum Irishman Pub og Brewdog í miðbæ Reykjavíkur. Biðlaði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, til þeirra sem höfðu verið á Irishman Pub föstudagskvöldið 11. september að fara í sýnatöku ef þeir höfðu þá ekki þegar gert það eða voru komnir í sóttkví. Þá voru viðskiptavinir Brewdog dagana 11. og 12. september einnig hvattir til að fara í skimun eftir að í ljós kom að starfsmaður þar greindist með veiruna. Var talið að hann hefði smitast af viðskiptavini. Vegna þess hve mikinn fjölda nýgreindra smita mátti rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu var brugðið á það ráð að loka krám og skemmtistöðum tímabundið frá 18. september til 21. september. Sú lokun var síðan framlengd og fengu staðirnir ekki að opna aftur fyrr en þann 28. september. Þá voru meira en 500 manns með virk innanlandssmit. Ekki sanngjarnt að kenna frönsku ferðamönnunum um Þriðja bylgja faraldursins var hafin. Miðað er við að hún hafi byrjað 15. september. Raðgreining veirunnar á þeim sem smituðust þarna í seinni hluta september leiddi í ljós að langflestir voru með veiruafbrigði sem fyrst greindist í tveimur frönsku ferðamönnum sem komu til landsins um miðjan ágúst. Afbrigðið fékk bláan lit hjá rakningarteyminu og hefur því gengið undir nafninu „bláa veiran“ en einnig verið kallað „franska veiran.“ Í ljós kom að frönsku ferðamennirnir höfðu ekki gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana á meðan þeir dvöldu hér á landi. Þeir rufu hins vegar ekki einangrun og voru brot þeirra ekki talin það alvarleg að þá þyrfti að sekta, líkt og heimilt er ef sóttvarnalög eru brotin. Fjallað var um frönsku ferðamennina tvo í erlendum fjölmiðlum og þá gjarnan með vísun í viðtal á Vísi við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, frá 21. september. Þar kom fram að ferðamennirnir hefðu brotið sóttvarnareglur og nú hefðu yfir 100 smitast af veirunni. Franska fréttastofan AFP ræddi við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um málið. Hann sagði ósanngjarnt að skella skuldinni á ferðamennina tvo. Þeir hefðu ekki rofið einangrun og það væri hugsanlegt, og jafnvel líklegra, að aðrir sem voru um borð í sömu flugvél hafi verið sýktir en veiran ekki greinst hjá þeim við landamæraskimun. Þá sagði í svari almannavarna við fyrirspurn fréttastofu nú í nóvember að ekki væri hægt að fullyrða að þessi veirustofn hefði komið með þessum tilteknu ferðamönnum. Þá væri ekki hægt að útiloka að stofninn hafi borist hingað til lands með öðrum. „Eins og greint hefur verið frá áður höfðu ferðamennirnir verið á ferðinni og ekki farið eftir sóttvarnarleiðbeiningum til fulls. Málið var unnið í samvinnu við ferðamennina með leiðbeiningum sem þau skildu ekki,“ sagði í svari almannavarna. Fjölmargir landsmenn ættu að kannast við þá tilfinningu að fá sýnatökupinna upp í nefið. Ekki beint það þægilegasta.Vísir/Vilhelm Samkomutakmarkanir hertar til muna Daginn sem skemmtistaðir og barir fengu að opna aftur greindust 32 kórónuveirusmit innanlands. Fimm lágu á Landspítalanum vegna Covid-19, þar af einn á gjörgæslu. Næstu daga fór smitum fjölgandi jafnt og þétt auk innlagna á spítalann. Þannig greindi Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, frá því 1. október að þessa dagana legðist að meðaltali inn sjúklingur með Covid-19 á tólf tíma fresti. Sagði forstjórinn um ákveðna holskeflu að ræða. Yfirvöld lýstu því yfir að komandi helgi réði úrslitum varðandi það hvort grípa þyrfti til hertra sóttvarnaaðgerða. Það dró svo til tíðinda strax á laugardeginum. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum að setja á tuttugu manna samkomubann um land allt og loka börum, skemmtistöðum og líkamsræktarstöðvum. Eins metra reglan hélst óbreytt. Breytingarnar skyldu taka gildi mánudaginn 5. október. Sama dag var neyðarstigi almannavarna aftur lýst yfir. Þá voru 728 manns virkt innanlandssmit en 99 manns greindust þennan dag með veiruna. Ekki höfðu greinst fleiri innanlandssmit síðan 1. apríl þegar fyrsta bylgja faraldursins var í hámarki. Að auki var komin upp hópsýking sem tengdist Hnefaleikafélagi Kópavogs; á fjórða tug nýgreindra smita mátti rekja til æfinga hjá félaginu. Höfuðborgarsvæðið í sóttkví Vegna þessarar miklu fjölgunar smita ákváðu yfirvöld að grípa til enn harðari aðgerða. Þær einskorðuðust þó við höfuðborgarsvæðið þar sem mikill meirihluta smitaðra var þar. Aðgerðirnar voru kynntar 6. október og tóku gildi strax daginn eftir. Segja má að höfuðborgarsvæðið hafi verið sett í sóttkví. Tveggja metra reglan var tekin upp, sundlaugum lokað og hert á grímuskyldu. Starfsemi sem krefst snertingar eða nálægðar var gerð óheimil. Þannig var til dæmis hárgreiðslu- og snyrtistofum gert að loka sem og nuddurum. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru hvattir til að halda sig heima eins mikið og mögulegt var og til dæmis vinna heima ef slíkt var í boði. Þá var þeim ráðlagt að fara ekki út á land að óþörfu og fólki á landsbyggðinni ráðið frá óþarfa ferðum til borgarinnar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði verulegt áhyggjuefni hvað kórónuveiran hefði náð að dreifa sér í samfélaginu. Full ástæða væri til að óttast veldisvöxt faraldursins. „Smitin eru að tengjast fjölskyldum, þau eru að tengjast vinnustöðum, gönguhópum, hlaupahópum, það er eitt og eitt að koma upp tengt líkamsræktarstöðvum og ýmis konar afþreyingarstarfsemi sem er í gangi,“ sagði Víðir Reynisson á aukaupplýsingafundi þriðjudaginn 6. október. Nokkurs ruglings gætti í byrjun október varðandi það hvort íþróttastarf barna væri leyft eða ekki.Vísir/Hanna Ruglingur og kergja innan íþróttahreyfingarinnar Helsta óvissan varðandi hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sneri að íþróttastarfi. Sóttvarnalæknir hafði lagt til við ráðherra að allt íþróttastarf yrði óheimilt en ráðherra heimilaði íþróttastarf utandyra. Bannað var hins vegar að stunda og æfa íþróttir innandyra. Þetta misræmi olli þó nokkrum ruglingi og kergju innan íþróttahreyfingar og óvissu með íþróttastarf barna. Var það til dæmis gagnrýnt að leyfa ætti knattspyrnu en banna aðrar boltaíþróttir. Á endanum frestuðu KKÍ og HSÍ öllu mótahaldi í tæpar tvær vikur og KSÍ frestaði sínum mótum í viku. 8. október beindu almannavarnir og sóttvarnalæknir svo þeim tilmælum til íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu að gera hlé á æfingum og keppnum í öllum íþróttum. Með því lagðist íþróttastarf barna á höfuðborgarsvæðinu af. Það fór svo að Íslandsmótið í knattspyrnu karla og kvenna hófst ekki að nýju heldur var blásið af þegar enn harðari aðgerðir voru boðaðar í lok október. Valur varð Íslandsmeistari í Pepsi Max-deild karla og Breiðablik í Pepsi Max-deild kvenna. Þá hafa Íslandsmótin í handbolta og körfubolta ekki rúllað aftur af stað þegar þetta er skrifað en íþróttastarf barna var heimilað á ný þann 18. nóvember. Landsliðsþjálfararnir Erik Hamrén og Freyr Alexandersson sjást hér fylgjast með leik Íslands og Belgíu á Laugardalsvelli í október. Þeir voru í sóttkví og hefðu með rétt ekki átt að vera á vellinum.Vísir/Vilhelm Víðir fór út fyrir valdsvið sitt Næstu daga fór smituðum áfram fjölgandi. Þann 16. október náði faraldurinn hámarki sínu þegar 1186 voru í einangrun með virkt kórónuveirusmit innanlands. Höfðu þeir aldrei verið fleiri síðan veiran greindist fyrst hér á landi í byrjun febrúar. Rúmri viku áður, 8. október, hafði íslenska landsliðið í knattspyrnu karla mætt því rúmenska á Laugardalsvelli í undanúrslitum í umspili um sæti á EM á næsta ári. Strákarnir okkar höfðu betur og tryggðu sér þar með sæti í úrslitum umspilsins gegn Ungverjum. Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum og starfsmönnum liðsins að loknum Rúmeníuleiknum en fimm dögum síðar var allt starfsliðið komið í sóttkví. Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður landsliðsins, hafði greinst með kórónuveiruna. Leikmenn liðsins þurftu ekki að fara í sóttkví og fór því leikur gegn Belgíu í Þjóðadeildinni fram á Laugardalsvelli 14. október eins og fyrirhugað var. Þeir Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu liðinu í leiknum en Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, fylgdust með leiknum þar sem þeir sátu í glerbúri á Laugardalsvelli. Þeir voru enn í sóttkví. Í ljós kom að þeir höfðu fengið að mæta á völlinn með leyfi Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns, sem áður hafði starfað sem öryggisstjóri KSÍ. Á upplýsingafundi daginn eftir leikinn kvaðst Víðir hafa gert mistök með því að veita þjálfurunum þessa heimild. Hann hefði farið út fyrir valdsvið sitt og sagðist ekki myndu koma að fleiri ákvörðunum í faraldrinum sem vörðuðu íþróttamál. Sóttvarnalæknir kvaðst hins vegar ætla að óska eftir því að Víðir héldi áfram að þeim málum þar sem hann væri ómetanlegur í þeirri vinnu. Þríeykið Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller kemur hér til blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar fyrr í vetur. Með þeim á myndinni er Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna.Vísir/Vilhelm 22 af 25 skipverjum smitaðir af veirunni Þann 20. október tóku gildi breytingar á samkomutakmörkunum. Helstu breytingarnar voru þær að tveggja metra reglan var tekin upp um allt land, líkamsræktarstöðvum var leyft að bjóða upp á hóptíma að uppfylltum öllum skilyrðum um takmarkanir og þá varð íþrótta- og æskulýðsstarf barna, sem krafðist snertingar, formlega óheimilt með reglugerð. Og þó að breytingar á takmörkunum veki alltaf athygli þjóðarinnar á þessum skrýtnu tímum sem við höfum lifað á árinu 2020 þá voru þær ekki aðalfréttamálið í síðari hluta október heldur tvær hópsýkingar sem komu upp, annars vegar á ísfirska togaranum Júlíusi Geirmundssyni og hins vegar á Landakoti. Fyrst var greint frá smitum á Júllanum, eins og skipið er gjarnan kallað, þann 19. október. Þá bárust fregnir af því meirihluti áhafnarinnar hefði greinst með kórónuveiruna og var á leið inn til hafnar á Ísafirði. Tveimur dögum áður hafði verið komið til hafnar til að taka olíu og þá voru skipverjar skimaðir. Skipið hafði verið á veiðum í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni á því tímabili. Þegar það kom til hafnar 20. október var greint frá því að nítján af 25 skipverjum hefðu greinst með veiruna. Daginn eftir bættust þrír í hópinn svo alls smituðust 22 úr áhöfninni í túrnum. Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir út Júllann. Rætt var við hann fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar 21. október. Aðspurður vildi hann ekki svara því hvers vegna skipinu hafði ekki verið snúið til hafnar um leið og bera fór á veikindum skipverja nokkrum vikum fyrr. Um kvöldið sendi Hraðfrystihúsið svo frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að kalla hefði átt togarann til hafnar fyrr og senda alla áhöfn skipsins í skimun fyrir kórónuveirunni. „Það þekkti enginn þetta Covid“ Daginn eftir fengu skipverjarnir að fara frá borði. Þá sendi Sjómannasambandið frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að útgerðin hefði hafnað ítrekuðum beiðnum sóttvarnalæknis um að koma í land vegna veikindanna um borð. 23. október var sagt frá því að skipverjar hefðu margir hverjir verið alvarlega veikir á túrnum, með mikinn hita, öndunarerfiðleika auk fleiri þekktra einkenna Covid-19. „Þrátt fyrir þessu skýru einkenni um sýkingu töldu hvorki útgerð né skipstjóri ástæðu til að tilkynna um veikindin til sóttvarnaryfirvalda eða Landhelgisgæslu eða halda skipi til hafnar þannig að hægt væri að framkvæma sýnatöku og koma í veg fyrir frekari smit um borð,“ sagði í yfirlýsingu Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Lögreglan tók til skoðunar hvort ástæða væri til að rannsaka málið. 24. október steig svo fyrsti skipverjinn fram, 21 árs gamli hásetinn Arnar Gunnar Hilmarsson. Hann sagði meðal annars að erfitt hefði verið að horfa upp á þá sem veikastir urðu í túrnum. Þá óttaðist hann ekki að missa vinnuna með því að stíga fram; tjáning hans væri verðmætari en starfið. Daginn eftir barst yfirlýsing frá útgerðinni þar sem beðist var afsökunar á þeim mistökum að láta ekki Landhelgisgæsluna vita þegar veikindi komu upp um borð, líkt og útgerðum ber vegna kórónuveirufaraldursins. Þá sagði Einar Valur í hádegisfréttum Bylgjunnar að fyrirtækið hefði ekki viðhaft rétta verkferla. Þá hefði enginn þekkt „þetta Covid.“ „Þetta er nýtt. Það þekkti enginn þetta Covid. Við vissum ekki hvað það var. Og þetta er eins og ég segi, fyrsta Covidið sem kemur í fyrirtækið hjá okkur. Við höfum blessunarlega verið laus við þetta og ekki þekkt þetta. Þannig að þetta er okkur öllum mikið áfall og hugur okkar er hjá þeim sem hafa veikst,“ sagði hann. 26. október hóf lögreglan á Vestfjörðum sakamálarannsókn á málinu og daginn eftir tóku síðan fimm stéttarfélög sig saman og kærðu skipstjórann, Svein Geir Arnarsson, sem og útgerðina. Skýrslutökum lögreglu lauk 28. október og um þremur vikum seinna, þann 17. nóvember, lýstu skipverjar vantrausti á skiptstjórann og kröfðust þess að hann myndi hætta störfum á skipinu. 23. nóvember fór síðan fram sjópróf í málinu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða sem ítarlega var fjallað um hér á Vísi. Tugir sjúklinga og starfsmanna Landakots smituðust í hópsýkingunni sem þar kom upp í október og hafa þrettán látist sem smituðust í henni.Vísir/Vilhelm Einn viðkvæmasti hópur samfélagsins útsettur fyrir smiti Þann 22. október kom upp hópsýking á Landakoti en þar eru flestar öldrunarlækningadeildir Landspítalans til húsa. Fljótt varð ljóst að hópsýkingin væri mjög alvarlegur atburður enda er sjúklingahópurinn á Landakoti afar viðkvæmur fyrir kórónuveirunni. Samkvæmt skýrslu sem tekin var saman um hópsýkinguna greindust alls 98 tilfelli hjá starfsfólki og sjúklingum Landakots á tímabilinu 22.-29. október; 52 starfsmenn greindust smitaðir og 46 sjúklingar. Allt í allt er talið að rekja megi um 200 smit til sýkingarinnar en smit bárust á aðrar heilbrigðisstofnanir, á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka og Reykjalund. Þá hafa, þegar þetta er skrifað, þrettán einstaklingar látist sem smituðust af Covid-19 í hópsýkingunni. Tólf þeirra létust á Landspítalanum og einn á Sólvöllum. Allt frá því að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi hefur markmið yfirvalda verið að vernda viðkvæmustu hópana sem og heilbrigðiskerfið. Það er því ekki skrýtið að áleitnar spurningar hafi vaknað þegar hópsýkingin á Landakoti kom upp enda varð einn viðkvæmasti hópurinn útsettur fyrir smiti og álagið jókst í kjölfarið gríðarlega á Landspítalann. Neyðarstigi lýst yfir í fyrsta sinn Þann 25. október var Landspítali færður á neyðarstig í fyrsta sinn í sögu spítalans. Ástæðan var hópsýkingin á Landakoti en 50 sjúklingar og 30 starfsmenn höfðu þá greinst með kórónuveiruna. Spítalinn var undir gríðarlegu álagi. Neyðarstig er hæsta viðbúnaðarstig Landspítalinn og þýðir að spítalinn ráði ekki við atburðinn án utanaðkomandi aðstoðar. Nauðsynlegt er að virkja spítalann að fullu, eins og segir í viðbragðsáætlun spítalans. Á upplýsingafundi daginn eftir sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, stjórnendur og starfsfólk þar búa sig undir tvær erfiðar vikur. Alvarleg staða væri uppi á spítalanum og þróun atburðarásarinnar næstu dagi væri þrungin mikilli óvissu. Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans.Vísir/Egill Þá þakkaði hann starfsmönnum Landspítalans sem störfuðu við erfiðar aðstæður, sérstaklega á Landakoti. „Ég vona að samfélagið skilji og meti framlag þessa fólks til þessarar baráttu og prófi að setja sig í þeirra spor,“ sagði Páll. 26. október var öllum valkvæðum og ífarandi aðgerðum á landinu frestað til þess að koma í veg fyrir enn meira álag á Landspítalann. Hörðustu sóttvarnaaðgerðir til þessa Fyrsta andlátið tengt hópsýkingunni á Landakoti varð 27. október þegar sjúklingur á Landakoti lést vegna Covid-19. Þetta var tólfta andlátið af völdum Covid-19 hér á landi og annað andlátið í þriðju bylgjunni. Tíu létust í fyrstu bylgjunni í vor. Á upplýsingafundi 28. október sagði Þórólfur sóttvarnalæknir að við værum „á brúninni“ með að missa tökin á faraldrinum. 86 höfðu þá greinst með veiruna innanlands daginn áður. Þá lágu 58 á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og var einn þeirra á gjörgæslu. 954 virk innanlandssmit voru þann 27. október. Daginn eftir kvaðst heilbrigðisráðherra sjá fram á hertar aðgerðir. Tveimur dögum síðar voru þær hertu aðgerðir kynntar og reyndust þær vera hörðustu sóttvarnaaðgerðir sem stjórnvöld höfðu gripið til. Aðgerðirnar giltu fyrir landið allt enda hafði veiran nú skotið sér niður í flestum landshlutum. Sett var á tíu manna samkomubann, allt íþróttastarf varð óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Líkamsræktarstöðvum var gert að loka á ný og þá skyldu sundlaugar einnig loka en hingað til hafði sú regla aðeins gilt á höfuðborgarsvæðinu. Veitingastaðir með vínveitingaleyfi máttu ekki loka seinna en 21. Reglurnar tóku gildi á miðnætti þann 31. október og giltu í tæpar þrjár vikur. Daginn eftir greindi Landspítalinn frá því að tveir sjúklingar hefðu látist vegna Covid-19. Alls höfðu þá fimmtán látist í faraldrinum. „Þetta er það sem okkar allra besta fólk telur að dugi til að snúa veiruna niður í þessari lotu. En þetta virkar bara ef við snúum bökum saman, sýnum samstöðu og förum eftir reglunum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þar sem aðgerðirnar voru kynntar. 75 inniliggjandi á Landspítala þegar mest var Á þessum tímapunkti var hafin rannsókn innan Landspítalans á því hvernig það gerðist að upp kom hópsýking á Landakoti. Utanaðkomandi aðili var fenginn til að rannsaka málið og sagði Páll forstjóri vinnuna við rannsóknina flókna. Meðal annars þyrfti að taka ítarleg viðtöl við um hundrað manns og rekja alls kyns ferla. Innlögnum á Landspítala vegna Covid-19 hélt áfram að fjölga og þá létust fleiri af völdum sjúkdómsins næstu daga. Dagana 6.-7. nóvember náði sjúklingafjöldi á Landspítalanum með Covid-19 hámarki sínu þegar alls 75 lágu inni. Fjórir voru á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél. 8. nóvember greindi spítalinn frá því að tveir hefðu látist þar vegna Covid-19 og daginn eftir var greint frá þremur andlátum til viðbótar. Alls höfðu nú 23 látist úr sjúkdómnum hér á landi. Þrettán höfðu dáið í þriðju bylgjunni og mátti rekja tíu þeirra andláta til hópsýkingarinnar að því er fram kom í svari Landspítalans við fyrirspurn Vísis. „Fullkominn stormur“ á Landakoti Þann 12. nóvember var Landspítalinn færður af neyðarstigi yfir á hættustig. Var það mat viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar spítalans að tök hefðu náðst á hópsýkingunni þótt hún væri ekki enn yfirstaðin. Þá var einnig talið óhætt að hefja valkvæðar aðgerðir á ný. Daginn eftir var svo skýrsla spítalans um hópsýkinguna kynnt á blaðamannafundi. Ítarlega var greint frá niðurstöðum skýrslunnar hér á Vísi. Þar kom fram að „fullkominn stormur“ hafi verið hugtakið sem Lovísa Björk Ólafsdóttir, sérfræðilæknir í smitsjúkdómum og sýkingavörnum, notaði um þær aðstæður sem urðu þess valdandi að hópsýking braust út á Landakoti í október. Samkvæmt skýrslunni er talið að nokkrar sýkingar, að minnsta kosti þrjár, hafi borist inn á Landakot á skömmu tímabili um miðjan október. Þá voru aðstæður og aðbúnaður á Landakoti til þess fallin að auka líkur á dreifingu Covid-19 meðal starfsfólks og sjúklinga. Í niðurstöðum skýrslunnar er sérstaklega vikið að loftræstingu húsnæðisins, sem er ekki til staðar nema um glugga, mikinn fjölda sameiginlegra snertiflata dvalargesta, óhagstæðan aðbúnað starfsmanna, ófullnægjandi hólfaskiptingu starfseininga og sameiginleg not á ýmsum tækjabúnaði. Þannig hafi kæfisvefnsvél verið mögulegur smitvaldur. Einn sjúklingur hafði verið meðhöndlaður með vélinni frá 1. október þar til hópsýkingin uppgötvaðist þremur vikum seinna. Hann var einkennalaus en greindist síðar með Covid-19. Þar sem sjúkdómurinn smitast meðal annars með úðasmiti er talið mögulegt að smit hafi borist með vélinni. Ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna Á blaðamannafundinum sagði Páll forstjóri að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna. Þá væri markmiðið með rannsókninni ekki að leita að sökudólgi heldur að læra af málinu og finna leiðir til að koma í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig. Embætti landlæknis vinnur nú að annarri rannsókn á hópsýkingunni á Landakoti. Starfsmenn embættisins sinna rannsókninni auk þess sem Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, hefur verið fengið liðs við teymið vegna mikilla anna hjá embættinu. Rannsókn landlæknis mun taka einhverjar vikur og hefur heilbrigðisráðherra sagt að ekki sé búist við niðurstöðu á þessu ári. Málið sé flókið og mikið álag í heilbrigðisþjónustunni, meðal annars hjá embætti landlæknis. Mikil áhrif faraldursins á skólastarf Eins og við var að búast hefur þriðja bylgja faraldursins haft mikil áhrif á skólastarf. Meirihluti framhalds- og háskólanema hefur verið í fjarnámi á þessari önn þar sem ekki hefur verið unnt að sinna kennslu í staðnámi vegna fjöldatakmarkana og fjarlægðarmarka. Hafa menntamálayfirvöld lagt áherslu á það að reyna að halda úti eins eðlilegu skólastarfi í leik- og grunnskólum eins og mögulegt er. Þannig hefur ekki verið gripið til þess ráðs, eins og gert var í fyrstu bylgju faraldursins, að skerða skólastarf með þeim hætti að börn mættu bara nokkra klukkutíma í dag í skólann á hverjum degi eða annan hvern dag. Myndin er tekin í Réttarholtsskóla í haust en grímuskylda er í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum.Vísir/Vilhelm Á móti kemur að fjöldi nemenda og kennara hefur þurft að fara í sóttkví eftir að smit kom upp í hinum ýmsu skólum, bæði á leik- og grunnskólastigi. Samkvæmt tölfræði frá smitrakningarteymi almannavarna hafa þannig um tíu þúsund börn á leik- og grunnskólaaldri þurft í sóttkví. Þá hafa 106 börn á aldrinum núll til fimm ára greinst með kórónuveiruna í þriðju bylgjunni og 325 börn á aldrinum sex til fimmtán ára. Nýjasta dæmið um smit í grunnskóla er Öldutúnsskóli í Hafnarfirði. Í liðinni viku var greint frá því að 62 nemendur og fjórtán starfsmenn skólans þyrftu að fara í sóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp í skólanum. Grunnskólabörn hafa síðan þurft að vera með grímur í skólanum samkvæmt reglugerð. Þannig þurftu börn í 5.-10. bekk að vera með grímur í skólanum þar sem ekki var hægt að tryggja tveggja metra fjarlægðarmörk fyrstu tvær vikurnar í nóvember. Með breytingum á reglugerð var grímuskyldan afnumin fyrir 5.-7. bekk 18. nóvember en hún er enn við lýði í unglingadeildum. Gangar Háskóla Íslands hafa verið tómir á þessari haustönn þar sem nánast allt nám hefur verið í fjarnámi.Vísir/Vilhelm Stúdentar ósáttir við fyrirkomulag prófa Þá hefur undanfarnar vikur töluvert verið fjallað um fyrirkomulag lokaprófa við Háskóla Íslands og þá staðreynd að fjölmörg staðpróf fara fram í húsakynnum skólans næstu vikurnar. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum eru alls 460 lokapróf í skólanum nú í desember og af þeim eru 136 staðpróf. Stúdentar hafa harðlega gagnrýnt að skólinn haldi staðpróf í miðjum heimsfaraldri. Stúdentaráð sendi til að mynda frá sér yfirlýsingu í miðjum nóvember þar sem sagði að það væri „ekki boðlegt að neyða nemendur til að taka staðpróf og bjóða ekki upp á aðrar lausnir“. Þá ræddi Vísir við Helgu Lind Mar, framkvæmdastýru Stúdentaráðs, sem sagði að verið væri að stofna fólki í hættu út af hræðslu við svindl. Sagði Helga verulega óánægju meðal stúdenta og að verið væri að safna raunverulegum sögum frá fólki í tengslum við faraldurinn og staðpróf HÍ. „Þetta er fólk með alls konar sögur sem vill ekki þurfa að mæta í húsnæði skólans í desember til að taka próf. Fólk sem hefur ekki farið út úr húsi í allt haust, kannski með mjög alvarlega lungnasjúkdóma. Þetta er fólk sem býr á heimilum með háöldruðum foreldrum sínum sem eru mjög lasnir. Þarna er verið að skylda þau til að taka áhættur sem eru ekki nauðsynlegar,“ sagði Helga Lind. Síðustu daga hefur innanlandssmitum farið fjölgandi og velti Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ, því upp fyrir helgi hvort það þýddi ekki að endurmeta þyrfti þá ákvörðun að halda staðpróf í skólanum. Síðar sama dag sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, í samtali við mbl að staðprófunum yrði haldið til streitu. Skólinn færi í einu og öllu eftir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og sóttvarnalæknis og að staðprófin væru útfærð samkvæmt reglugerð. Þá hefðu þau próf sem hefðu verið haldin hingað til í byggingum háskólans gengið vel. „Ef nemendur eru í áhættuhópum þá komum við til móts við það með því að bjóða þeim upp á sérrými. Við höfum líka reynt að dreifa prófunum víða um háskólasvæðið. Við reynum líka að tryggja að það sé ekki hópamyndun fyrir próf, þannig að nemendur geti farið strax í stofur um leið og þeir komi í prófin. Við höfum brugðist við þessu eins vel og við getum. Við tökum þetta mjög alvarlega,“ sagði Jón Atli. Milljarða útgjöld ríkissjóðs vegna faraldursins Eins og flestir landsmenn ættu að þekkja hefur kórónuveirufaraldurinn haft gríðarlega mikil áhrif á efnahag landsins. Algjört hrun hefur orðið í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, ferðaþjónustu, og tug þúsundir eru án atvinnu. Til að bregðast við þessum efnahagsþrengingum hafa stjórnvöld farið í ýmsar mótvægisaðgerðir sem hafa það í för með sér að útgjöld ríkissjóðs hafa aukist til muna. Ríkið hefur þurft að taka lán og er áætlað að samanlagður halli ríkissjóðs á þessu ári og því næsta verði meira en 500 milljarðar króna. Í fjáraukalögum ársins 2020 er til að mynda gert ráð fyrir ríflega 55 milljarða króna aukningu vegna svokallaðra Covid-19-útgjalda. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráhðerra, með grímu í sæti sínu á Alþingi og líklegast að spritta sig.Vísir/Vilhelm Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins voru kynntar þegar fyrsta bylgjan gekk yfir. Þá voru meðal annars kynnt úrræði á borð við greiðslu launa á uppsagnarfresti, hlutabótaleiðina, lokunarstyrki og brúarlán til fyrirtækja. Í þriðju bylgju faraldursins hefur hlutabótaleiðin verið framlengd, fyrst til áramóta og svo til loka maí á næsta ári. Þá hafa lokunarstyrkirnir einnig verið framlengdir og komið á laggirnar svokölluðum tekjufallsstyrkjum sem eiga að nýtast einyrkjum og smærri rekstraraðilum, til dæmis leiðsögumönnum og sviðslistafólki sem hefur orðið fyrir miklu tekjutapi í faraldrinum. Í byrjun september samþykkti Alþingi einnig ríkisábyrgð á lánalínum til flugfélagsins Icelandair. Starfsemi félagsins hefur verið í skötulíki meirihluta ársins vegna faraldursins og reri það lífróður sem farið var í um miðjan september. Ríkisábyrgð á lánalínum var talin afar mikilvæg fyrir útboðið sem gekk á endanum vel. Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í félaginu og því tókst því að ná markmiði sínu sem var að safna 23 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Um miðjan nóvember kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðapakka sem hún kallar „Viðspyrna fyrir Ísland“. Þar má finna almennar og sértækar félagslegar aðgerðir og viðspyrnuaðgerðir fyrir fyrirtæki. Í þessum aðgerðum felst til dæmis að atvinnuleysisbætur verða hækkaðar á næsta ári og atvinnuleitendur fá desemberuppbót í ár. Þá verða skerðingamörk barnabóta hækkuð og viðbótarstuðningur til tómstundaiðkunar barna af lágtekjuheimilum framlengdur. Rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði í mánuðinum. Áskilið er að tekjufallið stafi af heimsfaraldri kórónuveiru eða aðgerðum stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar. Þá er meðal annars stefnt að því að fara í aðgerðir til að efla félagsstarf aldraðra og sporna gegn félagslegri einangrun þeirra. Nánar má lesa um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hér á sérstakri síðu á vef stjórnarráðsins. Beðið í röð fyrir utan Elko á svörtum föstudegi. Jólaverslunin er hafin og það þarf að vera með grímu og passa tvo metrana. Verslunarmenn hafa hins vegar gagnrýnt tíu manna samkomubannið og hafa kallað eftir að fleiri viðskiptavinum verði leyft að koma í búðir.Vísir/Vilhelm Vonir um tilslakanir urðu að engu Þann 18. nóvember var slakað á þeim hörðu samkomutakmörkunum sem tóku gildi í lok október. Þjónusta sem krefst nálægðar og/eða snertingar var heimiluð á ný og íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri var einnig leyft. Þá fóru fjöldatakmörk í öllum hópum á framhaldsskólastigi upp í 25 manns með tveggja metra reglu sem hingað til hafði aðeins verið í boði fyrir 1. árs nema. Tíu manna samkomubann hélst hins vegar óbreytt og líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, barir og skemmtistaðir máttu ekki opna. Aðventan er gengin í garð og landsmenn töldu sig vera farna að sjá fyrir endann á þriðju bylgjunni með hörðum sóttvarnaaðgerðum. Vonir voru bundnar við að það væri hægt að létta enn frekar enda hafði smitum farið fækkandi fyrstu vikurnar í nóvember. Síðustu viku eða svo hefur faraldurinn hins vegar verið í uppsveiflu á ný og í gær var tilkynnt um óbreyttar aðgerðir til og með 9. desember. Hárgreiðslustofur opnuðu á ný um miðjan nóvember svo vonandi ná sem flestir að komast í jólaklippinguna.Vísir/Vilhelm Bráðum koma blessuð jólin... Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, var einn þeirra sem greindist með veiruna í liðinni viku en hann smitaðist af konunni sinni. Ekki hefur tekist að rekja smitið. Víðir er nú á áttunda degi veikinda en um liðna helgi sagði hann frá því hverja hann hefði hitt helgina á undan. Konan hans greindist með Covid-19 mánudaginn 23. nóvember og tveimur dögum síðar greindist Víðir. Í færslu á Facebook-síðu sinni sagði Víðir frá gestagangi á heimili sínu helgina áður en hjónin greindust. Alls þurftu tólf manns að fara í sóttkví í tengslum við smit þeirra og hafa fimm aðrir úr hópnum greinst með veiruna. Þó nokkuð hefur borið á gagnrýnisröddum í garð Víðis vegna gestagangsins heima hjá honum og hefur Þórólfur sóttvarnalæknir sagt að það sé ekki endilega æskilegt að fá tólf gesti í heimsókn á 48 klukkustunda tímabili. Hins vegar sé það svo að fólk þurfi að geta umgengist til dæmis fjölskylduna sína; sinnt börnum og foreldrum. Það þurfi einfaldlega að gæta vel að öllum einstaklingsbundnum sóttvörnum. Aðventan og jólin verða vafalaust ólík því sem eigum að venjast og hafa sóttvarnayfirvöld og almannavarnir hafa gefið út leiðbeiningar um hátíðarhöld um jól og áramót. Almenningur er meðal annars hvattur til að velja sér jólavini til að vera með í „jólakúlu“. ...og vonandi líka bóluefni Milljón dollara spurningin er auðvitað hvenær lífið verður eðlilegt aftur. Hvenær getum við heimsótt ömmu á hjúkrunarheimilið, hvenær komumst við í sund, til útlanda og getum haldið upp á afmæli í fjölskyldunni? Meira en 5000 manns hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi og 27 manns látist vegna Covid-19. Á heimsvísu hafa yfir sextíu milljónir manna smitast og um ein og hálf milljón látist. Um allan heim eru miklar vonir bundnar við bóluefni gegn sjúkdómnum. Niðurstöður rannsókna og þróunar bóluefna lyfjafyrirtækjanna Pfizer, Moderna og AstraZeneca gefa vonir um að hægt verði að hefja bólusetningar um mitt næsta ár. Yfirvöld hér á landi hafa byrjað undirbúning bólusetningar gegn Covid-19. Listi yfir þá sem hafa forgang í bólusetningu hefur til að mynda verið gefinn út. Hvenær bólusetning hefst hins vegar nákvæmlega er alls óvíst enda eiga eftirlitsstofnanir eftir að gefa leyfi fyrir mögulegum bóluefnum. Bæði Pfizer og Moderna hafa sótt um neyðarleyfi fyrir sín bóluefni. Það er því ekkert svar við milljón dollara spurningunni. Þangað til þurfa landsmenn að þreyja þorrann, að öllum líkindum í bókstaflegri merkingu að lokinni aðventu, jólum og áramótum. Faraldur kórónuveiru (COVID-19) Samkomubann á Íslandi Fréttaskýringar Mest lesið Sjálfstæðisflokkur stekkur fram úr Viðreisn og Samfylking áfram efst Innlent „Stjórnmálamenn eru að gera sig að fíflum í beinni útsendingu“ Innlent Ísstífla hrannast upp í Ölfusá Innlent Mestu flokkaflakkararnir Innlent Kosningavaktin: Íslendingar kjósa sér nýtt þing Innlent Samtökin '78 kæra oddvita Lýðræðisflokksins Innlent Kappræður gerðar upp: „Hann lenti upp á kant við nánast alla í stúdíóinu“ Innlent „Allt það sem mannlegur máttur ræður við er undir góðri stjórn“ Innlent Tæplega helmingi líst vel á Samfylkingu og Viðreisn í ríkisstjórn Innlent „Ég sé eftir því að nokkru leyti“ Innlent
Eftir sex vikna lokun komust landsmenn loks í klippingu þann 4. maí. Ekki seinna vænna að létta á lubbanum fyrir sumarið. Þá var líka opnað fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum og íþróttastarf barna og unglinga var leyft utandyra. Þvílík hamingja, ekki aðeins hjá börnunum heldur líka fyrir foreldrana sem síðustu vikur höfðu þurft að sinna vinnunni heima, jafnvel kennslu og svo að finna upp á einhverju að gera í heimsfaraldri þar sem nánast allt var lokað. Tveimur vikum seinna voru sundlaugar opnaðar á ný, þjóðinni til það mikillar gleði að boðið var upp á miðnæturopnun í sundlaugum, meðal annars í Reykjavík og á Selfossi, og komust færri að en vildu vegna fjöldatakmarkana. Viku síðar opnuðu líkamsræktarstöðvar á ný, samkomubannið fór úr fimmtíu í 200 manns og viti menn, djammið opnaði líka en það mátti bara vera opið til 23. Þá var einnig farið af neyðarstigi almannavarna vegna veirunnar og yfir á hættustig. Afar fáir höfðu greinst með veiruna undanfarnar vikur. Daglegt líf var ekki komið í þær eðlilegu skorður sem við þekktum fyrir 28. febrúar þegar fyrsta kórónuveirusmitið greindist á Íslandi en þetta var allavega eitthvað. Erfitt var að komast til útlanda vegna ferðatakmarkana og því lagðist landinn í ferðalög innanlands sem stjórnvöld hvöttu sérstaklega til með svokallaðri ferðagjöf. Án þess að Vísir hafi gert á því vísindalega könnun þá heyrir það örugglega til undantekninga að hafa ekki lagt land undir fót í sumar. Ferðagleðin endurspeglaðist á samfélagsmiðlum sem voru undirlagðir af myndum frá Stuðlagili, Fimmvörðuhálsi og Húsavík svo nokkrir af vinsælli áfangastöðum sumarsins séu nefndir. 80 prósent samdráttur í komum erlendra ferðamanna Á móti kom gríðarlegur samdráttur í komum erlendra ferðamanna vegna faraldursins. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fækkaði erlendum ferðamönnum yfir sumartímann um 80 prósent á milli ára með tilheyrandi erfiðleikum fyrir fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki um allt land og sögulega miklu atvinnuleysi. Einhverjir ferðamenn komu þó til landsins í sumar eftir að boðið var upp á skimun fyrir veirunni á landamærum í stað tveggja vikna sóttkvíar frá 15. júní. Á tímabili voru meira að segja ferðamenn frá tilteknum löndum undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví en eftir að bakslag kom í faraldurinn var tvöföld sýnataka tekin upp á landamærunum þann 19. ágúst. Eru þær reglur enn í gildi. Í umfjölluninni sem hér fer á eftir er stiklað á stóru í því sem á kalla annan kafla Covid-19-sögu Íslands. Er vert að taka fram að líkt og í fyrsta kafla sögunnar hefur svo margt gerst að umfjöllunin er ekki tæmandi. Þúsund manna fjöldatakmörkun í kortunum Þegar best lét í sumar máttu allt að 500 manns koma saman. Þá var skilgreiningu tveggja metra reglunnar breytt þannig að hún var í raun ekki lengur skylda heldur var horft til þess að vernda þá sem væru viðkvæmir og skapa þeim sem kusu aðstæður til að viðhalda tveggja metra reglu. Knattspyrnuunnendur gátu mætt á völlinn og það mátti halda tónleika og leiksýningar, þótt það hafi kannski ekki verið mikið um það. Útlitið var gott um miðjan júlí, svo gott að engin virk innanlandssmit voru í samfélaginu frá 17.-22. júlí. Þann 17. júlí lagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, til í minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að fjöldatakmörkun færi úr 500 manns í þúsund. Þá lagði hann einnig til að opnunartími skemmti- og vínveitingastaða yrði lengdur til klukkan 24. Áttu þessar breytingar að taka gildi þann 4. ágúst. Konur á gangi með grímur við Sæbraut í sumar. Þá var ekki grímuskylda en það styttist í að hún yrði tekin upp þar sem ekki var hægt að tryggja fjarlægðarmörk.Vísir/Vilhelm „Græna veiran“ komst á kortið En babb kom í bátinn. Tíu dögum eftir að fyrrnefnt minnisblað var sent barst ráðherra annað minnisblað frá Þórólfi. Þar lagði hann til að breytingum á samkomubanni og opnunartíma skemmti- og vínveitingastaða yrði frestað til 18. ágúst. Vísaði Þórólfur til þess að undanfarna daga hefðu „innflutt smit“ greinst í vaxandi mæli og að dreifing hefði orðið innanlands. Enginn hefði hins vegar veikst alvarlega og enginn lagst inn á sjúkrahús. Samkvæmt tölfræðiupplýsingum á covid.is greindust tíu með virk smit á landamærunum frá 18.-30. júlí. Þar af var einn sem greindist með virkt smit í seinni skimun. Frá 2. júlí hafði enginn greinst með veiruna innanlands en vikuna 23.-30. júlí greindust alls 38 innanlandssmit, eða á bilinu tveir til tíu á dag. Þar á meðal var sérstakt afbrigði veirunnar sem greindist fyrst í Kópavogi þann 25. júlí og var kallað „græna veiran“ þar sem afbrigðið fékk grænan lit hjá rakningarteymi almannavarna. Græna veiran átti eftir að valda nokkrum usla en féll þó í skuggann með haustinu af „bláu veirunni“. Það hefur ekki mátt spila knattspyrnu lungann úr árinu og á endanum fór það svo að Íslandsmótið í knattspyrnu var blásið af.Vísir/Vilhelm Engin knattspyrna með tveggja metra reglu Þann 29. júlí barst heilbrigðisráðherra minnisblað frá sóttvarnalækni þar sem lagðar voru til harðari sóttvarnaaðgerðir. Hópsýking hafði komið upp á Akranesi vegna „grænu veirunnar“ og verslunarmannahelgin var handan við hornið. Höfðu almannavarnir og sóttvarnayfirvöld áhyggjur af því að faraldurinn færi úr böndunum með tilheyrandi ferðalögum milli landshluta og hópamyndunum. Við það myndi skapast hætta á að smit dreifðist frekar í samfélaginu. 31. júlí, á föstudeginum um verslunarmannahelgi, tóku því hertar samkomutakmarkanir gildi. Tveggja metra reglan var aftur tekin upp, aðeins máttu hundrað manns koma saman í stað 500 og grímuskyldu var komið á þar sem ekki var hægt að tryggja tvo metra á milli fólks. Á frídegi verslunarmanna, þann 3. ágúst, var farið að tala um að önnur bylgja faraldursins væri hafin hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum er miðað við að hún hafi byrjað um miðjan júlí. Breytingar á samkomutakmörkunum höfðu til dæmis áhrif á Íslandsmótið í knattspyrnu þar sem ekki er hægt að leika fótbolta með tveggja metra reglu í gildi. Knattspyrnusamband Íslands sótti um undanþágu til heilbrigðisráðuneytisins til að geta haldið Íslandsmótinu áfram en beiðninni var hafnað. Íslandsmótinu var því frestað til og með 13. ágúst þegar von var á nýjum reglum. Þá höfðu breytingarnar einnig áhrif á ferðaplön margra um verslunarmannahelgina. Þannig þurfti að vísa mörgum frá tjaldsvæðinu á Akureyri vegna mannmergðar og takmarkana. Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæða Skátanna á Akureyri, gagnrýndi yfirvöld fyrir stuttan fyrirvara um hertar aðgerðir. Það var síðan auðvitað engin þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Einhverjir létu þó veiruna ekki stoppa sig í að skjótast yfir með Herjólfi en í vikunni eftir verslunarmannahelgina kom svo upp hópsýking hjá fólki sem verið hafði í Eyjum. Sóttvarnalæknir sagði þetta sýna hættuna af hópamyndun. Frá ríkisráðsfundi á Bessastöðum fyrr í haust. Í sumar þurftu allir ráðherrarnir nema þau Ásmundur Einar Daðason og Svandís Svavarsdóttir að fara í skimun og viðhafa smitgát eftir að hópsýking kom upp á Hótel Rangá.Vísir/Vilhelm Ríkisstjórnin í skimun eftir smit á Hótel Rangá Þann 14. ágúst voru svo gerðar breytingar á samkomutakmörkunum. Þær fólu það í sér að leyfilegt varð að hafa eins metra reglu á milli einstaklinga í framhalds- og háskólum án þess að bera grímu og þá voru snertingar milli íþróttafólks heimilar í æfingum og keppnum. Þetta þýddi að Íslandsmótið í fótbolta gat til að mynda hafist á ný. Þennan dag voru 90 manns með virk innanlandssmit. Þann 19. ágúst voru síðan gerðar breytingar á reglum á landamærunum sem enn eru í gildi og verða að óbreyttu í gildi fram í febrúar. Allir farþegar sem koma til Íslands skulu velja á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með fimm daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og vera í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Áður en þessar reglur tóku gildi hafði Íslendingum og öðrum sem búsettir eru hér á landi verið gert að fara í tvöfalda skimun, sem og þeim sem komu frá áhættusvæðum. Daginn eftir, þann 20. ágúst, var síðan greint frá því að smit hafði komið upp hjá starfsmanni Hótels Rangár. Hótelinu var í kjölfarið lokað en ríkisstjórnin hafði borðað hádegismat þar tveimur dögum áður en starfsmaðurinn greindist. Hann hafði þó ekki sinnt ráðherrunum. 21. ágúst var ákveðið að ríkisstjórnin færi í skimun vegna smitsins og viðhefði smitgát þar til niðurstöður lægju fyrir. Enginn ráðherranna reyndist smitaður en hins vegar varð ljóst eftir því sem dagarnir liðu að upp var komin hópsýking í tengslum við Hótel Rangá. Myndin er tekin í miðbæ Reykjavíkur í ágúst síðastliðnum þegar sólin skein og það máttu mun fleiri koma saman en tíu manns líkt og nú er.Vísir/Vilhelm Umdeildur vinkonuhittingur ráðherra Helgina áður en ríkisstjórnin fór til funda á Suðurlandi og snæddi hádegisverð á Hótel Rangá og daginn eftir að tilkynnt var um hertar aðgerðir á landamærunum fór Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í vinkonuhitting. Myndir birtust af hittingnum á samfélagsmiðlum þar sem þær sátu þétt saman og var mikið rætt um hann og ritað enda töldu einhverjir ráðherrann og vinkonur hennar hafa brotið reglur um fjarlægðarmörk. Í samtali við Vísi sagði Þórdís hópinn hafa verið mjög meðvitaðan um sóttvarnareglur og einstaklingsbundnar smitvarnir. Í yfirlýsingu vegna málsins sagði Þórdís síðan að það hefði verið einfaldara að hitta vinkonurnar ekki. Skjáskot af myndunum fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk gagnrýndi skort á tveggja metra fjarlægðarmörkum. Þórólfur sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi að hann teldi Þórdísi og vinkonuhópinn ekki hafa brotið reglur. Vísaði hann í að auglýsing yfirvalda um sóttvarnareglur segðu ekki til um að tveir einstaklingar sem ekki deildu sama heimili þyrftu að viðhalda tveggja metra fjarlægð heldur þyrftu rekstraraðilar að tryggja að fólk gæti fengið sína tvo metra. „Hún var taktlaus og mistök, svona eftir á að hyggja. Myndmálið var þannig og tímasetningin rétt eftir að tilkynnt var um afdrifaríkar ákvarðanir um komur til landsins,“ sagði Þórdís Kolbrún síðan í samtali við Morgunblaðið í byrjun október um myndirnar sem birtust úr hittingnum. Þurfti að fresta skólasetningu vegna grænu veirunnar Veiruafbrigðið sem greindist á Hótel Rangá reyndist vera það sama og hafði greinst í hópsýkingunni á Akranesi, græna veiran. Hafði hópsýkingin sem kom upp á hótelinu meðal annars áhrif á starfsemi Hins hússins og Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla. Starfsmaður Hins hússins greindist með veiruna svo loka þurfti húsinu og helmingur starfsmanna fór í sóttkví. Þá reyndist sameiginlegur starfsmaður Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla smitaður af veirunni. Þurfti að fresta skólasetningu skólanna þar sem allir starfsmenn voru sendir í sóttkví vegna smitsins. Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnalæknis sagði í viðtali við fréttastofu 25. ágúst að 24 einstaklingar hefðu greinst smitaðir í tengslum við Hótel Rangá. Þá hefði græna veiran skotið upp kollinum um allt land frá 25. júlí. „Hópur sem meðal annars tengist hóteli, hann telur núna um það bil 24, en þetta er hópur sem hefur margar staðsetningar. Það er í rauninni engin ein staðsetning,“ sagði Jóhann Björn. Alls greindust 63 einstaklingar með Covid-19 í tengslum við hópsýkinguna á Hótel Rangá. Græna veiran hefur ekki greinst hér á landi síðan 6. október en raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur greinst í 231 smiti. Verulegar tilslakanir á samkomutakmörkunum Þann 28. ágúst var farið í tilslakanir á samkomutakmörkunum. Tveggja metra reglunni var meðal annars breytt; nú var kveðið á um að tryggja bæri tveggja metra reglu á milli einstaklinga sem ekki væru í nánum tengslum. Þá voru íþróttir almennt leyfðar og snertingar heimilar á æfingum í sviðslistum og tónlist á sama hátt og í íþróttum. Þennan dag voru 75 manns með virk innanlandssmit og áttu reglurnar að gilda til 10. september. Smituðum fór hins vegar fækkandi og þann 7. september tóku því enn frekari tilslakanir gildi. 54 voru með virk innanlandssmit. Það mátti fara í ræktina í sumar og í haustbyrjun.Vísir/Vilhelm Segja má að þennan mánudag hafi verið slakað verulega á samkomutakmörkunum. Hámarksfjöldi þeirra sem máttu koma saman fór úr 100 manns í 200 manns, eins metra reglan gilti nú fyrir alla og hámarksfjöldi á sund- og baðstöðum og líkamsræktarstöðvum fór úr helmingi af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi upp í 75%. Íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi gat jafnframt farið fram þrátt fyrir eins metra reglu, það er snertingar voru leyfðar. Um áhorfendur fór eftir almennum reglum um einn metra og 200 manns í rými. Grímuskylda var í þeim aðstæðum þar sem ekki var hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Þórólfur sóttvarnalæknir var bjartsýnn á upplýsingafundi og sagði að yfirvöld væru að ná tökum á annarri bylgju faraldursins. Tekist hefði að sveigja kúrvuna niður og því mætti þakka aðgerðum sem gripið hefði verið til bæði innanlands og á landamærum. Ungstirni enska landsliðsins brutu sóttkví En þessar tilslakanir á samkomutakmörkunum voru ekki stærsta fréttin mánudaginn 7. september heldur sóttkvíarbrot ensku landsliðsmannanna í fótbolta Mason Greenwood og Phil Foden. Greenwood og Foden höfðu verið í landsliðshópi Englendinga sem mætti Íslendingum í Þjóðardeildinni laugardaginn 5. september. Af sóttvarnaástæðum giltu afar strangar reglur um veru enska landsliðsins hér á landi í tengslum við leikinn. Þannig áttu leikmenn og starfsmenn liðsins að virða sóttkví í hvívetna; ekki fara til dæmis út af hótelinu nema á æfingar og í sjálfan leikinn og ekki fá heimsóknir á hótelið. Þessar reglur brutu þeir Greenwood og Foden á sunnudagskvöldið þegar þeir buðu íslensku stelpunum Láru Clausen og Nadíu Sif til sín á Hótel Sögu. Lára og Nadía Sif þáðu boðið og sendu vinum sínum myndir og myndbönd frá heimsókninni á samfélagsmiðlum. Þaðan fór efnið í dreifingu og strax daginn eftir var málið komið í hámæli, ekki bara í íslenskum fjölmiðlum heldur einnig í pressunni úti. Sóttvarnalæknir sagði að landsliðsmennirnir hefðu klárlega brotið sóttkví með því að fá stelpurnar í heimsókn. Þær Lára og Nadía Sif sögðust ekki hafa áttað sig á því að Foden og Greenwood hefðu verið í sóttkví og heimsóknin því brot á reglum. Leikmennirnir voru reknir úr landsliðshópnum og sendir heim og íslenska lögreglan tók málið til rannsóknar. Málalyktir urðu þær að Greenwood og Foden voru sektaðir og greiddu 250 þúsund krónur hvor fyrir brot sín. Þess má svo geta að tveimur mánuðum síðar, eða um miðjan nóvember, sneri Foden aftur í enska landsliðið, gegn Íslandi á Wembley, og sagðist Lára í samtali við Vísi samgleðjast honum. Um miðjan september kom upp hópsýking sem tengdist skemmtistöðunum Brewdog og Irishman Pub.Vísir/Birgir Skellt í lás á djamminu Næstu vikuna greindust ekki margir með kórónuveiruna, eða á bilinu núll til sex dag hvern. Um miðjan september féllst heilbrigðisráðherra síðan á tillögu sóttvarnalæknis þess efnis að fólk gæti lokið sóttkví á sjö dögum ef sannað væri með sýnatöku í lok tímabilsins að engin merki væru um sýkingu af völdum Covid-19. Sú regla er enn við lýði. Það er oft sagt að vika sé langur tími í pólitík og þegar rýnt er í sögu Covid-19 má segja það sama um faraldurinn. Rúmri viku eftir að slakað var töluvert á samkomutakmörkunum kom nefnilega í ljós að stór hópsýking var komin upp á höfuðborgarsvæðinu. Smituðum fór hratt fjölgandi; þann 17. september greindust 21 með veiruna innanlands og daginn eftir greindust 75. Þriðjung þeirra smita mátti rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu. Hópsýking kom upp sem tengdist skemmtistöðunum Irishman Pub og Brewdog í miðbæ Reykjavíkur. Biðlaði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, til þeirra sem höfðu verið á Irishman Pub föstudagskvöldið 11. september að fara í sýnatöku ef þeir höfðu þá ekki þegar gert það eða voru komnir í sóttkví. Þá voru viðskiptavinir Brewdog dagana 11. og 12. september einnig hvattir til að fara í skimun eftir að í ljós kom að starfsmaður þar greindist með veiruna. Var talið að hann hefði smitast af viðskiptavini. Vegna þess hve mikinn fjölda nýgreindra smita mátti rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu var brugðið á það ráð að loka krám og skemmtistöðum tímabundið frá 18. september til 21. september. Sú lokun var síðan framlengd og fengu staðirnir ekki að opna aftur fyrr en þann 28. september. Þá voru meira en 500 manns með virk innanlandssmit. Ekki sanngjarnt að kenna frönsku ferðamönnunum um Þriðja bylgja faraldursins var hafin. Miðað er við að hún hafi byrjað 15. september. Raðgreining veirunnar á þeim sem smituðust þarna í seinni hluta september leiddi í ljós að langflestir voru með veiruafbrigði sem fyrst greindist í tveimur frönsku ferðamönnum sem komu til landsins um miðjan ágúst. Afbrigðið fékk bláan lit hjá rakningarteyminu og hefur því gengið undir nafninu „bláa veiran“ en einnig verið kallað „franska veiran.“ Í ljós kom að frönsku ferðamennirnir höfðu ekki gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana á meðan þeir dvöldu hér á landi. Þeir rufu hins vegar ekki einangrun og voru brot þeirra ekki talin það alvarleg að þá þyrfti að sekta, líkt og heimilt er ef sóttvarnalög eru brotin. Fjallað var um frönsku ferðamennina tvo í erlendum fjölmiðlum og þá gjarnan með vísun í viðtal á Vísi við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, frá 21. september. Þar kom fram að ferðamennirnir hefðu brotið sóttvarnareglur og nú hefðu yfir 100 smitast af veirunni. Franska fréttastofan AFP ræddi við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um málið. Hann sagði ósanngjarnt að skella skuldinni á ferðamennina tvo. Þeir hefðu ekki rofið einangrun og það væri hugsanlegt, og jafnvel líklegra, að aðrir sem voru um borð í sömu flugvél hafi verið sýktir en veiran ekki greinst hjá þeim við landamæraskimun. Þá sagði í svari almannavarna við fyrirspurn fréttastofu nú í nóvember að ekki væri hægt að fullyrða að þessi veirustofn hefði komið með þessum tilteknu ferðamönnum. Þá væri ekki hægt að útiloka að stofninn hafi borist hingað til lands með öðrum. „Eins og greint hefur verið frá áður höfðu ferðamennirnir verið á ferðinni og ekki farið eftir sóttvarnarleiðbeiningum til fulls. Málið var unnið í samvinnu við ferðamennina með leiðbeiningum sem þau skildu ekki,“ sagði í svari almannavarna. Fjölmargir landsmenn ættu að kannast við þá tilfinningu að fá sýnatökupinna upp í nefið. Ekki beint það þægilegasta.Vísir/Vilhelm Samkomutakmarkanir hertar til muna Daginn sem skemmtistaðir og barir fengu að opna aftur greindust 32 kórónuveirusmit innanlands. Fimm lágu á Landspítalanum vegna Covid-19, þar af einn á gjörgæslu. Næstu daga fór smitum fjölgandi jafnt og þétt auk innlagna á spítalann. Þannig greindi Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, frá því 1. október að þessa dagana legðist að meðaltali inn sjúklingur með Covid-19 á tólf tíma fresti. Sagði forstjórinn um ákveðna holskeflu að ræða. Yfirvöld lýstu því yfir að komandi helgi réði úrslitum varðandi það hvort grípa þyrfti til hertra sóttvarnaaðgerða. Það dró svo til tíðinda strax á laugardeginum. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum að setja á tuttugu manna samkomubann um land allt og loka börum, skemmtistöðum og líkamsræktarstöðvum. Eins metra reglan hélst óbreytt. Breytingarnar skyldu taka gildi mánudaginn 5. október. Sama dag var neyðarstigi almannavarna aftur lýst yfir. Þá voru 728 manns virkt innanlandssmit en 99 manns greindust þennan dag með veiruna. Ekki höfðu greinst fleiri innanlandssmit síðan 1. apríl þegar fyrsta bylgja faraldursins var í hámarki. Að auki var komin upp hópsýking sem tengdist Hnefaleikafélagi Kópavogs; á fjórða tug nýgreindra smita mátti rekja til æfinga hjá félaginu. Höfuðborgarsvæðið í sóttkví Vegna þessarar miklu fjölgunar smita ákváðu yfirvöld að grípa til enn harðari aðgerða. Þær einskorðuðust þó við höfuðborgarsvæðið þar sem mikill meirihluta smitaðra var þar. Aðgerðirnar voru kynntar 6. október og tóku gildi strax daginn eftir. Segja má að höfuðborgarsvæðið hafi verið sett í sóttkví. Tveggja metra reglan var tekin upp, sundlaugum lokað og hert á grímuskyldu. Starfsemi sem krefst snertingar eða nálægðar var gerð óheimil. Þannig var til dæmis hárgreiðslu- og snyrtistofum gert að loka sem og nuddurum. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru hvattir til að halda sig heima eins mikið og mögulegt var og til dæmis vinna heima ef slíkt var í boði. Þá var þeim ráðlagt að fara ekki út á land að óþörfu og fólki á landsbyggðinni ráðið frá óþarfa ferðum til borgarinnar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði verulegt áhyggjuefni hvað kórónuveiran hefði náð að dreifa sér í samfélaginu. Full ástæða væri til að óttast veldisvöxt faraldursins. „Smitin eru að tengjast fjölskyldum, þau eru að tengjast vinnustöðum, gönguhópum, hlaupahópum, það er eitt og eitt að koma upp tengt líkamsræktarstöðvum og ýmis konar afþreyingarstarfsemi sem er í gangi,“ sagði Víðir Reynisson á aukaupplýsingafundi þriðjudaginn 6. október. Nokkurs ruglings gætti í byrjun október varðandi það hvort íþróttastarf barna væri leyft eða ekki.Vísir/Hanna Ruglingur og kergja innan íþróttahreyfingarinnar Helsta óvissan varðandi hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sneri að íþróttastarfi. Sóttvarnalæknir hafði lagt til við ráðherra að allt íþróttastarf yrði óheimilt en ráðherra heimilaði íþróttastarf utandyra. Bannað var hins vegar að stunda og æfa íþróttir innandyra. Þetta misræmi olli þó nokkrum ruglingi og kergju innan íþróttahreyfingar og óvissu með íþróttastarf barna. Var það til dæmis gagnrýnt að leyfa ætti knattspyrnu en banna aðrar boltaíþróttir. Á endanum frestuðu KKÍ og HSÍ öllu mótahaldi í tæpar tvær vikur og KSÍ frestaði sínum mótum í viku. 8. október beindu almannavarnir og sóttvarnalæknir svo þeim tilmælum til íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu að gera hlé á æfingum og keppnum í öllum íþróttum. Með því lagðist íþróttastarf barna á höfuðborgarsvæðinu af. Það fór svo að Íslandsmótið í knattspyrnu karla og kvenna hófst ekki að nýju heldur var blásið af þegar enn harðari aðgerðir voru boðaðar í lok október. Valur varð Íslandsmeistari í Pepsi Max-deild karla og Breiðablik í Pepsi Max-deild kvenna. Þá hafa Íslandsmótin í handbolta og körfubolta ekki rúllað aftur af stað þegar þetta er skrifað en íþróttastarf barna var heimilað á ný þann 18. nóvember. Landsliðsþjálfararnir Erik Hamrén og Freyr Alexandersson sjást hér fylgjast með leik Íslands og Belgíu á Laugardalsvelli í október. Þeir voru í sóttkví og hefðu með rétt ekki átt að vera á vellinum.Vísir/Vilhelm Víðir fór út fyrir valdsvið sitt Næstu daga fór smituðum áfram fjölgandi. Þann 16. október náði faraldurinn hámarki sínu þegar 1186 voru í einangrun með virkt kórónuveirusmit innanlands. Höfðu þeir aldrei verið fleiri síðan veiran greindist fyrst hér á landi í byrjun febrúar. Rúmri viku áður, 8. október, hafði íslenska landsliðið í knattspyrnu karla mætt því rúmenska á Laugardalsvelli í undanúrslitum í umspili um sæti á EM á næsta ári. Strákarnir okkar höfðu betur og tryggðu sér þar með sæti í úrslitum umspilsins gegn Ungverjum. Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum og starfsmönnum liðsins að loknum Rúmeníuleiknum en fimm dögum síðar var allt starfsliðið komið í sóttkví. Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður landsliðsins, hafði greinst með kórónuveiruna. Leikmenn liðsins þurftu ekki að fara í sóttkví og fór því leikur gegn Belgíu í Þjóðadeildinni fram á Laugardalsvelli 14. október eins og fyrirhugað var. Þeir Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu liðinu í leiknum en Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, fylgdust með leiknum þar sem þeir sátu í glerbúri á Laugardalsvelli. Þeir voru enn í sóttkví. Í ljós kom að þeir höfðu fengið að mæta á völlinn með leyfi Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns, sem áður hafði starfað sem öryggisstjóri KSÍ. Á upplýsingafundi daginn eftir leikinn kvaðst Víðir hafa gert mistök með því að veita þjálfurunum þessa heimild. Hann hefði farið út fyrir valdsvið sitt og sagðist ekki myndu koma að fleiri ákvörðunum í faraldrinum sem vörðuðu íþróttamál. Sóttvarnalæknir kvaðst hins vegar ætla að óska eftir því að Víðir héldi áfram að þeim málum þar sem hann væri ómetanlegur í þeirri vinnu. Þríeykið Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller kemur hér til blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar fyrr í vetur. Með þeim á myndinni er Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna.Vísir/Vilhelm 22 af 25 skipverjum smitaðir af veirunni Þann 20. október tóku gildi breytingar á samkomutakmörkunum. Helstu breytingarnar voru þær að tveggja metra reglan var tekin upp um allt land, líkamsræktarstöðvum var leyft að bjóða upp á hóptíma að uppfylltum öllum skilyrðum um takmarkanir og þá varð íþrótta- og æskulýðsstarf barna, sem krafðist snertingar, formlega óheimilt með reglugerð. Og þó að breytingar á takmörkunum veki alltaf athygli þjóðarinnar á þessum skrýtnu tímum sem við höfum lifað á árinu 2020 þá voru þær ekki aðalfréttamálið í síðari hluta október heldur tvær hópsýkingar sem komu upp, annars vegar á ísfirska togaranum Júlíusi Geirmundssyni og hins vegar á Landakoti. Fyrst var greint frá smitum á Júllanum, eins og skipið er gjarnan kallað, þann 19. október. Þá bárust fregnir af því meirihluti áhafnarinnar hefði greinst með kórónuveiruna og var á leið inn til hafnar á Ísafirði. Tveimur dögum áður hafði verið komið til hafnar til að taka olíu og þá voru skipverjar skimaðir. Skipið hafði verið á veiðum í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni á því tímabili. Þegar það kom til hafnar 20. október var greint frá því að nítján af 25 skipverjum hefðu greinst með veiruna. Daginn eftir bættust þrír í hópinn svo alls smituðust 22 úr áhöfninni í túrnum. Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir út Júllann. Rætt var við hann fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar 21. október. Aðspurður vildi hann ekki svara því hvers vegna skipinu hafði ekki verið snúið til hafnar um leið og bera fór á veikindum skipverja nokkrum vikum fyrr. Um kvöldið sendi Hraðfrystihúsið svo frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að kalla hefði átt togarann til hafnar fyrr og senda alla áhöfn skipsins í skimun fyrir kórónuveirunni. „Það þekkti enginn þetta Covid“ Daginn eftir fengu skipverjarnir að fara frá borði. Þá sendi Sjómannasambandið frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að útgerðin hefði hafnað ítrekuðum beiðnum sóttvarnalæknis um að koma í land vegna veikindanna um borð. 23. október var sagt frá því að skipverjar hefðu margir hverjir verið alvarlega veikir á túrnum, með mikinn hita, öndunarerfiðleika auk fleiri þekktra einkenna Covid-19. „Þrátt fyrir þessu skýru einkenni um sýkingu töldu hvorki útgerð né skipstjóri ástæðu til að tilkynna um veikindin til sóttvarnaryfirvalda eða Landhelgisgæslu eða halda skipi til hafnar þannig að hægt væri að framkvæma sýnatöku og koma í veg fyrir frekari smit um borð,“ sagði í yfirlýsingu Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Lögreglan tók til skoðunar hvort ástæða væri til að rannsaka málið. 24. október steig svo fyrsti skipverjinn fram, 21 árs gamli hásetinn Arnar Gunnar Hilmarsson. Hann sagði meðal annars að erfitt hefði verið að horfa upp á þá sem veikastir urðu í túrnum. Þá óttaðist hann ekki að missa vinnuna með því að stíga fram; tjáning hans væri verðmætari en starfið. Daginn eftir barst yfirlýsing frá útgerðinni þar sem beðist var afsökunar á þeim mistökum að láta ekki Landhelgisgæsluna vita þegar veikindi komu upp um borð, líkt og útgerðum ber vegna kórónuveirufaraldursins. Þá sagði Einar Valur í hádegisfréttum Bylgjunnar að fyrirtækið hefði ekki viðhaft rétta verkferla. Þá hefði enginn þekkt „þetta Covid.“ „Þetta er nýtt. Það þekkti enginn þetta Covid. Við vissum ekki hvað það var. Og þetta er eins og ég segi, fyrsta Covidið sem kemur í fyrirtækið hjá okkur. Við höfum blessunarlega verið laus við þetta og ekki þekkt þetta. Þannig að þetta er okkur öllum mikið áfall og hugur okkar er hjá þeim sem hafa veikst,“ sagði hann. 26. október hóf lögreglan á Vestfjörðum sakamálarannsókn á málinu og daginn eftir tóku síðan fimm stéttarfélög sig saman og kærðu skipstjórann, Svein Geir Arnarsson, sem og útgerðina. Skýrslutökum lögreglu lauk 28. október og um þremur vikum seinna, þann 17. nóvember, lýstu skipverjar vantrausti á skiptstjórann og kröfðust þess að hann myndi hætta störfum á skipinu. 23. nóvember fór síðan fram sjópróf í málinu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða sem ítarlega var fjallað um hér á Vísi. Tugir sjúklinga og starfsmanna Landakots smituðust í hópsýkingunni sem þar kom upp í október og hafa þrettán látist sem smituðust í henni.Vísir/Vilhelm Einn viðkvæmasti hópur samfélagsins útsettur fyrir smiti Þann 22. október kom upp hópsýking á Landakoti en þar eru flestar öldrunarlækningadeildir Landspítalans til húsa. Fljótt varð ljóst að hópsýkingin væri mjög alvarlegur atburður enda er sjúklingahópurinn á Landakoti afar viðkvæmur fyrir kórónuveirunni. Samkvæmt skýrslu sem tekin var saman um hópsýkinguna greindust alls 98 tilfelli hjá starfsfólki og sjúklingum Landakots á tímabilinu 22.-29. október; 52 starfsmenn greindust smitaðir og 46 sjúklingar. Allt í allt er talið að rekja megi um 200 smit til sýkingarinnar en smit bárust á aðrar heilbrigðisstofnanir, á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka og Reykjalund. Þá hafa, þegar þetta er skrifað, þrettán einstaklingar látist sem smituðust af Covid-19 í hópsýkingunni. Tólf þeirra létust á Landspítalanum og einn á Sólvöllum. Allt frá því að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi hefur markmið yfirvalda verið að vernda viðkvæmustu hópana sem og heilbrigðiskerfið. Það er því ekki skrýtið að áleitnar spurningar hafi vaknað þegar hópsýkingin á Landakoti kom upp enda varð einn viðkvæmasti hópurinn útsettur fyrir smiti og álagið jókst í kjölfarið gríðarlega á Landspítalann. Neyðarstigi lýst yfir í fyrsta sinn Þann 25. október var Landspítali færður á neyðarstig í fyrsta sinn í sögu spítalans. Ástæðan var hópsýkingin á Landakoti en 50 sjúklingar og 30 starfsmenn höfðu þá greinst með kórónuveiruna. Spítalinn var undir gríðarlegu álagi. Neyðarstig er hæsta viðbúnaðarstig Landspítalinn og þýðir að spítalinn ráði ekki við atburðinn án utanaðkomandi aðstoðar. Nauðsynlegt er að virkja spítalann að fullu, eins og segir í viðbragðsáætlun spítalans. Á upplýsingafundi daginn eftir sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, stjórnendur og starfsfólk þar búa sig undir tvær erfiðar vikur. Alvarleg staða væri uppi á spítalanum og þróun atburðarásarinnar næstu dagi væri þrungin mikilli óvissu. Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans.Vísir/Egill Þá þakkaði hann starfsmönnum Landspítalans sem störfuðu við erfiðar aðstæður, sérstaklega á Landakoti. „Ég vona að samfélagið skilji og meti framlag þessa fólks til þessarar baráttu og prófi að setja sig í þeirra spor,“ sagði Páll. 26. október var öllum valkvæðum og ífarandi aðgerðum á landinu frestað til þess að koma í veg fyrir enn meira álag á Landspítalann. Hörðustu sóttvarnaaðgerðir til þessa Fyrsta andlátið tengt hópsýkingunni á Landakoti varð 27. október þegar sjúklingur á Landakoti lést vegna Covid-19. Þetta var tólfta andlátið af völdum Covid-19 hér á landi og annað andlátið í þriðju bylgjunni. Tíu létust í fyrstu bylgjunni í vor. Á upplýsingafundi 28. október sagði Þórólfur sóttvarnalæknir að við værum „á brúninni“ með að missa tökin á faraldrinum. 86 höfðu þá greinst með veiruna innanlands daginn áður. Þá lágu 58 á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og var einn þeirra á gjörgæslu. 954 virk innanlandssmit voru þann 27. október. Daginn eftir kvaðst heilbrigðisráðherra sjá fram á hertar aðgerðir. Tveimur dögum síðar voru þær hertu aðgerðir kynntar og reyndust þær vera hörðustu sóttvarnaaðgerðir sem stjórnvöld höfðu gripið til. Aðgerðirnar giltu fyrir landið allt enda hafði veiran nú skotið sér niður í flestum landshlutum. Sett var á tíu manna samkomubann, allt íþróttastarf varð óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Líkamsræktarstöðvum var gert að loka á ný og þá skyldu sundlaugar einnig loka en hingað til hafði sú regla aðeins gilt á höfuðborgarsvæðinu. Veitingastaðir með vínveitingaleyfi máttu ekki loka seinna en 21. Reglurnar tóku gildi á miðnætti þann 31. október og giltu í tæpar þrjár vikur. Daginn eftir greindi Landspítalinn frá því að tveir sjúklingar hefðu látist vegna Covid-19. Alls höfðu þá fimmtán látist í faraldrinum. „Þetta er það sem okkar allra besta fólk telur að dugi til að snúa veiruna niður í þessari lotu. En þetta virkar bara ef við snúum bökum saman, sýnum samstöðu og förum eftir reglunum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þar sem aðgerðirnar voru kynntar. 75 inniliggjandi á Landspítala þegar mest var Á þessum tímapunkti var hafin rannsókn innan Landspítalans á því hvernig það gerðist að upp kom hópsýking á Landakoti. Utanaðkomandi aðili var fenginn til að rannsaka málið og sagði Páll forstjóri vinnuna við rannsóknina flókna. Meðal annars þyrfti að taka ítarleg viðtöl við um hundrað manns og rekja alls kyns ferla. Innlögnum á Landspítala vegna Covid-19 hélt áfram að fjölga og þá létust fleiri af völdum sjúkdómsins næstu daga. Dagana 6.-7. nóvember náði sjúklingafjöldi á Landspítalanum með Covid-19 hámarki sínu þegar alls 75 lágu inni. Fjórir voru á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél. 8. nóvember greindi spítalinn frá því að tveir hefðu látist þar vegna Covid-19 og daginn eftir var greint frá þremur andlátum til viðbótar. Alls höfðu nú 23 látist úr sjúkdómnum hér á landi. Þrettán höfðu dáið í þriðju bylgjunni og mátti rekja tíu þeirra andláta til hópsýkingarinnar að því er fram kom í svari Landspítalans við fyrirspurn Vísis. „Fullkominn stormur“ á Landakoti Þann 12. nóvember var Landspítalinn færður af neyðarstigi yfir á hættustig. Var það mat viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar spítalans að tök hefðu náðst á hópsýkingunni þótt hún væri ekki enn yfirstaðin. Þá var einnig talið óhætt að hefja valkvæðar aðgerðir á ný. Daginn eftir var svo skýrsla spítalans um hópsýkinguna kynnt á blaðamannafundi. Ítarlega var greint frá niðurstöðum skýrslunnar hér á Vísi. Þar kom fram að „fullkominn stormur“ hafi verið hugtakið sem Lovísa Björk Ólafsdóttir, sérfræðilæknir í smitsjúkdómum og sýkingavörnum, notaði um þær aðstæður sem urðu þess valdandi að hópsýking braust út á Landakoti í október. Samkvæmt skýrslunni er talið að nokkrar sýkingar, að minnsta kosti þrjár, hafi borist inn á Landakot á skömmu tímabili um miðjan október. Þá voru aðstæður og aðbúnaður á Landakoti til þess fallin að auka líkur á dreifingu Covid-19 meðal starfsfólks og sjúklinga. Í niðurstöðum skýrslunnar er sérstaklega vikið að loftræstingu húsnæðisins, sem er ekki til staðar nema um glugga, mikinn fjölda sameiginlegra snertiflata dvalargesta, óhagstæðan aðbúnað starfsmanna, ófullnægjandi hólfaskiptingu starfseininga og sameiginleg not á ýmsum tækjabúnaði. Þannig hafi kæfisvefnsvél verið mögulegur smitvaldur. Einn sjúklingur hafði verið meðhöndlaður með vélinni frá 1. október þar til hópsýkingin uppgötvaðist þremur vikum seinna. Hann var einkennalaus en greindist síðar með Covid-19. Þar sem sjúkdómurinn smitast meðal annars með úðasmiti er talið mögulegt að smit hafi borist með vélinni. Ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna Á blaðamannafundinum sagði Páll forstjóri að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna. Þá væri markmiðið með rannsókninni ekki að leita að sökudólgi heldur að læra af málinu og finna leiðir til að koma í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig. Embætti landlæknis vinnur nú að annarri rannsókn á hópsýkingunni á Landakoti. Starfsmenn embættisins sinna rannsókninni auk þess sem Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, hefur verið fengið liðs við teymið vegna mikilla anna hjá embættinu. Rannsókn landlæknis mun taka einhverjar vikur og hefur heilbrigðisráðherra sagt að ekki sé búist við niðurstöðu á þessu ári. Málið sé flókið og mikið álag í heilbrigðisþjónustunni, meðal annars hjá embætti landlæknis. Mikil áhrif faraldursins á skólastarf Eins og við var að búast hefur þriðja bylgja faraldursins haft mikil áhrif á skólastarf. Meirihluti framhalds- og háskólanema hefur verið í fjarnámi á þessari önn þar sem ekki hefur verið unnt að sinna kennslu í staðnámi vegna fjöldatakmarkana og fjarlægðarmarka. Hafa menntamálayfirvöld lagt áherslu á það að reyna að halda úti eins eðlilegu skólastarfi í leik- og grunnskólum eins og mögulegt er. Þannig hefur ekki verið gripið til þess ráðs, eins og gert var í fyrstu bylgju faraldursins, að skerða skólastarf með þeim hætti að börn mættu bara nokkra klukkutíma í dag í skólann á hverjum degi eða annan hvern dag. Myndin er tekin í Réttarholtsskóla í haust en grímuskylda er í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum.Vísir/Vilhelm Á móti kemur að fjöldi nemenda og kennara hefur þurft að fara í sóttkví eftir að smit kom upp í hinum ýmsu skólum, bæði á leik- og grunnskólastigi. Samkvæmt tölfræði frá smitrakningarteymi almannavarna hafa þannig um tíu þúsund börn á leik- og grunnskólaaldri þurft í sóttkví. Þá hafa 106 börn á aldrinum núll til fimm ára greinst með kórónuveiruna í þriðju bylgjunni og 325 börn á aldrinum sex til fimmtán ára. Nýjasta dæmið um smit í grunnskóla er Öldutúnsskóli í Hafnarfirði. Í liðinni viku var greint frá því að 62 nemendur og fjórtán starfsmenn skólans þyrftu að fara í sóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp í skólanum. Grunnskólabörn hafa síðan þurft að vera með grímur í skólanum samkvæmt reglugerð. Þannig þurftu börn í 5.-10. bekk að vera með grímur í skólanum þar sem ekki var hægt að tryggja tveggja metra fjarlægðarmörk fyrstu tvær vikurnar í nóvember. Með breytingum á reglugerð var grímuskyldan afnumin fyrir 5.-7. bekk 18. nóvember en hún er enn við lýði í unglingadeildum. Gangar Háskóla Íslands hafa verið tómir á þessari haustönn þar sem nánast allt nám hefur verið í fjarnámi.Vísir/Vilhelm Stúdentar ósáttir við fyrirkomulag prófa Þá hefur undanfarnar vikur töluvert verið fjallað um fyrirkomulag lokaprófa við Háskóla Íslands og þá staðreynd að fjölmörg staðpróf fara fram í húsakynnum skólans næstu vikurnar. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum eru alls 460 lokapróf í skólanum nú í desember og af þeim eru 136 staðpróf. Stúdentar hafa harðlega gagnrýnt að skólinn haldi staðpróf í miðjum heimsfaraldri. Stúdentaráð sendi til að mynda frá sér yfirlýsingu í miðjum nóvember þar sem sagði að það væri „ekki boðlegt að neyða nemendur til að taka staðpróf og bjóða ekki upp á aðrar lausnir“. Þá ræddi Vísir við Helgu Lind Mar, framkvæmdastýru Stúdentaráðs, sem sagði að verið væri að stofna fólki í hættu út af hræðslu við svindl. Sagði Helga verulega óánægju meðal stúdenta og að verið væri að safna raunverulegum sögum frá fólki í tengslum við faraldurinn og staðpróf HÍ. „Þetta er fólk með alls konar sögur sem vill ekki þurfa að mæta í húsnæði skólans í desember til að taka próf. Fólk sem hefur ekki farið út úr húsi í allt haust, kannski með mjög alvarlega lungnasjúkdóma. Þetta er fólk sem býr á heimilum með háöldruðum foreldrum sínum sem eru mjög lasnir. Þarna er verið að skylda þau til að taka áhættur sem eru ekki nauðsynlegar,“ sagði Helga Lind. Síðustu daga hefur innanlandssmitum farið fjölgandi og velti Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ, því upp fyrir helgi hvort það þýddi ekki að endurmeta þyrfti þá ákvörðun að halda staðpróf í skólanum. Síðar sama dag sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, í samtali við mbl að staðprófunum yrði haldið til streitu. Skólinn færi í einu og öllu eftir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og sóttvarnalæknis og að staðprófin væru útfærð samkvæmt reglugerð. Þá hefðu þau próf sem hefðu verið haldin hingað til í byggingum háskólans gengið vel. „Ef nemendur eru í áhættuhópum þá komum við til móts við það með því að bjóða þeim upp á sérrými. Við höfum líka reynt að dreifa prófunum víða um háskólasvæðið. Við reynum líka að tryggja að það sé ekki hópamyndun fyrir próf, þannig að nemendur geti farið strax í stofur um leið og þeir komi í prófin. Við höfum brugðist við þessu eins vel og við getum. Við tökum þetta mjög alvarlega,“ sagði Jón Atli. Milljarða útgjöld ríkissjóðs vegna faraldursins Eins og flestir landsmenn ættu að þekkja hefur kórónuveirufaraldurinn haft gríðarlega mikil áhrif á efnahag landsins. Algjört hrun hefur orðið í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, ferðaþjónustu, og tug þúsundir eru án atvinnu. Til að bregðast við þessum efnahagsþrengingum hafa stjórnvöld farið í ýmsar mótvægisaðgerðir sem hafa það í för með sér að útgjöld ríkissjóðs hafa aukist til muna. Ríkið hefur þurft að taka lán og er áætlað að samanlagður halli ríkissjóðs á þessu ári og því næsta verði meira en 500 milljarðar króna. Í fjáraukalögum ársins 2020 er til að mynda gert ráð fyrir ríflega 55 milljarða króna aukningu vegna svokallaðra Covid-19-útgjalda. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráhðerra, með grímu í sæti sínu á Alþingi og líklegast að spritta sig.Vísir/Vilhelm Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins voru kynntar þegar fyrsta bylgjan gekk yfir. Þá voru meðal annars kynnt úrræði á borð við greiðslu launa á uppsagnarfresti, hlutabótaleiðina, lokunarstyrki og brúarlán til fyrirtækja. Í þriðju bylgju faraldursins hefur hlutabótaleiðin verið framlengd, fyrst til áramóta og svo til loka maí á næsta ári. Þá hafa lokunarstyrkirnir einnig verið framlengdir og komið á laggirnar svokölluðum tekjufallsstyrkjum sem eiga að nýtast einyrkjum og smærri rekstraraðilum, til dæmis leiðsögumönnum og sviðslistafólki sem hefur orðið fyrir miklu tekjutapi í faraldrinum. Í byrjun september samþykkti Alþingi einnig ríkisábyrgð á lánalínum til flugfélagsins Icelandair. Starfsemi félagsins hefur verið í skötulíki meirihluta ársins vegna faraldursins og reri það lífróður sem farið var í um miðjan september. Ríkisábyrgð á lánalínum var talin afar mikilvæg fyrir útboðið sem gekk á endanum vel. Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í félaginu og því tókst því að ná markmiði sínu sem var að safna 23 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Um miðjan nóvember kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðapakka sem hún kallar „Viðspyrna fyrir Ísland“. Þar má finna almennar og sértækar félagslegar aðgerðir og viðspyrnuaðgerðir fyrir fyrirtæki. Í þessum aðgerðum felst til dæmis að atvinnuleysisbætur verða hækkaðar á næsta ári og atvinnuleitendur fá desemberuppbót í ár. Þá verða skerðingamörk barnabóta hækkuð og viðbótarstuðningur til tómstundaiðkunar barna af lágtekjuheimilum framlengdur. Rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði í mánuðinum. Áskilið er að tekjufallið stafi af heimsfaraldri kórónuveiru eða aðgerðum stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar. Þá er meðal annars stefnt að því að fara í aðgerðir til að efla félagsstarf aldraðra og sporna gegn félagslegri einangrun þeirra. Nánar má lesa um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hér á sérstakri síðu á vef stjórnarráðsins. Beðið í röð fyrir utan Elko á svörtum föstudegi. Jólaverslunin er hafin og það þarf að vera með grímu og passa tvo metrana. Verslunarmenn hafa hins vegar gagnrýnt tíu manna samkomubannið og hafa kallað eftir að fleiri viðskiptavinum verði leyft að koma í búðir.Vísir/Vilhelm Vonir um tilslakanir urðu að engu Þann 18. nóvember var slakað á þeim hörðu samkomutakmörkunum sem tóku gildi í lok október. Þjónusta sem krefst nálægðar og/eða snertingar var heimiluð á ný og íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri var einnig leyft. Þá fóru fjöldatakmörk í öllum hópum á framhaldsskólastigi upp í 25 manns með tveggja metra reglu sem hingað til hafði aðeins verið í boði fyrir 1. árs nema. Tíu manna samkomubann hélst hins vegar óbreytt og líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, barir og skemmtistaðir máttu ekki opna. Aðventan er gengin í garð og landsmenn töldu sig vera farna að sjá fyrir endann á þriðju bylgjunni með hörðum sóttvarnaaðgerðum. Vonir voru bundnar við að það væri hægt að létta enn frekar enda hafði smitum farið fækkandi fyrstu vikurnar í nóvember. Síðustu viku eða svo hefur faraldurinn hins vegar verið í uppsveiflu á ný og í gær var tilkynnt um óbreyttar aðgerðir til og með 9. desember. Hárgreiðslustofur opnuðu á ný um miðjan nóvember svo vonandi ná sem flestir að komast í jólaklippinguna.Vísir/Vilhelm Bráðum koma blessuð jólin... Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, var einn þeirra sem greindist með veiruna í liðinni viku en hann smitaðist af konunni sinni. Ekki hefur tekist að rekja smitið. Víðir er nú á áttunda degi veikinda en um liðna helgi sagði hann frá því hverja hann hefði hitt helgina á undan. Konan hans greindist með Covid-19 mánudaginn 23. nóvember og tveimur dögum síðar greindist Víðir. Í færslu á Facebook-síðu sinni sagði Víðir frá gestagangi á heimili sínu helgina áður en hjónin greindust. Alls þurftu tólf manns að fara í sóttkví í tengslum við smit þeirra og hafa fimm aðrir úr hópnum greinst með veiruna. Þó nokkuð hefur borið á gagnrýnisröddum í garð Víðis vegna gestagangsins heima hjá honum og hefur Þórólfur sóttvarnalæknir sagt að það sé ekki endilega æskilegt að fá tólf gesti í heimsókn á 48 klukkustunda tímabili. Hins vegar sé það svo að fólk þurfi að geta umgengist til dæmis fjölskylduna sína; sinnt börnum og foreldrum. Það þurfi einfaldlega að gæta vel að öllum einstaklingsbundnum sóttvörnum. Aðventan og jólin verða vafalaust ólík því sem eigum að venjast og hafa sóttvarnayfirvöld og almannavarnir hafa gefið út leiðbeiningar um hátíðarhöld um jól og áramót. Almenningur er meðal annars hvattur til að velja sér jólavini til að vera með í „jólakúlu“. ...og vonandi líka bóluefni Milljón dollara spurningin er auðvitað hvenær lífið verður eðlilegt aftur. Hvenær getum við heimsótt ömmu á hjúkrunarheimilið, hvenær komumst við í sund, til útlanda og getum haldið upp á afmæli í fjölskyldunni? Meira en 5000 manns hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi og 27 manns látist vegna Covid-19. Á heimsvísu hafa yfir sextíu milljónir manna smitast og um ein og hálf milljón látist. Um allan heim eru miklar vonir bundnar við bóluefni gegn sjúkdómnum. Niðurstöður rannsókna og þróunar bóluefna lyfjafyrirtækjanna Pfizer, Moderna og AstraZeneca gefa vonir um að hægt verði að hefja bólusetningar um mitt næsta ár. Yfirvöld hér á landi hafa byrjað undirbúning bólusetningar gegn Covid-19. Listi yfir þá sem hafa forgang í bólusetningu hefur til að mynda verið gefinn út. Hvenær bólusetning hefst hins vegar nákvæmlega er alls óvíst enda eiga eftirlitsstofnanir eftir að gefa leyfi fyrir mögulegum bóluefnum. Bæði Pfizer og Moderna hafa sótt um neyðarleyfi fyrir sín bóluefni. Það er því ekkert svar við milljón dollara spurningunni. Þangað til þurfa landsmenn að þreyja þorrann, að öllum líkindum í bókstaflegri merkingu að lokinni aðventu, jólum og áramótum.