Skoðun

Grímulaust sumar

Marta Eiríksdóttir skrifar

Ólafur Darri var í viðtali við Bylgjuna í þessari viku en hann er staddur við tökur í Ástralíu þar sem hann varð fyrst að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins, ég endurtek 2 vikur inni á lokuðu hótelherbergi, mátti ekkert fara út í þennan tíma. Hann hafði að vísu svalir og sagði auðvitað þetta hafa verið skrítið en svona voru lög og reglur þar í landi sem hann að sjálfsögðu virti og sagðist bara hafa haft það ágætt og notið einverunnar. Svo losnaði hann út og fór grímulaus út í samfélagið en það er vel hægt því Ástralir leyfa engar óþarfa ferðir útlendinga inn í landið og kvóti er á fjölda fólks á dag inn í landið. Túristaheimsóknir verða að bíða betri tíma segja þeir, því verið er að vernda líf almennings og leyfa þeim að njóta þess að vera frjáls og grímulaus í landi sem hefur lokuð landamæri!

Ég frétti af íslenskri fjögurra manna fjölskyldu sem fór í tveggja vikna sóttkví á hóteli í Perth, Ástralíu. Þeim var fylgt af lögreglu á hótelið frá flugvellinum. Á hótelinu voru engir opnanlegir gluggar né svalir, enginn útivistartími, þrjár máltíðir á dag og öryggisverðir á hverri hæð. Það var hringt í þau á tveggja daga fresti til að athuga hvernig þau höfðu það. Þau þurftu öll fjögur að fara í tvær covid skimanir. Konan sagði þetta hafa verið krefjandi verkefni en vel þess virði til að lifa í samfélagi með engu covid.

Maður nokkur var á ferðalagi í Mongolíu og sat þar inni í sóttkví á hótelherbergi í þrjár vikur!!

Norðmenn skikka fólk sem kemur til Noregs í 10 daga sóttkví og leyfa engar óþarfa túristaferðir inn í landið núna. Landið er því lokað að vissu marki!

- Gylfi Zoega hagfræðingur segir um okkur Íslendinga að við séum 90% hagkerfi Íslands þessa dagana vegna þess að við erum ekki að ferðast til útlanda og eyðum því meira af peningum innanlands í allskonar upplifanir og verslun. Við þurfum sem sagt ekki erlenda túrista vegna hagkerfisins eins og staðan er, segir hann.

Þórólfur biður landsmenn að fara ekki í nauðsynjalaus ferðalög til útlanda vegna aðstæðna í heiminum. Bíddu, en afhverju megum við þá ekki loka á nauðsynjalaus ferðalög hingað til lands, láta þetta gilda í báðar áttir? Væri það ekki skynsamlegt eins og staðan er núna í heiminum?

Maður spyr sig. Getum við gert þetta? Hugsað meira um heildina; Um okkur sjálf? Verndað í leiðinni heilsu almennings, þeirra sem búsettir eru á Íslandi? Eygja þannig von um gott sumar. Geta gert allt sem við viljum innanlands í vor og sumar, með strangara hliði að landamærum okkar? Njóta þess miklu betur að vera eyland. Grímulaus og frjáls í eigin landi. Lifa þokkalega eðlilegu lífi á eyjunni okkar, á meðan veirufaraldurinn gengur yfir í umheiminum.

Höfundur er með diplómagráðu í ferðamálafræðum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×