You: Sjónvarpsheróín í boði Netflix Heiðar Sumarliðason skrifar 1. nóvember 2021 14:00 Joe og Love flytja í úthverfi. Þriðja þáttaröðin um vingjarnlega raðmorðingjann Joe Goldberg er nú komin á Netflix. Þegar við skildum við hann í lok annarrar þáttaraðar hafði hann barnað hina álíka gölnu Love. Nýju þættirnir hefjast þar sem hin nýgiftu Joe og Love hafa komið sér fyrir í öruggasta úthverfi Kaliforníu-ríkis, þar sem þau ætla að ala upp son sinn Henry í stöðugu og ástríku umhverfi. Það líður hinsvegar ekki að löngu þar til gamlir siðir og kenndir fara að láta á sér kræla. Fljótlega fer því allt í kaldakol og fórnarlambatalan hækkar ört. Forfallinn aðdáandi Það voru gleðitíðindi fyrir mig þegar Netflix ræsti streymið fyrr í mánuðinum og bókelski raðmorðinginn var aftur kominn í sjónvarpið mitt, því verð ég að játa að ég kem ekki að þessari þriðju þáttaröð sem hlutlaus gagnrýnandi, heldur mikill aðdáandi þáttanna. Ég var eilítið efins við upphaf áhorfsins hvort eitthvað vitrænt væri eftir af sögu svo furðulegrar hetju, sem Joe sannarlega er. Mjög fljótlega kom í ljós að nóg er eftir í sarpinum og sem betur fer áttuðu höfundarnir sig á því að þróa þyrfti þáttaröðina og taka öðruvísi snúning á efnið. Tilfærsla Love Quinn frá því að vera viðfang þráhyggju Joes yfir í að vera önnur aðalpersónan, gefur You auka lyftu sem ýtir þáttunum úr frekar góðir flokknum upp í frábærir. Þetta gefur höfundunum færi á því að hvíla Joe eilítið oftar með því að færa fókusinn meira yfir á Love. Hún er sem betur fer jafnvel bilaðri en nýi eiginmaðurinn, því er framvinda sögu hennar eins og best verður á kosið. Joe eignast nýjan „vin.“ Hvernig höndlar sá ástsjúki venjulegt líf? Í þessari þriðju þáttröð er unnið út frá spurningunni hvernig hinn ástsjúki Joe höndlar það að vera í hefðbundnu einkvæmissambandi. Hvernig honum gengur að takast á við að missa úr lífi sínu spennuna sem fylgir því að plotta og plana, njósna og læðupokast. Svarið við því er augljóst: Illa. Enda væri enginn þáttur ef svo væri ekki. Ég veit að það hljómar hálf sjúkt að hetjan sem við fáum ekki nóg af sé eltihrellir sem myrðir fólk sem þvælist fyrir honum. Það er í raun fullkomlega rökrétt. Hvernig í fjáranum náðu höfundar þáttanna áhorfendum í þetta ástarsamband við morðingjann Joe? Ég fór því til baka og skoðaði fyrsta þáttinn frá árinu 2018 og niðurstaðan er sú að við vorum fengin til að fjárfesta í brenglaðri hetjuför hans með því að umkringja hann enn brenglaðra fólki. Joe aðstoðar lítinn nágrannadreng sem á ofbeldisfullan stjúpföður, kærasti stelpunnar sem hann er skotinn í (Beck) er hálfviti og vinir hennar eru andstyggilegir. Svo opnar hann dyr fyrir gamlar konur og er almennt góður gaur (fyrir utan það að brjótast inn til Beck, róta í dótinu hennar, fylgjast með skilaboðasamskiptum hennar, fróa sér fyrir utan gluggann hennar o.s.frv.). Höfundarnir halda hér í þriðju þáttaröðinni áfram að gabba okkur til að vera hliðholl Joe með því að láta alla í kringum hann vera andstyggilega og falska. Því erum við ekki sérlega sorgmædd þegar hann drepur þetta fyrirlitlega fólk. Við eigum þó að vita betur, hann er slæmur náungi (m.a.s. aðalleikarinn er sífellt að tjá sig um það), en samt getum við ekki hætt að fylgjast með honum og halda með. Við verðum að fá næsta skammt eins og fíklar. Þetta segir e.t.v. eitthvað um hversu brenglaður og auðmeðfærilegur mannshugurinn er. Hinn fullkomni Penn Badgley Smekklegt val á leikara í aðalhlutverk hjálpar einnig til við að ná áhorfendum á band Joes. Penn Badgley leikur Joe Goldberg og fyllir í öll boxin sem þarf til að fá áhorfandann í lið með sér. Hann er myndarlegur án þess að vera ógnandi, með góðlega áru og blíður í framkomu. Virkar eins og hinn fullkomni tengdasonur, en þegar öllu er á botninn hvolft er hann sannkallað flagð undir fögru skinni. Nú hefur verið tilkynnt að fjórða þáttaröðin er í burðarliðnum, sem bæði gleður mig og fyllir ótta. Hvert getur saga Joe Goldberg eiginlega farið í kjölfar niðurlags þessarar þriðju þáttaraðar? Við erum búin að prófa Joe í borg og úthverfi, einhleypan og í hjónabandssælu. Hvað er eftir og hvernig er hægt að gera það spennandi? Maður vonar það besta. Niðurstaða: Ótrúlega spennandi og ávanabindandi þriðja þáttaröð af You er mögulega sú besta hingað til. Hér að neðan er hægt að hlýða á Heiðar Sumarliðason ræða við sviðslistakonuna Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur um You. Einnig er hægt að fá Stjörnubíó á helstu hlaðvarpsveitum. Stjörnubíó Mest lesið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Ragnhildur og Hanna Katrín kveðja Búseta Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Nýju þættirnir hefjast þar sem hin nýgiftu Joe og Love hafa komið sér fyrir í öruggasta úthverfi Kaliforníu-ríkis, þar sem þau ætla að ala upp son sinn Henry í stöðugu og ástríku umhverfi. Það líður hinsvegar ekki að löngu þar til gamlir siðir og kenndir fara að láta á sér kræla. Fljótlega fer því allt í kaldakol og fórnarlambatalan hækkar ört. Forfallinn aðdáandi Það voru gleðitíðindi fyrir mig þegar Netflix ræsti streymið fyrr í mánuðinum og bókelski raðmorðinginn var aftur kominn í sjónvarpið mitt, því verð ég að játa að ég kem ekki að þessari þriðju þáttaröð sem hlutlaus gagnrýnandi, heldur mikill aðdáandi þáttanna. Ég var eilítið efins við upphaf áhorfsins hvort eitthvað vitrænt væri eftir af sögu svo furðulegrar hetju, sem Joe sannarlega er. Mjög fljótlega kom í ljós að nóg er eftir í sarpinum og sem betur fer áttuðu höfundarnir sig á því að þróa þyrfti þáttaröðina og taka öðruvísi snúning á efnið. Tilfærsla Love Quinn frá því að vera viðfang þráhyggju Joes yfir í að vera önnur aðalpersónan, gefur You auka lyftu sem ýtir þáttunum úr frekar góðir flokknum upp í frábærir. Þetta gefur höfundunum færi á því að hvíla Joe eilítið oftar með því að færa fókusinn meira yfir á Love. Hún er sem betur fer jafnvel bilaðri en nýi eiginmaðurinn, því er framvinda sögu hennar eins og best verður á kosið. Joe eignast nýjan „vin.“ Hvernig höndlar sá ástsjúki venjulegt líf? Í þessari þriðju þáttröð er unnið út frá spurningunni hvernig hinn ástsjúki Joe höndlar það að vera í hefðbundnu einkvæmissambandi. Hvernig honum gengur að takast á við að missa úr lífi sínu spennuna sem fylgir því að plotta og plana, njósna og læðupokast. Svarið við því er augljóst: Illa. Enda væri enginn þáttur ef svo væri ekki. Ég veit að það hljómar hálf sjúkt að hetjan sem við fáum ekki nóg af sé eltihrellir sem myrðir fólk sem þvælist fyrir honum. Það er í raun fullkomlega rökrétt. Hvernig í fjáranum náðu höfundar þáttanna áhorfendum í þetta ástarsamband við morðingjann Joe? Ég fór því til baka og skoðaði fyrsta þáttinn frá árinu 2018 og niðurstaðan er sú að við vorum fengin til að fjárfesta í brenglaðri hetjuför hans með því að umkringja hann enn brenglaðra fólki. Joe aðstoðar lítinn nágrannadreng sem á ofbeldisfullan stjúpföður, kærasti stelpunnar sem hann er skotinn í (Beck) er hálfviti og vinir hennar eru andstyggilegir. Svo opnar hann dyr fyrir gamlar konur og er almennt góður gaur (fyrir utan það að brjótast inn til Beck, róta í dótinu hennar, fylgjast með skilaboðasamskiptum hennar, fróa sér fyrir utan gluggann hennar o.s.frv.). Höfundarnir halda hér í þriðju þáttaröðinni áfram að gabba okkur til að vera hliðholl Joe með því að láta alla í kringum hann vera andstyggilega og falska. Því erum við ekki sérlega sorgmædd þegar hann drepur þetta fyrirlitlega fólk. Við eigum þó að vita betur, hann er slæmur náungi (m.a.s. aðalleikarinn er sífellt að tjá sig um það), en samt getum við ekki hætt að fylgjast með honum og halda með. Við verðum að fá næsta skammt eins og fíklar. Þetta segir e.t.v. eitthvað um hversu brenglaður og auðmeðfærilegur mannshugurinn er. Hinn fullkomni Penn Badgley Smekklegt val á leikara í aðalhlutverk hjálpar einnig til við að ná áhorfendum á band Joes. Penn Badgley leikur Joe Goldberg og fyllir í öll boxin sem þarf til að fá áhorfandann í lið með sér. Hann er myndarlegur án þess að vera ógnandi, með góðlega áru og blíður í framkomu. Virkar eins og hinn fullkomni tengdasonur, en þegar öllu er á botninn hvolft er hann sannkallað flagð undir fögru skinni. Nú hefur verið tilkynnt að fjórða þáttaröðin er í burðarliðnum, sem bæði gleður mig og fyllir ótta. Hvert getur saga Joe Goldberg eiginlega farið í kjölfar niðurlags þessarar þriðju þáttaraðar? Við erum búin að prófa Joe í borg og úthverfi, einhleypan og í hjónabandssælu. Hvað er eftir og hvernig er hægt að gera það spennandi? Maður vonar það besta. Niðurstaða: Ótrúlega spennandi og ávanabindandi þriðja þáttaröð af You er mögulega sú besta hingað til. Hér að neðan er hægt að hlýða á Heiðar Sumarliðason ræða við sviðslistakonuna Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur um You. Einnig er hægt að fá Stjörnubíó á helstu hlaðvarpsveitum.
Stjörnubíó Mest lesið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Ragnhildur og Hanna Katrín kveðja Búseta Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira