Skoðun

Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði með nýja nálgun í dagvistun

Kristín Thoroddsen skrifar

Næsta haust mun leikskólaplássum í Hafnarfirði fjölga umtalsvert með færanlegum kennslustofum og byggingu leikskóla í nýjasta hverfi okkar, Hamranesi. Mikill fjöldi ungra fjölskyldna býr í Hafnarfirði og er bæjarfélagið að byggja upp ný hverfi þar sem börnum mun fjölga enn frekar. Hafnarfjörður býður upp á allt það sem fjölskyldur kalla eftir, sterka leik- og grunnskóla, faglegt dagforeldrastarf, öflugan tónlistarskóla og mikinn fjölda íþróttafélaga með fjölbreyttar íþróttagreinar. Þegar kemur að dagvistun okkar yngstu íbúa vill Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði fjölga valkostunum.

Í dag hafa foreldrar val um að sækja fyrst um hjá dagforeldrum og síðan í leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur um 12 mánaða aldur barns. Sjálfstæðisflokkurinn vill bjóða fjölskyldum val um nokkrar leiðir að fæðingarorlofi loknu. Komið verður á foreldragreiðslum fyrir þá foreldra sem kjósa að vera heima með barni sínu. Áfram verður stutt við dagforeldra til að tryggja að slík þjónusta sé í boði og einnig verður unnið að því að styrkja enn frekar leikskóla bæjarins, innrita yngri börn og ganga skrefi lengra í að gera starfsumhverfi hafnfirska leikskóla enn betra, bæði fyrir börn og starfsfólk. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram standa með börnum og starfsmönnum og vinna að því að auka sveigjanleika þegar kemur að innritun og vistunartíma barna, sem mun einnig leiða af sér aukinn sveigjanleika í vinnutíma starfsmanna.

Endurskoðum skipulag leikskóladagsins

Eitt af forgangsverkefnum nýs kjörtímabils er að samræma verklag leik- og grunnskóla. Afmarka þarf betur skóladag leikskólanna í samvinnu við fagfólk leikskólanna, vinna að skipulagi sem líkist meira skipulagi grunnskóla og halda áfram að þróa leikskólana í átt að því sem ávarpað er í aðalnámskrá leikskóla. Í framtíðinni þarf síðan að skoða í samvinnu við ríkisvaldið hvort gerlegt er að námshluti leikskólanna verði gjaldfrjáls. Með samvinnu við starfsfólk leikskólanna og þekkingu frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins munum við bæta enn frekar starfsumhverfi barna og starfsfólks og þannig tryggja að leikskólar Hafnarfjarðar séu framúrskarandi vinnustaðir þar sem hagsmunir hafnfirskra barna eru ávallt í fyrirrúmi.

Höfundur er formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar og í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×