Skoðun

Fækkar konum í bæjar­stjórn Hafnar­fjarðar?

Orri Björnsson skrifar

Það er áhugavert að skoða framboðslista flokkanna í Hafnarfirði. Það fyrsta sem vekur athygli er að aðeins ein kona er oddviti flokks, það er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og leiðtogi okkar Sjálfstæðismanna. Hún hlaut glæsilega kosningu í fjölmennu prófkjöri og hlutfallslega fleiri atkvæði í fyrsta sætið en nokkur oddviti D-listans hefur áður hlotið. Hinir flokkarnir völdu allir, eftir mislýðræðislegum leiðum, karla til að leiða sína lista. Einn þeirra hélt t.d. prófkjör og þar urðu karlar í þremur efstu sætunum. Sá flokkur hefur orðið að setja sérstakar reglur til að tryggja hag kvenna og því voru konur færðar í annað og fjórða sætið og karlarnir niður. Aðeins þannig náðist að tryggja hlut kvenna.

Hvernig viltu að bæjarstjórnin líti út?

Á síðustu áratugum hafa kynjahlutföll í stjórnmálum jafnast mjög mikið. Það hallar orðið lítið á kynin og flestum finnst það eðlilegt. En í Hafnarfirði er staðan sú að konum í bæjarstjórn gæti fækkað verulega og þær jafnvel orðið tvær í stað sex í dag. Ef allir flokkar ná kjöri í bæjarstjórn er það líkleg niðurstaða. Auðvitað á kjör í bæjarstjórn ekki að ráðast af kyni en við hljótum þó að vera sammála um að ójafnvægi af þessu tagi er óæskilegt og raunar illa boðlegt árið 2022.

Hvernig komum við í veg fyrir svona slys?

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins skilaði konum í fjögur af sex efstu sætunum, reynslumiklum, kraftmiklum og hæfum konum. Þær tóku þátt í fjölmennu prófkjöri án allra kynjakvóta og girðinga. Sjálfstæðismenn eru jafnréttissinnar og velja sína fulltrúa án þess að kynferði ráði för – við veljum okkar hæfasta fólk. Ef þú vilt tryggja hlut kvenna í komandi bæjarstjórn er því augljós kostur að styðja þessar konur og setja X við D á kjördag. Þannig tryggir þú jafnvægi í bæjarstjórn.. Það er það besta fyrir Hafnarfjörð.

Höfundur skipar 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×