Skoðun

Ekkert plan og reksturinn ó­sjálf­bær

Sindri Kristjánsson skrifar

Meirihlutinn á Akureyri kynnti svo vægt sé til orða tekið óábyrga fjárhagsáætlun á opnum fundi í gær. Samkvæmt framtíðarsýn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og L-lista munu skuldir sveitarfélagsins aukast, hallarekstur verður viðvarandi og á sama tíma er ekki að sjá að ráðast eigi í brýn úrræði fyrir barnafjölskyldur í bænum.

Í fjárhagsáætluninni er þess getið að taka eigi ný lán fyrir um 10.5 milljarða króna á kjörtímabilinu og greiða upp lán fyrir um 7.2 milljarða. Þrátt fyrir þessa hreinu lántöku upp á 3.3 milljarða króna er bæjarsjóður rekinn með 1.2 milljarða tapi á tímabilinu. Þetta eitt og sér hlýtur að vekja fólk til umhugsunar hvort hér sé á ferðinni sú ábyrga og trausta fjármálastjórn sem m.a. Sjálfstæðisflokkurinn stærir sig ávallt af og lofað var fyrir kosningar.

Tökum dæmi. Í stað þess að sníða fjárhagsáætlun bæjarins að aðstæðum barnafjölskyldna, sem standa margar hverjar frammi fyrir síhækkandi útgjöldum um þessar mundir er byrðunum velt yfir á alla bæjarbúa, óháð stöðu og fjárhag, með hækkandi fasteignamati og þar með stórhækkunar fasteignagjalda á næsta ári auk hækkunar á öllum helstu gjaldskrám bæjarins.

Tökum annað dæmi. Í þeirri áætlun sem kynnt var fyrir bæjarbúum í gær er ekki á nokkurn hátt hægt að sjá að ráðast eigi í byggingu nýs leikskóla á kjörtímabilinu. Samt sem áður er öllum ljóst að fljótt og örugglega stefnir í frekari skort á leikskólaplássi á Akureyri ef ekki verið haldið áfram að byggja upp innviði bæjarins í þágu fjölskyldufólks. Þrátt fyrir óljós fyrirheit sem fram hafa komið af hálfu fulltrúa meirihlutans um tilfærslur á fjármagni milli umræðna sjá allir sem vilja að bygging nýs leikskóla mun aldrei kosta minna en einn milljarð. Meirihlutinn á Akureyri ákveður einfaldlega að skila auðu í þessa mikilvæga málefni. Framtíðarsýnin á þessu sviði er engin.

Þessi fyrsta fjárhagsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og L-lista ber vott um metnaðarleysi fyrir þeim aðkallandi verkefnum sem bíða á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir aukna lántöku ætlar meirihlutinn að reka bæjarsjóð með tapi. Þess konar fjármálaloftfimleikar virka ekki í heimilisbókhaldi, virka ekki í rekstri fyrirtækja og sannarlega virka ekki í rekstri sameiginlegra sjóða bæjarbúa.

Höfundur er varabæjarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×