Skoðun

Skepnuskapur eða barn síns tíma?

Kristján Þorsteinsson skrifar

Sem veitingamaður til áratuga bauð ég lengi vel upp á hvalkjöt á mínum stöðum. Fyrir nokkrum árum tók ég svo upp á að hætta því. Aðallega því afskaplega fáir vildu kaupa það. En líka því það var í engu sérstöku uppáhaldi hjá mér sjálfum og vegna þess að reglulega var kúnnum misboðið yfir því að hvalkjöt væri yfir höfuð á matseðlinum og sagði frá því á netinu. Sem þýddi að ég tapaði viðskiptum.

Nokkuð hefur verið rætt og skrafað um hvalveiðar undanfarnar vikur eftir að út kom skýrsla sem sýnir svart á hvítu að hvalir við Íslandsstrendur eru drepnir með mjög ógeðfelldum hætti og sennilega í trássi við lög um dýravernd. Það þykir mér ekki sérlega geðslegt.

Ofan á það birtust svo fréttir um að hvalveiðibröltið hjá eina fyrirtækinu sem veiðarnar stunda hér á landi væri rekið með tapi. Gott og vel. Ekki er það mitt mál hvernig fólk vill fara með fé sitt - en persónulega ætti ég erfitt með að halda úti veitingastað sem enginn sækir.

Síðan hafa komið upp fjölmörg önnur rök sem öll hníga að því að það sé einfaldlega kominn tími til að hætta þessu. Til að mynda þau rök að hvalir séu mjög verðmætir loftslaginu. Og að það sé meira og minna enginn markaður fyrir hvalkjöti lengur. Og að þetta hafi vond áhrif á ferðaþjónustuna í landinu vegna neikvæðrar fréttaumfjöllunar í útlöndum. Svo mætti áfram telja.

Er ekki mál til komið að við hættum að rífast um þetta og föllumst á það að hvalveiðar eru einfaldlega barn síns tíma?

Hættum þessu bara.

Höfundur er veitingamaður í borginni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×