Skoðun

Erum við virkilega svona fátæk?

Guðrún Sævarsdóttir skrifar

Menntaskólinn á Akureyri hefur mjög gott orðspor. Sem prófessor í verkfræði veit ég til dæmis að hann er einn af þeim framhaldsskólum sem best undirbýr nemendur fyrir háskólanám í verkfræði. MA á sér um hundrað ára sögu sem menntaskóli, og er mikilvægur burðastólpi mennta og menningar utan höfuðborgarsvæðisins. Akureyri er sá byggðakjarni sem helst myndar mótvægi við hið altumlykjandi aðdráttarafl Reykjavíkur. Sveitafélagið er nægjanlega burðugt til að hafa bæði háskóla, sögulegan menntaskóla, öflugan verkmenntaskóla, leikfélag og ótal margt annað sem hefur aðdráttarafl. Akureyri hefur því burði til að vaxa sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið, og styðja við alla byggð á norðan og austanverðu landinu.

Það er ekki sjálfgefið, í okkar strjálbýla landi, að hafa þetta mótvægi. MA og öll þau verðmæti sem skólinn færir svæðinu og landinu í heild varð ekki til sem hluti af byggðastefnu, heldur er hann afrakstur heillar aldar sögu og þróunar. Það þarf bara eitt pennastrik í ráðuneyti í Reykjavík til að þurrka þau verðmæti út. Það kemur á óvart að Framsóknarflokkurinn vilji veikja Akureyri með þessum hætti.

Ég tala oft fyrir mikilvægi verkmenntunar, en það hentar ekki öllum framhaldsskólanemum að fara í fjölbrautakerfi. Það að bæta við nokkrum námskeiðum svo hægt sé að segja að hinn nýji VMA bjóði sömu námsbrautir, er bara svo langt frá því að koma í staðinn.

Verði sameining MA og VMA keyrð í gegn veikjum við Norðurland sem búsetukost, við fækkum valmöguleikum á landsbyggðinni og Ísland verður fábreyttara, flatara, leiðinlegra.

Erum við virkilega svo fátæk að við þurfum að gera þetta?

Höfundur er verkfræðingur og prófessor. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×