Skoðun

Fyllirí í heilsulindum Íslands

Marta Eiríksdóttir skrifar

Túristi kom til landsins og hlakkaði mikið til að prófa allar heilsulindirnar. Hann var á leiðinni til Íslands í heilsuferð. Hann var búinn að ímynda sér allar þessar heitu náttúrulaugar Íslands og hvernig umgjörðin var í kringum þær. Túristinn átti von á því að þegar komið væri ofan í heita lind þá sæi hann fólk í sömu erindum og hann, að njóta þess að hlúa að góðri heilsu, losa um stirða liði og slaka á í heitu vatninu án áfengis og annarra efna.

Túristinn átti von á því að vera boðið upp á heilsudrykki unna úr íslensku grænmeti eða erlendum ávöxtum. Hann átti jafnvel von á því að upplifa hreinustu mynd heilsusamlegrar umgjörðar í öllum heilsulindum Íslands. Annað kom á daginn þegar hann byrjaði að aka á milli heilsulindanna í landinu.

Túristinn vissi að það kostaði hálfan handlegginn að fara ofan í Bláa lónið en hann langaði samt að prófa þessa heimsfrægu náttúrulaug Íslendinga, þessa fyrstu sem komst í heimsfréttirnar vegna sérstöðu sinnar og lækningamáttar fyrir allskonar húðsjúkdóma.

Túristinn var búinn að kynna sér landið mjög vel og hvar hægt var að komast ofan í heitar laugar. Honum fannst þetta stórmerkilegt land sem átti svona gjöfular heitar vatnslindir, heitt vatn beint úr iðrum jarðar. Íslendingar hlytu að vera heilsusamlegasta þjóð í heimi með aðgang að svona tærri og hreinni náttúru allt um kring, allt árið um kring.

Túristinn ók á milli þekktra auglýstra heilsulinda, þær sem auglýstu sig sem staði þar sem hægt var að finna hugarró og slökun á heilsusamlegan hátt með því að liggja ofan í heitu vatninu sem innihélt allskonar frumefni jarðar. Eitthvað alveg sérstakt fannst honum. Þetta hlakkaði hann til að prófa.

Á einum staðnum fyrir norðan land, á stað sem honum þótti jafnvel enn áhugaverðari en Bláa lónið, vegna nálægðar við skóginn varð hann fyrir miklum vonbrigðum þegar komið var ofan í á laugardagseftirmiðdegi. Ofan í heitri heilsulindinni var bar og alls staðar var fólk að drekka bjór eða með vínglas í hendi. Það var greinilega vinsælt að koma hingað til að detta í það á laugardegi. Honum brá mikið og þetta eiginlega fyllti mælinn.

Hvers vegna eru heilsulindir Íslands svona óhollar, spurði hann sig.

Túristinn var búinn að ferðast vítt og breitt um landið í heilsuferð sinni til Íslands. Alls staðar varð hann fyrir vonbrigðum þegar öll áherslan á þessum stöðum var að selja áfenga drykki ofan í gestina. Nánast hvergi á eftirsóttustu stöðunum, sá hann hreina heilsueflandi umgjörð. Hann átti ekki til orð. Heilsusamlega ímynd Íslands sem auglýst var með heilsulindum landsins hrundi í huga hans.

Túristinn fékk á örfáum stöðum að upplifa sannar heilsulindir á Íslandi þar sem engin áhersla var lögð á áfenga drykki og þegar hann sat í flugvélinni á leið heim til sín, stóðu þeir staðir upp úr sem raunverulegar heilsulindir landsins. Þetta voru Lýsulaugar á Snæfellsnesi, Giljaböðin í Húsafelli og allar sundlaugar landsins. Þetta voru sannar heilsulindir Íslands að mati hans. Vonandi verða þær fleiri næst þegar túristinn kemur í heilsuferð til Íslands.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×