Skoðun

Dagur til um­hugsunar

Jón Steindór Valdimarsson skrifar

Níundi maí er merkur dagur sem haldinn er hátíðlegur um alla Evrópu. Níundi maí er Evrópudagurinn en þann dag er á ári hverju minnt á gildi evrópskrar samvinnu og þýðingu fyrir framfarir, frið og mannréttindi í álfunni.

Evrópusambandið er helsta birtingarmynd þess hve miklu er hægt að áorka standi þjóðir þétt saman og vinni að sameiginlegum verkefnum sem varða þær allar en hver og ein getur ekki leyst af hendi af eigin rammleik.

EES-samningurinn 30 ára

Á þetta vorum við minnt í gær þegar Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi efndu til uppskeruhátíðar í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins. Ekki leikur vafi á að sá samningur hefur leitt til mikilla framfara á mörgum sviðum í íslensku þjóð- og efnahagslífi.

Tímabært næsta skref

Löngu er tímabært fyrir okkur Íslendinga að stíga næsta rökrétta skref í þátttöku í evrópskri samvinnu. Aðild að Evrópusambandinu á að setja á dagskrá af fullri alvöru í umræðu almennings og ekki síður á vettvangi stjórnmálanna. Kannanir hafa ítrekað sýnt að meirihluti landsmanna er jákvæður gagnvart því að taka á þessum málum og fá að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið.

Sinnuleysi

Því miður hafa flestir stjórnmálaflokkar verið sinnulausir um þetta mál, þó á því séu undantekingar. Þeir hafa afgreitt það á þann hátt að aðild að ESB sé ekki lausn á aðsteðjandi brýnum málum og þess vegna ekki staður né stund til þess að taka málið upp. Þessi afstaða er lýsandi dæmi um það sem okkur Íslendinga skortir helst, langtímasýn og fyrirhyggju. Ákvörðun um að hefja viðræður um aðild Íslands að ESB bæri hins vegar vott um hvort tveggja. Hitt er auðvitað vitað að slíkt ferli tekur mörg ár og vanda þarf til verka. Verði sú vegferð aldrei hafin er borin von að leiða málið til farsælla lykta.

Krónan og vextirnir

Í gær ákvað Seðlabanki Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Fjölskyldur og fyrirtæki stynja undan þessari miklu vaxtabyrði sem er fáheyrð í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íslenska ríkið skuldar háar upphæðir, e.t.v. ekki háar miðað við mörg önnur ríki, en vaxtabyrði Íslands er miklu hærri en annarra ríkja. Hér munar tugum og hundruðum milljarða bara í vaxtakostnaði.

Ein besta leiðin til þess að vinna bug á þessum vanda til framtíðar er að taka upp evru í stað krónu. Eina skynsamlega leiðin er aðild að ESB og sú ferð tekur mörg ár. Það er framtíðarlausn en ekki skammtímalausn. Erum við ekki búin að fá nóg af skammtímalausnum sem eru dæmdar til þess að mistakast?

Evrópuhreyfingin vill langtímalausnir og sért þú þeirrar skoðunar ættir þú að ganga til liðs við okkur og skrá þig á vefslóðinni: www.evropa.is

Höfundur er formaður Evrópuhreyfingarinnar




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×