Skoðun

Ham­borgar­hryggur - minnst við­eig­andi jóla­maturinn

Óskar H. Valtýsson skrifar

Meðferð svína og annarra eldisdýra er svo grimmileg að ólíklegt er að komandi kynslóðir líti meðferð núlifandi kynslóða með velþóknun. Opnum hugann og hættum neyslu afurða úr því helvíti á jörð sem eldisbúin eru.

Þeim sem kynna sér aðstæður dýra í eldisiðnaði kemur á óvart hve mannskepnan getur verið vægðarlaus við þau varnarlaus. Þrátt fyrir stórbrotna vitundarvakningu undanfarinna áratuga varðandi umgengni manna um viðkvæma náttúru, hafa dýrin af einhverri ástæðu verið undanskilin.

Margir sem mega ekki til þess hugsa að mannskepnan spilli náttúrunni, láta sig litlu skipta skelfileg örlög eldisdýra. Sumpart má um kenna að meðferð þeirra er ekki á almanna vitorði; er tryggilega falin innan veggja eldisbúanna enda um að ræða sannkallað helvíti á jörð fyrir varnarlaus dýrin.

En nú líður að jólum með tilheyrandi veisluhöldum. Fórnarlömb veisluhaldanna eru oftar en ekki eldisdýrin blessuð, svínin þar á meðal, enda kvalaafurðir þeirra taldar við hæfi þegar mannskepnan fagnar hátíð ljóssins. Ekkert er þó fjarri sanni en að neysla afurða dýra sem þola álíka þrautir og kvalræði á sinni stuttu lífsleið, eigi eitthvað skylt við þann boðskap sem tengist jólunum.

Aukin menntun og aðgengi að upplýsingum um illa meðferð eldisdýra hefur valdið því að ungt og vel gert fólk hefur verið í fararbroddi baráttu fyrir aukinni velferð dýra. Málflutningur þessa unga fólks einkennist af ríkri siðferðiskennd og samúð með þeim varnarlausu dýrum sem gista kvalakistur eldisbúanna. Tökum þetta unga fólk til fyrirmyndar og breytum neysluvenjum okkar, líka á jólunum.

Höfundur er tækniþróunarstjóri.

Samtök um dýravelferð á Íslandi (SDÍ) standa nú þriðja árið í röð fyrir auglýsingaherferð sem hvetur fólk til þess að kaupa ekki svínakjöt í jólamatinn. Í nóvember og desember er áætlunin að fjalla um svín, fræða fólk um þessi dásamlegu dýr og eiginleikana sem þau búa yfir. Við viljum einnig vekja athygli á slæmum aðbúnaði þeirra. Fylgist með á Instagram, Facebook og Tiktok aðgangi samtakanna á @dyravelferd.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×