Rafíþróttir

Stórmeistaramótið: Showmatch, PubQuiz og úrslitin ráðast í kvöld

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dusty og Þór etja kappi um þennan stórglæsilega verðlaunagrip í kvöld.
Dusty og Þór etja kappi um þennan stórglæsilega verðlaunagrip í kvöld.

Það verður þétt dagskrá á Stöð 2 eSport og Vísi í kvöld þegar úrslit Stórmeistaramótsins í CS:GO ráðast, en liðin sem enduðu í fyrsta og öðru sæti Ljósleiðaradeildarinnar mætast í úrslitaleik í kvöld.

Það eru Dusty og Þór sem mætast í úrslitum, en liðin unnu undanúrslitaleiki sína í gærkvöldi. Dusty og SAGA áttust við þar sem Dusty vann öruggan 2-0 sigur áður en Þór hafði betur gegn Vallea 2-1.

Áður en úrslitaleikurinn fer fram verður þétt dagskrá í þjóðarhöll Íslands í rafíþróttum, Arena. Bein útsending á Stöð 2 eSport og hér á Vísi hefst klukkan 18:30 og fyrsta mál á dagskrá er svokallað Showmatch. Þar mæta sérfræðingar deildarinnar, þeir Kristján Einar Kristjánsson og Tómas Jóhannsson, til leiks. Kristján og Tómas fengu áhorfendur til að kjósa stjörnur deildarinnar til að vera með sér í liði og Kúrekarnir hans Monty og Nautin hans Tomma munu útkljá málin í Bo3.

Að þeim viðburði loknum verður svo PubQuiz í beinni útsendingu frá Arena þar sem áhorfendur heima í stofu geta séð hversu mikið þau vita um CS. Búast má við því að spurningarnar byrji að flæða í kringum 19:30.

Klukkan 20:15 er svo komið að stóru stundinni þegar úrslitaviðureign Stórmeistaramótsins fer fram. Eins og áður segir eru það lið Dusty og Þórs sem eigast við, en deildarmeistarar Dusty ætla sér einnig að komast yfir þann stóra. Þá má fastlega búast við því að Þórsarar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að Dusty taki enn eina dolluna.

„Þetta verður allavega geggjaður leikur!“

Kristján Einar Kristjánsson

Kristján Einar Kristjánsson mun sjá um að lýsa úrslitunum í kvöld líkt og hann hefur gert í allan vetur í Ljósleiðaradeildinni. Hann segir að deildarmeistarar Dusty séu sigurstranglegri, en þó megi búast við æsispennandi rimmu.

„Dusty fór nokkuð þægilega í gegnum undanúrslitin gegn Sögu en fyrirfram var vitað að Þórsarar ættu erfitt verkefni fyrir höndum gegn Vallea, og það reyndist raunin,“ sagði Kristján í samtali við Vísi fyrr í dag.

“Þórsarar lentu undir eftir fyrsta kortið en eftir því sem leið á seríuna fóru gæðin að koma í ljós og Þórsarar unnu seinni kortin sannfærandi.“

„Þetta stillir upp í ótrúlega spennandi úrslitaleik. Dusty og Þór mættust náttúrulega þrisvar á tímabilinu og var staðan innbyrðis 2-1 fyrir Dusty. Eins og staðan er núna eiga Dusty að vera sigurstranglegri í ljósi þess hvernig deildin spilaðist en engu að síður eru Þórsarar komnir í gang og þar af leiðandi er erfitt að spá fyrir um úrslitin. Þetta verður allavega geggjaður leikur!“ sagði Kristján fullur tilhlökkunar að lokum.






×