StebbiC0C0 kominn af krafti aftur inn í Dusty

Snorri Rafn Hallsson skrifar
StebbiC0C0 var allt í öllu hjá Dusty.
StebbiC0C0 var allt í öllu hjá Dusty.

Dusty sýndi gríðarlega yfirburði þegar liðið mætti TEN5ION í Overpass í fyrsta leik 4. umferðar Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO.

Eddezennn tryggði Dusty hnífalotuna og kaus Dusty að byrja í vörn (Counter-Terrorists).

Strax frá upphafi stillti Dusty upp í gríðarþétta vörn. Eddezennn og Bóndi voru fyrirferðarmiklir framan af þar sem Dusty hélt sig aftarlega, lék rólega og tókst þannig að slökkva í aðgerðum TEN5ION þegar á reið.

Ekki vantaði opnanir hjá TEN5ION þar sem Vikki og Hugo fóru fremstir, en einhvern veginn tókst TEN5ION aldrei að gera neitt úr því. Um miðjar lotur lenti TEN5ION iðulega í veseni og hafði ekkert upp úr því.

Einstaklingshæfileikar í liði Dusty ásamt agaðri liðsheild skilaði Dusty 13 lotum í röð.

Staða í hálfleik: Dusty 13 – 2 TEN5ION

Það var ekki langt í land þegar Dusty skellti sér í sóknina, en þar var það StebbiC0C0 sem var allt í öllu. Hann og Thor unnu skammbyssulotuna fyrir Dusty með góðu samspili og eftirleikurinn var auðveldur. StebbiC0C0 og Eddezennn voru báðir með 23 fellur fyrir Dusty en TEN5ION megin var Capping efstur með einungis 13.

Lokastaða: Dusty 16 – 3 TEN5ION

Dusty eru enn með fullt hús stiga í deildinni en TEN5ION hafa ekki enn unnið leik.

Næstu leikir liðanna:

  • TEN5ION – Breiðablik, þriðjudaginn 11/10, klukkan 20:30.
  • Fylkir – Dusty, fimmtudaginn 13/10, klukkan 20:30.

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir