Rafíþróttir

Dusty mætir á Blast: „Erum bara þokkalega „cocky“ fyrir daginn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dusty mætir til leiks á Blast Premier mótaröðina á nýjan leik í dag.
Dusty mætir til leiks á Blast Premier mótaröðina á nýjan leik í dag.

Ljósleiðaradeildarmeistarar Dusty mæta til leiks á BLAST Premier mótinu í CS:GO í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport í dag. Mótið er í raun forkeppni norðurlandana fyrir BLAST mótaröðina, sem mætti líkja við Evrópukeppni í rafíþróttum.

Þetta verður í þriðja sinn sem Dusty tekur þátt í forkeppninni. Liðið tók þátt seinasta vor og svo aftur um haustið, en komst í hvorugt skiptið í gegnum fyrsta hluta forkeppninnar.

Liðsmenn Dusty mæta þó aftur til leiks í dag þegar liðið mætir þýska liðinu Sprout klukkan 11:00 í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport. HAVU og Conquer mætast svo í hinni viðureign riðilsins áður en sigurliðin úr þessum tveimur viðureignum mætast klukkan 14:00 og tapliðin klukkan 15:30. Ákvörðunarleikurinn fer svo að lokum fram klukkan 17:00 og þá kemur í ljós hvaða lið kemst á næsta stig forkeppninnar.

Góður stígandi í liðinu

Páll Sindri Einarsson, eða b0ndi, er spenntur fyrir leikjum dagsins.

Páll Sindri Einarsson, eða b0ndi, er liðsmaður Dusty og hann segir liðið mæta með kassann úti í leiki dagsins.

„Þetta leggst bara ótrúlega vel í okkur. Það er búinn að vera flottur stígandi undanfarna tvo eða þrjá mánuði og það er að ganga bara helvíti vel. Þannig að við erum bara þokkalega „cocky“ fyrir morgundaginn,“ sagði b0ndi í samtali við Vísi í gær.

Eins og áður segir mætir Dusty þýska liðinu Sprout. Páll segir að þrátt fyrir að andstæðingurinn sé sterkur séu möguleikar Dusty nokkuð góðir.

„Við erum búnir að kíkja aðeins yfir leiki hjá þeim og leiki sem þeir hafa spilað áður. Við vitum alveg að við erum að fara að mæta helvíti góðu liði, en það er allt hægt í þessu lífi.“

Liðið betur undirbúið nú en seinast

Páll er að taka þátt í forkeppni Blast í annað skipti á ferlinum, en þetta er í þriðja skipti sem Dusty mætir til leiks í mótaröðina. Hann segir að liðið sé betur undirbúið nú en í haust þegar hann tók þátt í fyrsta skipti.

„Þegar ég fór þarna fyrst þá vorum við búnir að vera saman í rúma tvo mánuði en núna erum við á sjötta eða sjöunda mánuði saman. Þannig að maður er vongóður núna miðað við hvernig maður var þá. Þá spiluðum við náttúrulega við Ecstatic sem var þá mjög „promising“ lið og var búið að vinna fullt af góðum liðum. En það munaði litlu að við myndum taka þá. Þannig að við förum bara brattir inn í þetta.“

Einbeita sér að einum leik í einu

Dusty og Sprout eru þó ekki einu tvö liðin sem mæta til leiks í forkeppnina á morgun. HAVU og Conquer eru einnig í riðlinum, en Páll segir þó að liðið hafi mestmegnis verið að einbeita sér að leiknum gegn Sprout.

„Það er svolítið bara einn leikur í einu og svo mætum við annað hvort HAVU eða Conquer. Mér finnst líklegra að við mætum HAVU ef við vinnum og Conquer ef við töpum. Það þarf bara að taka einn leik í einu og fókusa á Sprout og svo fer þetta bara eins og það fer,“ sagði Páll að lokum.






×