Innlent

Ákærurnar styðjast hvorki við lög né rök

Skýrsla Atlanefndarinnar og þingsályktunartillögur byggðar á henni hafa verið til umræðu á Alþingi síðustu daga.  fréttablaðið/stefán
Skýrsla Atlanefndarinnar og þingsályktunartillögur byggðar á henni hafa verið til umræðu á Alþingi síðustu daga. fréttablaðið/stefán
Lög hníga ekki til þess að Alþingi gefi út ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum og engin rök eru til þess að téð tiltekin brot séu refsiverð eða uppfylli það grundvallarskilyrði að meiri líkur en minni séu á sakfellingu.

Þetta sagði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um landsdómsmálið á Alþingi í gær.

Hún fór yfir ákæruefnin lið fyrir lið og sagði þau ekki standast skoðun. Spurði hún meðal annars hverjum í heiminum hafi verið ljóst að í september 2008 yrði fall Lehman Brothers-bankans með þeim hætti að það hefði keðjuverkandi áhrif nánast um alla veröld. „Ekki virðist fjármálaráðherra Bandaríkjanna hafa verið það ljóst ef marka má viðtöl við hann og þau sjónarmið sem hann hefur látið frá sér fara vegna þessara atburða. Hefur honum verið gerð sök vegna þessa? Nei. Sannleikurinn er auðvitað sá að það var engum manni ljóst í byrjun árs 2008 að allt íslenska bankakerfið, allir stóru bankarnir með tölu, myndu hrynja þá um haustið,“ sagði Ólöf.

Benti hún líka á þá niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis að í síðasta lagi árið 2006 hefði verið unnt að grípa til aðgerða og nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr umfangi og áhættu í bankakerfinu.

Þá furðaði Ólöf sig á ákæru­atriðinu er varðar Icesave. Ekki síst því að ráðherrar séu sakaðir um að hafa ekki búið svo um hnúta að koma Icesave í dótturfélög og þar með ábyrgðinni á herðar skattgreiðenda í Bretlandi og Hollandi. Kvað hún þetta atriði geta orðið vatn á myllu viðsemjendanna og ríkissjóði til verulegs tjóns.

Oddný Harðardóttir, Samfylkingunni, situr í Atlanefndinni og leggur til að Geir Haarde, Árni Mathiesen og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fari fyrir landsdóm. Í ræðu sinni færði hún einkum rök fyrir því hvers vegna hún telji að ekki beri að sækja Björgvin G. Sigurðsson til saka. Sagði hún Geir og Ingibjörgu hafa farið inn á valdsvið Björgvins, hann hafi ekki verið upplýstur um mikilvæg mál eða setið mikilvæga fundi og hann hafi ekki undirritað yfirlýsingu um gjaldeyrisskipti við norrænu seðlabankana.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×