Umfjöllun og viðtöl: Valur - Höttur 88 - 81 | Nýliðarnir héldu í við Val fram að blálokunum Sindri Sverrisson skrifar 28. janúar 2021 21:35 vísir/hulda margrét Valsmenn unnu í fjórðu tilraun sinn fyrsta heimasigur í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir unnu nýliða Hattar, 88-81. Úrslitin réðust á lokamínútunni. Valur, sem hefur unnið báða útileiki sína, er því með sex stig eftir jafnmarga leiki en Höttur er enn í leit að sínum fyrsta sigri þrátt fyrir flotta frammistöðu í kvöld. Jafnt var á með liðunum allan leikinn. Valsmenn gerðu sig seka um fjölda sóknarmistaka í fyrsta leikhluta og gestirnir frá Egilsstöðum nýttu sér það til að komast yfir undir lok hans, 25-22. Valsmenn svöruðu fyrir sig í upphafi annars leikhluta og innkoma hins 18 ára gamla Ástþórs Atla Svalasonar gerði mikið fyrir liðið. Hann skoraði af öryggi úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik, áður en gestirnir komu á hann böndum. Valur komst mest í tíu stiga forystu, 45-35, með þristi frá Ástþóri, en vörn Hattarmanna hélt vel það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og þeir voru nálægt því að ná að jafna metin. Staðan í hálfleik var þó 50-45 Val í vil. Þó að heimamenn hafi skorað fyrstu stigin í seinni hálfleiknum var ákefðin greinilega meiri í gestunum. Eftir að þeir lentu sjö stigum undir, 56-49, skelltu þeir í lás og skoruðu ellefu stig í röð. Matej Karlovic var öflugur fyrir Hött og þó að þriggja stiga skot hans í lok þriðja leikhluta hafi geigað var liðið yfir, 62-59, fyrir lokafjórðunginn. Höttur hélt forystunni fyrstu mínútur leikhlutans en Pavel Eromlinskij, sem manni finnst svo oft gera nákvæmlega það sem þarf en hvorki minna né meira, kom Val í 72-71 þegar tæpar sjö mínútur voru eftir. Valsmenn höfðu svo yfirhöndina á lokamínútunum en Höttur fékk samt nokkur tækifæri til að jafna metin áður en Miguel Cardoso setti niður mikilvægt víti og kom Val í 85-81 þegar 28 sekúndur voru eftir. Hann bætti svo við stigum af vítalínunni í lokin eftir misheppnaðar tilraunir Hattarmanna til að græða eitthvað á flottri frammistöðu sinni. Af hverju vann Valur? Af því að liðið er með hæfileikaríkari leikmenn sem stóðu vörnina vel á lokakaflanum. Fórnfýsin, baráttuviljinn og stemningin virtist frekar vera Hattarmegin í leiknum en leikmönnum liðsins brást bogalistin þegar mest lá við. Hverjir stóðu upp úr? Það er full ástæða til að nefna Ástþór Atla sem nýtti skotin sín svo vel eins og fyrr segir og skoraði 12 stig fyrir Val. Pavel skoraði einnig úr fjórum þristum og alls 15 stig auk þess að taka 9 fráköst, en Sinisa Bilic tók einnig oft af skarið þegar þess þurfti og var stigahæstur Vals með 18 stig. Hjá Hetti var Eysteinn Bjarni Ævarsson mjög öflugur og nýtti skot sín vel, en hann skoraði 15 stig og tók 6 fráköst. Matej Karlovic dreif liðið einnig áfram og skoraði 18 stig. Hvað gekk illa? Valsmenn misstu boltann of oft klaufalega frá sér í sókninni, með misheppnuðu sendingum eða jafnvel dripli í tær. Hattarmenn þurfa betra framlag frá Michael Mallory sem var stundum í feluleik en og nýtti skotin sín illa, en var þó stigahæstur með 19 stig. Hvað gerist næst? Mótið er keyrt hratt, ef til vill of hratt fyrir reynsluboltana í liði Vals. Þeir sækja Þór heim til Akureyrar strax á sunnudaginn en Höttur tekur þá um kvöldið á móti Njarðvík í leit að sínum fyrsta sigri. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.Vísir Óska þess að Þórólfur hendi í þriggja vikna frí „Við erum bara ekki nógu góðir í körfubolta, þegar á reynir. Ég vildi óska þess að Þórólfur [Guðnason, sóttvarnalæknir] henti í þriggja vikna frí svo að við getum æft aðeins. Það vantar lítið upp á en við erum ekki nógu góðir þegar á reynir,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, hundóánægður með enn eitt tapið. „Við gerum bara einstaklingsmistök. Hendum boltanum frá okkur og getum ekki framkvæmt það sem við erum að reyna að vinna með. Það er eitthvað sem við þurfum bara að vinna í,“ sagði Viðar. Hattarmenn komu af miklum krafti í þriðja leikhluta og það var aldrei að sjá í kvöld að liðið væri farið að láta það ná til sín að hafa tapað öllum sínum leikjum í vetur: „Ég óska ekki eftir því að hafa menn sem leggjast niður og fara að grenja í mínu liði. Þetta var fínn körfubolti á köflum hjá okkur en þegar á reynir erum við ekki nógu snjallir. Það þurfum við að yfirstíga og það verður gaman þegar það kemur, ansi fljótlega. Ég hef trú á því að það gerist á sunnudaginn. Við munum fara í gegnum þessa hluti sem vantar upp á, ná að sigrast á þessu, púsla upp sjálfstraustinu og læra af mistökunum sem við höfum verið að gera. Tvær til þrjár æfingar og svo eru það Njarðvíkingar, sem eru ekkert hrifnir af því að vera að ferðast út á land. Það verður bara gaman að gera það á sunnudaginn [ná fyrsta sigrinum] og ég hef fulla trú á því,“ sagði Viðar. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.vísir/vilhelm Einhverjir tala okkur upp en við þurfum að hafa fyrir öllu „Þetta var nákvæmlega eins og ég bjóst við. Höttur er hörkulið og búinn að sýna það í nánast öllum leikjum. Ég er gríðarlega ánægður með að labba burt héðan með sigur,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals. Höttur kom af miklum krafti inn í seinni hálfleik og Valsmenn virtust þá í vandræðum: „Mér fannst við sóknarlega verða staðnaðir – leita að ákveðnum lausnum sem gengu ekki upp. Menn frusu þá svolítið mikið og þeir [Hattarmenn] gengu á lagið. En ég var ánægður með að þegar leið á seinni hálfleikinn hertist vörnin og við urðum ákveðnari í okkar aðgerðum þar. Mér fannst Hattarliðið spila mjög vel á löngum köflum, og sérstaklega eftir slakan leik á móti Njarðvík er ánægjulegt að ná að landa hér sigri,“ segir Finnur. Hann segir Valsliðið í dag ekki geta tekið neinu sem gefnu, hvorki gegn stigalausum nýliðum né öðrum. „Þetta er það sem koma skal hjá okkur. Við þurfum að vera grimmir. Þetta verður erfitt tímabil og mikið af erfiðum leikjum. Það eru einhverjir að reyna að tala okkur upp en staðreyndin er sú að við þurfum að hafa fyrir öllu sem við gerum, sérstaklega eins og staðan er núna.“ En er þá búið að tala Valsliðið of mikið upp? „Við erum með gott lið í höndunum en við erum of stutt á veg komnir til að vera með einhverjar flugeldasýningar. Við þurfum að gera betur varnarlega, læra að spila betur saman og finna hver annan. Það hefur verið „ströggl“, svo ég segi það hreint út. En ég hef trú á því að hver einasti sigur skipti máli. Það þýðir ekki að horfa of langt fram í tímann og við þurfum bara að horfa á hvern leik fyrir sig,“ segir Finnur. Hann segir Frank Booker ekki koma til með að spila með liðinu fyrr en eftir landsleikjahléið í febrúar, vegna meiðsla, og að sömuleiðis stórefist hann um að fá bandarískan leikmann til félagsins fyrr en að loknu því hraðmóti sem er fram að hléinu 13. febrúar. Dominos-deild karla Valur Höttur
Valsmenn unnu í fjórðu tilraun sinn fyrsta heimasigur í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir unnu nýliða Hattar, 88-81. Úrslitin réðust á lokamínútunni. Valur, sem hefur unnið báða útileiki sína, er því með sex stig eftir jafnmarga leiki en Höttur er enn í leit að sínum fyrsta sigri þrátt fyrir flotta frammistöðu í kvöld. Jafnt var á með liðunum allan leikinn. Valsmenn gerðu sig seka um fjölda sóknarmistaka í fyrsta leikhluta og gestirnir frá Egilsstöðum nýttu sér það til að komast yfir undir lok hans, 25-22. Valsmenn svöruðu fyrir sig í upphafi annars leikhluta og innkoma hins 18 ára gamla Ástþórs Atla Svalasonar gerði mikið fyrir liðið. Hann skoraði af öryggi úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik, áður en gestirnir komu á hann böndum. Valur komst mest í tíu stiga forystu, 45-35, með þristi frá Ástþóri, en vörn Hattarmanna hélt vel það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og þeir voru nálægt því að ná að jafna metin. Staðan í hálfleik var þó 50-45 Val í vil. Þó að heimamenn hafi skorað fyrstu stigin í seinni hálfleiknum var ákefðin greinilega meiri í gestunum. Eftir að þeir lentu sjö stigum undir, 56-49, skelltu þeir í lás og skoruðu ellefu stig í röð. Matej Karlovic var öflugur fyrir Hött og þó að þriggja stiga skot hans í lok þriðja leikhluta hafi geigað var liðið yfir, 62-59, fyrir lokafjórðunginn. Höttur hélt forystunni fyrstu mínútur leikhlutans en Pavel Eromlinskij, sem manni finnst svo oft gera nákvæmlega það sem þarf en hvorki minna né meira, kom Val í 72-71 þegar tæpar sjö mínútur voru eftir. Valsmenn höfðu svo yfirhöndina á lokamínútunum en Höttur fékk samt nokkur tækifæri til að jafna metin áður en Miguel Cardoso setti niður mikilvægt víti og kom Val í 85-81 þegar 28 sekúndur voru eftir. Hann bætti svo við stigum af vítalínunni í lokin eftir misheppnaðar tilraunir Hattarmanna til að græða eitthvað á flottri frammistöðu sinni. Af hverju vann Valur? Af því að liðið er með hæfileikaríkari leikmenn sem stóðu vörnina vel á lokakaflanum. Fórnfýsin, baráttuviljinn og stemningin virtist frekar vera Hattarmegin í leiknum en leikmönnum liðsins brást bogalistin þegar mest lá við. Hverjir stóðu upp úr? Það er full ástæða til að nefna Ástþór Atla sem nýtti skotin sín svo vel eins og fyrr segir og skoraði 12 stig fyrir Val. Pavel skoraði einnig úr fjórum þristum og alls 15 stig auk þess að taka 9 fráköst, en Sinisa Bilic tók einnig oft af skarið þegar þess þurfti og var stigahæstur Vals með 18 stig. Hjá Hetti var Eysteinn Bjarni Ævarsson mjög öflugur og nýtti skot sín vel, en hann skoraði 15 stig og tók 6 fráköst. Matej Karlovic dreif liðið einnig áfram og skoraði 18 stig. Hvað gekk illa? Valsmenn misstu boltann of oft klaufalega frá sér í sókninni, með misheppnuðu sendingum eða jafnvel dripli í tær. Hattarmenn þurfa betra framlag frá Michael Mallory sem var stundum í feluleik en og nýtti skotin sín illa, en var þó stigahæstur með 19 stig. Hvað gerist næst? Mótið er keyrt hratt, ef til vill of hratt fyrir reynsluboltana í liði Vals. Þeir sækja Þór heim til Akureyrar strax á sunnudaginn en Höttur tekur þá um kvöldið á móti Njarðvík í leit að sínum fyrsta sigri. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.Vísir Óska þess að Þórólfur hendi í þriggja vikna frí „Við erum bara ekki nógu góðir í körfubolta, þegar á reynir. Ég vildi óska þess að Þórólfur [Guðnason, sóttvarnalæknir] henti í þriggja vikna frí svo að við getum æft aðeins. Það vantar lítið upp á en við erum ekki nógu góðir þegar á reynir,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, hundóánægður með enn eitt tapið. „Við gerum bara einstaklingsmistök. Hendum boltanum frá okkur og getum ekki framkvæmt það sem við erum að reyna að vinna með. Það er eitthvað sem við þurfum bara að vinna í,“ sagði Viðar. Hattarmenn komu af miklum krafti í þriðja leikhluta og það var aldrei að sjá í kvöld að liðið væri farið að láta það ná til sín að hafa tapað öllum sínum leikjum í vetur: „Ég óska ekki eftir því að hafa menn sem leggjast niður og fara að grenja í mínu liði. Þetta var fínn körfubolti á köflum hjá okkur en þegar á reynir erum við ekki nógu snjallir. Það þurfum við að yfirstíga og það verður gaman þegar það kemur, ansi fljótlega. Ég hef trú á því að það gerist á sunnudaginn. Við munum fara í gegnum þessa hluti sem vantar upp á, ná að sigrast á þessu, púsla upp sjálfstraustinu og læra af mistökunum sem við höfum verið að gera. Tvær til þrjár æfingar og svo eru það Njarðvíkingar, sem eru ekkert hrifnir af því að vera að ferðast út á land. Það verður bara gaman að gera það á sunnudaginn [ná fyrsta sigrinum] og ég hef fulla trú á því,“ sagði Viðar. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.vísir/vilhelm Einhverjir tala okkur upp en við þurfum að hafa fyrir öllu „Þetta var nákvæmlega eins og ég bjóst við. Höttur er hörkulið og búinn að sýna það í nánast öllum leikjum. Ég er gríðarlega ánægður með að labba burt héðan með sigur,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals. Höttur kom af miklum krafti inn í seinni hálfleik og Valsmenn virtust þá í vandræðum: „Mér fannst við sóknarlega verða staðnaðir – leita að ákveðnum lausnum sem gengu ekki upp. Menn frusu þá svolítið mikið og þeir [Hattarmenn] gengu á lagið. En ég var ánægður með að þegar leið á seinni hálfleikinn hertist vörnin og við urðum ákveðnari í okkar aðgerðum þar. Mér fannst Hattarliðið spila mjög vel á löngum köflum, og sérstaklega eftir slakan leik á móti Njarðvík er ánægjulegt að ná að landa hér sigri,“ segir Finnur. Hann segir Valsliðið í dag ekki geta tekið neinu sem gefnu, hvorki gegn stigalausum nýliðum né öðrum. „Þetta er það sem koma skal hjá okkur. Við þurfum að vera grimmir. Þetta verður erfitt tímabil og mikið af erfiðum leikjum. Það eru einhverjir að reyna að tala okkur upp en staðreyndin er sú að við þurfum að hafa fyrir öllu sem við gerum, sérstaklega eins og staðan er núna.“ En er þá búið að tala Valsliðið of mikið upp? „Við erum með gott lið í höndunum en við erum of stutt á veg komnir til að vera með einhverjar flugeldasýningar. Við þurfum að gera betur varnarlega, læra að spila betur saman og finna hver annan. Það hefur verið „ströggl“, svo ég segi það hreint út. En ég hef trú á því að hver einasti sigur skipti máli. Það þýðir ekki að horfa of langt fram í tímann og við þurfum bara að horfa á hvern leik fyrir sig,“ segir Finnur. Hann segir Frank Booker ekki koma til með að spila með liðinu fyrr en eftir landsleikjahléið í febrúar, vegna meiðsla, og að sömuleiðis stórefist hann um að fá bandarískan leikmann til félagsins fyrr en að loknu því hraðmóti sem er fram að hléinu 13. febrúar.
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik Handbolti
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik Handbolti