Umfjöllun og viðtöl: HK - KA 25-28 | KA-sigur í Kórnum þrátt fyrir stórleik Sigurjóns Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 16. september 2021 20:30 Arnar Freyr Ársælsson skoraði fjögur mörk í fyrsta deildarleik sínum fyrir KA. vísir/vilhelm KA sigraði HK, 25-28, í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Sigur KA-manna var nokkuð öruggur en þeir komust mest níu mörkum yfir. HK-ingar löguðu stöðuna undir lokin. Einar Rafn Eiðsson og Óðinn Þór Ríkharðsson léku sinn fyrsta deildarleik fyrir KA og skoruðu báðir sex mörk. Patrekur Stefánsson skoraði fimm og Nicholas Satchwell varði sextán skot í marki gestanna (39 prósent), flest í seinni hálfleik. Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði sjö mörk fyrir HK en besti leikmaður liðsins, og vallarins, var markvörðurinn Sigurjón Guðmundsson. Hann varði 21 skot, mörg hver úr dauðafærum, eða 43 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Eftir jafnar upphafsmínútur skoraði KA þrjú mörk í röð og komst í 5-8. HK svaraði með fjórum mörkum í röð og komst yfir, 9-8. Þá var Jónatan Magnússyni, þjálfara KA, nóg boðið og tók leikhlé. Að því náðu KA-menn betri tökum á leiknum og endurheimtu forskotið. Sigurjón Guðmundsson varði stórvel í marki HK.vísir/vilhelm KA gekk vel að opna vörn HK en Sigurjón reyndist gestunum erfiður og varði mjög vel í fyrri hálfleik, alls tíu skot, eða tæplega fjörutíu prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Á meðan var sóknarleikur HK frekar stirður sem ræðst kannski af samsetningunni á liðinu. HK er með fullt af rétthentum útispilurum og línumönnum en enga örvhenta skyttu og engan rétthentan hornamann meðan Símon Michael Guðjónsson er meiddur. HK gekk illa að koma sér í opin færi og þurfti að treysta á misgóð skot fyrir utan. Sum voru slök en HK-ingar voru líka óheppnir með mörg skot sem fóru í markrammann. KA komst í fyrsta sinn fjórum mörkum yfir þegar Allan Norðberg skoraði, 13-17, en Kristján Ottó Hjálmsson sá til þess að munurinn í hálfleik var þrjú mörk, 13-16, þegar hann skoraði með skoti frá miðju í þann mund sem fyrri hálfleiknum lauk. Jón Heiðar Sigurðsson átti góðan leik fyrir KA.vísir/vilhelm Sóknarleikur HK var ekki góður í fyrri hálfleik en hann var hátíð miðað við það sem þeir buðu upp á framan af þeim seinni. Vörn KA var sterk, Satchwell byrjaði að verja og smám saman breikkaði bilið milli liðanna. KA-menn náðu mest níu marka forskoti, 19-28, þegar sjö mínútur voru eftir. Þá tóku HK-ingar sig taki og skoruðu síðustu sex mörk leiksins og því munaði aðeins þremur mörkum á liðunum, 25-28, þegar uppi var staðið. En sigur KA var öruggari en lokatölurnar gáfu til kynna. Einar Rafn Eiðsson sendir boltann út í hornið.vísir/vilhelm Af hverju vann KA? KA-menn geta spilað betur en gerðu alveg nóg til að vinna öruggan sigur. KA klúðraði fullt af dauðafærum en skellti í lás í vörninni í byrjun seinni hálfleiks þar sem liðið náði afgerandi forskoti. Hverjir stóðu upp úr? Sem fyrr sagði átti Sigurjón frábæran leik. Verkefnið var ekki auðvelt fyrir hann enda fékk hann á sig haug af dauðafærum en hann varði samt yfir tuttugu skot. Óðinn og Einar Rafn voru drjúgir fyrir KA og þá lék Patrekur vel. Jón Heiðar Sigurðsson stjórnaði sókninni af myndugleik og Satchwell varði vel í seinni hálfleik. Hvað gekk illa? Sóknarleikur HK var ekki burðugur í kvöld, sérstaklega í seinni hálfleik. HK skoraði aðeins sex mörk á fyrstu 22 mínútum seinni hálfleiks og var aðeins með 42 prósent skotnýtingu. HK-ingum gekk bölvanlega að hitta markið og áttu fjölmörg skot í markrammann. Hvað gerist næst? Eftir viku sækir HK Íslandsmeistara Vals heim á meðan KA fær hina nýliðana, Víking, í heimsókn. Sebastian: Verðug frammistaða fyrir Olís-deildina Sebastian Alexandersson segir að sínir menn geti bætt margt en var nokkuð ánægður með frammistöðuna gegn KA.vísir/vilhelm Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, var nokkuð brattur þrátt fyrir tapið fyrir KA. „Við vildum vinna en við gerum okkur grein fyrir því að flestir andstæðingarnir í þessari deild eru betri en við. Við þurfum að gera færri mistök ef við ætlum að eiga möguleika á stigum. Það var margt rosalega jákvætt og miklar framfarir frá síðasta leik á föstudaginn,“ sagði Sebastian og vísaði til tapsins fyrir Fram í Coca Cola bikarnum. „Það er eitthvað til að taka með sér inn í framhaldið, ekki það að ég hlakki brjálæðislega til að mæta Val í næsta leik. En það þarf víst að spila við þá líka,“ sagði Sebastian en HK sækir Íslandsmeistarana heim eftir viku. Þjálfarinn var nokkuð sáttur við varnarleik HK í kvöld. „Mér fannst við standa vörnina á löngum köflum vel. Við lokuðum á margt af því sem KA reyndi að gera en þeir eru bara með svo færa einstaklinga. Þeir fengu höndina oft upp sem var gott hjá okkur. Svo vorum við pínu óheppnir, skutum í stangirnar og slánna. Svo komu nokkrar ákvarðanir sem þarf að endurskoða. Það mun taka okkur smá tíma að ráða við að spila á þessum hraða.“ HK lenti mest níu mörkum undir en hætti ekki og lagaði stöðuna verulega undir lokin. „Af hverju eigum við að hætta? Það eru bara lúserar sem hætta og við erum ekki lúserar,“ sagði Sebastian. Sigurjón Guðmundsson átti stórleik í marki HK og varði 21 skot. „Hann byrjaði illa, Róbert [Örn Karlsson] fór að hita upp og þá hrökk hann í gang. Svo um leið og hann hætti að verja stóð hinn upp og þá fór hann aftur í gang. Það sýnir vilja til að vera inni á og ég er hrikalega ánægður með það,“ sagði Sebastian. HK átti ekki mikla möguleika í bikarleiknum gegn Fram en frammistaðan í kvöld var öllu betri. „Þá var eins og við værum í miðri loftárás í stríði, alveg í losti. En í seinni hálfleik fannst mér við miklu betri en Fram þótt þeir hafi kannski slakað aðeins á. Mér fannst við sýna flotta frammistöðu, verðuga fyrir Olís-deildina og það er hellingur sem við getum bætt okkur í. Þetta er eitthvað til að byggja á en jesús minn, ég ætla ekki að fara að halda eitthvað partí fyrir þetta. Það er brjáluð vinna framundan,“ sagði Sebastian að lokum. Jónatan: Verður vonandi ekki besti leikur okkar í vetur Jónatan Magnússon fannst sínir menn vera með góða stjórn á leiknum.vísir/vilhelm Jónatan Magnússon, þjálfari KA, gat vel við unað eftir sigurinn í Kórnum. „Fyrst og fremst er ég ánægður með sigurinn og það er gott að vera komnir á blað. Það var smá losarabragur á þessu undir lokin en ég er ánægður með stigin tvö. Eins og við vissum fyrirfram er mikil barátta og mikið hjarta í HK. Framan af vantaði að jafna þá í þeim atriðum en eftir því sem leið á leikinn lagaðist þetta,“ sagði Jónatan. KA var þremur mörkum yfir í hálfleik en tók góðan sprett fyrri hluta seinni hálfleiks og náði þá góðu forskoti. „Við fengum einhver stopp, markvörslu og mörk úr hraðaupphlaupum. Svo kom smá kafli í byrjun seinni hálfleik þar sem HK fékk ekki vörslur. Það sem ég er mest óánægður með hjá mínum mönnum er færanýtingin,“ sagði Jónatan en Sigurjón Guðmundsson varði yfir tuttugu skot í marki HK. „Það voru rosalega mörg færi sem við klúðruðum. Ég var ósáttastur með það og varnarleikinn í fyrri hálfleik en það lagaðist eftir því sem á leið. Partur af því að spila sókn er að nýta færin og það var kannski aðalástæðan fyrir því að munurinn var ekki meiri en þrjú mörk í hálfleik.“ Jónatan fannst sínir menn hafa góð tök á leiknum þótt það hafi tekið tíma að stinga HK-inga af. „Mér leið vel allan leikinn og mér fannst við vera með stjórn á honum. Ég er ánægður með að vera kominn á blað. Ég var svekktur eftir bikarleikinn síðast þannig að það var gott fyrir okkur að vinna. En ég held að allir geri sér grein fyrir því að þetta verði vonandi ekki besti leikur okkar í vetur,“ sagði Jónatan að endingu. Olís-deild karla HK KA
KA sigraði HK, 25-28, í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Sigur KA-manna var nokkuð öruggur en þeir komust mest níu mörkum yfir. HK-ingar löguðu stöðuna undir lokin. Einar Rafn Eiðsson og Óðinn Þór Ríkharðsson léku sinn fyrsta deildarleik fyrir KA og skoruðu báðir sex mörk. Patrekur Stefánsson skoraði fimm og Nicholas Satchwell varði sextán skot í marki gestanna (39 prósent), flest í seinni hálfleik. Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði sjö mörk fyrir HK en besti leikmaður liðsins, og vallarins, var markvörðurinn Sigurjón Guðmundsson. Hann varði 21 skot, mörg hver úr dauðafærum, eða 43 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Eftir jafnar upphafsmínútur skoraði KA þrjú mörk í röð og komst í 5-8. HK svaraði með fjórum mörkum í röð og komst yfir, 9-8. Þá var Jónatan Magnússyni, þjálfara KA, nóg boðið og tók leikhlé. Að því náðu KA-menn betri tökum á leiknum og endurheimtu forskotið. Sigurjón Guðmundsson varði stórvel í marki HK.vísir/vilhelm KA gekk vel að opna vörn HK en Sigurjón reyndist gestunum erfiður og varði mjög vel í fyrri hálfleik, alls tíu skot, eða tæplega fjörutíu prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Á meðan var sóknarleikur HK frekar stirður sem ræðst kannski af samsetningunni á liðinu. HK er með fullt af rétthentum útispilurum og línumönnum en enga örvhenta skyttu og engan rétthentan hornamann meðan Símon Michael Guðjónsson er meiddur. HK gekk illa að koma sér í opin færi og þurfti að treysta á misgóð skot fyrir utan. Sum voru slök en HK-ingar voru líka óheppnir með mörg skot sem fóru í markrammann. KA komst í fyrsta sinn fjórum mörkum yfir þegar Allan Norðberg skoraði, 13-17, en Kristján Ottó Hjálmsson sá til þess að munurinn í hálfleik var þrjú mörk, 13-16, þegar hann skoraði með skoti frá miðju í þann mund sem fyrri hálfleiknum lauk. Jón Heiðar Sigurðsson átti góðan leik fyrir KA.vísir/vilhelm Sóknarleikur HK var ekki góður í fyrri hálfleik en hann var hátíð miðað við það sem þeir buðu upp á framan af þeim seinni. Vörn KA var sterk, Satchwell byrjaði að verja og smám saman breikkaði bilið milli liðanna. KA-menn náðu mest níu marka forskoti, 19-28, þegar sjö mínútur voru eftir. Þá tóku HK-ingar sig taki og skoruðu síðustu sex mörk leiksins og því munaði aðeins þremur mörkum á liðunum, 25-28, þegar uppi var staðið. En sigur KA var öruggari en lokatölurnar gáfu til kynna. Einar Rafn Eiðsson sendir boltann út í hornið.vísir/vilhelm Af hverju vann KA? KA-menn geta spilað betur en gerðu alveg nóg til að vinna öruggan sigur. KA klúðraði fullt af dauðafærum en skellti í lás í vörninni í byrjun seinni hálfleiks þar sem liðið náði afgerandi forskoti. Hverjir stóðu upp úr? Sem fyrr sagði átti Sigurjón frábæran leik. Verkefnið var ekki auðvelt fyrir hann enda fékk hann á sig haug af dauðafærum en hann varði samt yfir tuttugu skot. Óðinn og Einar Rafn voru drjúgir fyrir KA og þá lék Patrekur vel. Jón Heiðar Sigurðsson stjórnaði sókninni af myndugleik og Satchwell varði vel í seinni hálfleik. Hvað gekk illa? Sóknarleikur HK var ekki burðugur í kvöld, sérstaklega í seinni hálfleik. HK skoraði aðeins sex mörk á fyrstu 22 mínútum seinni hálfleiks og var aðeins með 42 prósent skotnýtingu. HK-ingum gekk bölvanlega að hitta markið og áttu fjölmörg skot í markrammann. Hvað gerist næst? Eftir viku sækir HK Íslandsmeistara Vals heim á meðan KA fær hina nýliðana, Víking, í heimsókn. Sebastian: Verðug frammistaða fyrir Olís-deildina Sebastian Alexandersson segir að sínir menn geti bætt margt en var nokkuð ánægður með frammistöðuna gegn KA.vísir/vilhelm Sebastian Alexandersson, þjálfari HK, var nokkuð brattur þrátt fyrir tapið fyrir KA. „Við vildum vinna en við gerum okkur grein fyrir því að flestir andstæðingarnir í þessari deild eru betri en við. Við þurfum að gera færri mistök ef við ætlum að eiga möguleika á stigum. Það var margt rosalega jákvætt og miklar framfarir frá síðasta leik á föstudaginn,“ sagði Sebastian og vísaði til tapsins fyrir Fram í Coca Cola bikarnum. „Það er eitthvað til að taka með sér inn í framhaldið, ekki það að ég hlakki brjálæðislega til að mæta Val í næsta leik. En það þarf víst að spila við þá líka,“ sagði Sebastian en HK sækir Íslandsmeistarana heim eftir viku. Þjálfarinn var nokkuð sáttur við varnarleik HK í kvöld. „Mér fannst við standa vörnina á löngum köflum vel. Við lokuðum á margt af því sem KA reyndi að gera en þeir eru bara með svo færa einstaklinga. Þeir fengu höndina oft upp sem var gott hjá okkur. Svo vorum við pínu óheppnir, skutum í stangirnar og slánna. Svo komu nokkrar ákvarðanir sem þarf að endurskoða. Það mun taka okkur smá tíma að ráða við að spila á þessum hraða.“ HK lenti mest níu mörkum undir en hætti ekki og lagaði stöðuna verulega undir lokin. „Af hverju eigum við að hætta? Það eru bara lúserar sem hætta og við erum ekki lúserar,“ sagði Sebastian. Sigurjón Guðmundsson átti stórleik í marki HK og varði 21 skot. „Hann byrjaði illa, Róbert [Örn Karlsson] fór að hita upp og þá hrökk hann í gang. Svo um leið og hann hætti að verja stóð hinn upp og þá fór hann aftur í gang. Það sýnir vilja til að vera inni á og ég er hrikalega ánægður með það,“ sagði Sebastian. HK átti ekki mikla möguleika í bikarleiknum gegn Fram en frammistaðan í kvöld var öllu betri. „Þá var eins og við værum í miðri loftárás í stríði, alveg í losti. En í seinni hálfleik fannst mér við miklu betri en Fram þótt þeir hafi kannski slakað aðeins á. Mér fannst við sýna flotta frammistöðu, verðuga fyrir Olís-deildina og það er hellingur sem við getum bætt okkur í. Þetta er eitthvað til að byggja á en jesús minn, ég ætla ekki að fara að halda eitthvað partí fyrir þetta. Það er brjáluð vinna framundan,“ sagði Sebastian að lokum. Jónatan: Verður vonandi ekki besti leikur okkar í vetur Jónatan Magnússon fannst sínir menn vera með góða stjórn á leiknum.vísir/vilhelm Jónatan Magnússon, þjálfari KA, gat vel við unað eftir sigurinn í Kórnum. „Fyrst og fremst er ég ánægður með sigurinn og það er gott að vera komnir á blað. Það var smá losarabragur á þessu undir lokin en ég er ánægður með stigin tvö. Eins og við vissum fyrirfram er mikil barátta og mikið hjarta í HK. Framan af vantaði að jafna þá í þeim atriðum en eftir því sem leið á leikinn lagaðist þetta,“ sagði Jónatan. KA var þremur mörkum yfir í hálfleik en tók góðan sprett fyrri hluta seinni hálfleiks og náði þá góðu forskoti. „Við fengum einhver stopp, markvörslu og mörk úr hraðaupphlaupum. Svo kom smá kafli í byrjun seinni hálfleik þar sem HK fékk ekki vörslur. Það sem ég er mest óánægður með hjá mínum mönnum er færanýtingin,“ sagði Jónatan en Sigurjón Guðmundsson varði yfir tuttugu skot í marki HK. „Það voru rosalega mörg færi sem við klúðruðum. Ég var ósáttastur með það og varnarleikinn í fyrri hálfleik en það lagaðist eftir því sem á leið. Partur af því að spila sókn er að nýta færin og það var kannski aðalástæðan fyrir því að munurinn var ekki meiri en þrjú mörk í hálfleik.“ Jónatan fannst sínir menn hafa góð tök á leiknum þótt það hafi tekið tíma að stinga HK-inga af. „Mér leið vel allan leikinn og mér fannst við vera með stjórn á honum. Ég er ánægður með að vera kominn á blað. Ég var svekktur eftir bikarleikinn síðast þannig að það var gott fyrir okkur að vinna. En ég held að allir geri sér grein fyrir því að þetta verði vonandi ekki besti leikur okkar í vetur,“ sagði Jónatan að endingu.
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik