Handbolti

Slóvenía bíður Ís­lands en ballið búið hjá heima­konum

Sindri Sverrisson skrifar
Slóvenar stöðvuðu heimakonur sem eru úr leik á EM, eftir tap í Innsbruck í kvöld.
Slóvenar stöðvuðu heimakonur sem eru úr leik á EM, eftir tap í Innsbruck í kvöld. EHF EURO 2024

Evrópumót kvenna í handbolta heldur áfram, að stórum hluta í Austurríki, án þess að austurríska landsliðið verði með því það er úr leik eftir tap gegn Slóveníu í kvöld.

Keppni lýkur í þremur riðlum í kvöld og er nú þegar ljóst að það verða Slóvenar sem fylgja norsku stelpunum hans Þóris Hergeirssonar upp úr E-riðli.

Sigur Slóveníu gegn Austurríki í kvöld var þó tæpur, eða 25-24, eftir að Austurríki hafði til að mynda komist í 23-22 þegar skammt var eftir. Heimakonur skoruðu hins vegar bara eitt mark á síðustu níu mínútum leiksins.

Austurríki og Slóvakía sitja því eftir í riðlinum og ljóst að margir eru vonsviknir í Innsbruck í kvöld, bænum þar sem Ísland verður á ferðinni á morgun í leiknum mikilvæga við Þýskaland.

Slóvenía og Noregur bíða því sigurliðsins úr leik Íslands og Þýskalands í milliriðlakeppninni, en í þeim milliriðli verða einnig Holland og tvö lið úr D-riðli sem klárast á morgun.

Pólland sló Spán úr leik

Pólland skildi Spán eftir í C-riðli með 26-23 sigri í leik liðanna, og fylgir því Frakklandi áfram í milliriðlakeppnina. 

Örlög Norður-Makedóníu sem neðsta lið A-riðils réðust svo endanlega með risatapi, 29-19, gegn Ungverjum sem höfðu þegar tryggt sig áfram í milliriðlakeppnina. Svíum dugar að vinna eða gera jafntefli við Tyrkland í kvöld til að fylgja Ungverjum upp úr riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×