Fótbolti

Liðs­félagi Alberts á bata­vegi

Aron Guðmundsson skrifar
Bove borinn af velli í leik Fiorentina og Inter Milan í gær.
Bove borinn af velli í leik Fiorentina og Inter Milan í gær. Vísir/Getty

Edoardo Bove, liðsfélagi Alberts Guðmundssonar hjá ítalska úrvalsdeildarfélaginu Fiorentina, er á batavegi eftir að hafa hnigið niður í leik með liðinu í gær. 

Í morgun bárust nýjar fréttir af líðan Bove en hann er með meðvitund, líðan hans er sögð stöðug og er hann farinn að geta svarað þeim spurningum sem beint er að honum. Þá hefur komið í ljós að engin skaði hefur orðið á heila hans eða hjarta.

Stöðva þurfti leik Firoentina og Inter er liðin mættust í Serie A á Ítalíu í dag eftir að Bove hneig niður snemma leiks. Albert Guðmundsson var mættur aftir í leikmannahóp Fiorentina eftir um sex vikna löng meiðsli. Hann var á varamannabekk liðsins.

Leikurinn var aðeins rúmlega 15 mínútna gamall þegar gera þurfti hlé á honum.  Bove, 22 ára gamall leikmaður Fiorentina, hafði þá hnigið til jarðar.

Strax var ljóst að um alvarlegt atvik væri að ræða. Leikmenn beggja liða hópuðust í kringum Bove og kölluðu á sjúkrateymi liðanna. Bove var að lokum borinn af velli og fluttur með sjúkrabíl á næsta sjúkrahús. Eðli málsins samkvæmt var ákveðið að fresta leik Fiorentina og Inter um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×